text
stringlengths
0
993k
Hér er ein frá Gústa Óskars . En þetta eu bátar Einars ríka Sigurðssonar , frá vinstri talið Freyja VE 260 , Týr VE 315 , Frigg VE 316 , Nanna VE 300 og Óðinn VE 317 . Á þessum tíma hefur Einar sótt mikið í goða fræðina varðandi nöfn á báta sína . Einig átti Einar á þessum tíma bátana Njörð , Þór , Frey og Braga . Hér er önnur eyjan sem lennti líka í þeim Danska potti Suðurey VE 500 smíðuð á Akureyri árið 1973 sem Álsey VE 502 en það voru einu nöfnin sem báturinn bar . Eitt systurskip átti hún sem var eins í alla staði en það var Bjarnarey VE 501 en báðir voru þeir smíðaðir fyrir Einar ríka Sigurðsson útgerðarmann . Sennilega eru þetta síðustu bátarnir sem smíðaðir voru á Akureyri með gömlu gerðina af rassi en þeir sem á eftir komu voru allir með gaflrassa . Hér er ein af Heimaey VE 1 en þessi Boizenburgari hét aðeins tveimur nöfnum á tæplega 40 ára ferli sínum en fyrra nafnið var Náttfari ÞH 60. báturinn endaði svo í Danska pottinum í Grenaa eins og svo margir aðrir . einhverra hluta vegna þá var þessi A Þjóðverji með brettara stefni upp á við heldur en hinir 17 bræðurnir og sást það vel þegar þeir lágu margir saman við bryggju Um kvöldmatarleitið í gær sigldu hér inn á höfnina tvö 50 ára eikarskip sem bæði voru smíðuð á Akureyri á sínum tíma . Ég fór um borð og hitti áhfnarmeðlimi sem sýndu mér skipin að innan sem eru glæsileg í alla staði . Hér í Vestmannaeyjum er litill sem engin áhugi fyrir varðveislu svona skipa með það að leiðarljósi að þau séu notuð í stuttar siglingar hér kring um Eyjar enda er það besta sem hægt er að gera fyrir svona skip hafa þau í notkun . En hér eru nokkrar myndir sem ég tók í gærkvöldi . Knörrinn fyrsti báturinn sem hóf hvalaskoðun frá Húsavík en þær hófust árið 1995 á vegum Norðursiglingar í dag er fjöldinn allur af bátum í þessum bransa og mest á Húsavík en Reykjavík hefur á undanförnum árum boðið upp á svona siglingar með vaxandi eftirspurn . Húni II er í dag stærðsta eikarskipið sem enn er til í landinu en hann var smíðaður á Akureyri árið 1963 Hér sigla þeir svo út aftur kl 22,00 í gærkvöldi . Set hér inn eina mynd af Gígju VE 340 sem upphaflega hét Kristján Valgeir GK 575 skipið var smíðað í Harstad í Noregi árið 1966 . seinna bar hann svo númerið NS 150 enn seinna hét hann svo Grindvíkingur GK 606 og Gígja RE 340 og VE 340 . Skipið var tvílengt fyrst árið 1976 og var þá líka byggt yfir dekkið seinni lengingin var svo árið 1979 . Síðasta nafnið sem skipið bar var svo Stakkanes IS 848 . Hann endaði lífdagana í Noregi en þangað fór hann á vegum björgunnarmanna vegna Guðrúnar Gísladóttur KE . Alltaf þótti mér Gígjan fallegra skip en systurkipið Jón Garðar GK seinna Sæbjörg VE kanski vegna þess að brúin fór betur Gígjuni . Tók þessa syrpu um daginn í Grindavík af Halldóru GK 40 . Ekki er þetta nú fegursta fley sem ég hef myndað en báturinn var smíðaður í Hveragerði já Hveragerði árið 1987 sem Þórunn RE síðan bar hann nöfnin Hrefna RE , Hrefna HF og svo Halldóra GK . Báturinn er smíðaður úr áli og var hann lengdur árið 1989 og er mældur í dag rúmm 18 tonn . Surtsey VE 2 Akureyrarsmíði frá árinu 1972 . hann var yfirbyggður árið 1980 . Báturinn hét svo Stokksey ÁR 50 frá árinu 1982 og frá árinu 1992 heitir hann svo Aldey ÞH 110 . Hann er seldur úr landi til Skotlands árið 1996 þar var hann gerður út en sökk að endingu . Hér er syrpa frá Sissa Þórarinns af Hval 9 þar sem hann er í stóra slippnum í Reykjavíkþessa dagana og er skipið að fá sveringu fyrir komandi sumarvertíð . Svo er það spurning hvort Hvalur 8 verði ekki tekinn líka í smá upplyftingu fyrir hvalvertíðina . Hvalur 9 er smíðaður í Noregi árið 1952 og er því orðinn sextugur hann er búinn 1900 hestafla 4 þjöppu gufuvél en þess má geta að nýsköpunartogararnir okkar voru með 3 þjöppu 1000 hesta gufuvél . Svo mikið er aflið í Hval 9 sem allur er mjög flottur að innan og safngripur mikill í orðsins fyllstu . Hér er ein af gömlu Smáey VE 144 . Þessi var smíðaður á ísafirði árið 1982 sem Guðlaugur Guðmundsson SH 97 og var hann fyrst gerður út frá Ólafsvík einn fyrstu alvöru trollpungana sem gerðir voru út hérlendis . Smáeyjar nafnið fær hann svo árið 1982 svo hann var ekki lengi í Ólafsvík . Báturinn var lengdur á Seyðisfirði árið 1998 og seldur til Reykjavíkur um 2002 og fær þá nafnið Björn RE 79 ekki stoppaði hann lengi í Rvk því ári seinna er hann orðinn Þorvarður Lárusson SH 129 frá Grundarfirði . Hann er búinn að liggja lengi verkefnalaus við bryggju í Grundarfiði og gerir sennilega enn þann dag í dag Það var alveg ótrúlegt hvað Hilmar Rósmundsson skipstjóri og hans menn fiskuðu á þennan 67 tonna bát og voru alltaf í toppnum á vertíðum hér á árum áður og fóru hátt í 1700 tonn eina vertíðina og held hann hafi verið hæðstur yfir landið árið 1969 en Sæbjörg var lang minnsti báturinn sem var í toppnum enda voru þar mun stærri og nýrri bátar sem flestir voru um 150 til 200 tonn að stærð . Hér er ein sem tekin var á Siglufirði sumarið 1940 en þarna er Meta VE 236 á landleið með 620 mál af síld sem mundi þá vera um 83 tonn og er það nokkuð góður afli á 36 tonna bát ekki satt ? Skipstjóri þarna var Knud Andersen en hann var afi Sindra Óskarssonar skipstjórans míns á Frá VE 78 . Læt svo eina fljóta hér með af Metu eins og hún leit út í restina en frá árinu 1959 hét hún Haförn VE 23 .
Dagurinn í dag er dagurinn þinn . Þú getur gert við hann hvað sem þú vilt . Gærdagurinn áttir þú . Honum getur þú ekki breytt . Um morgundaginn veist þú ekki neitt . En daginn í dag átt þú . Gefðu honum allt sem þú megnar , svo einhver finni í kvöld að það er gott að þú ert til .
Í dag kom Aðalsteinn Jónsson SU til hafnar í Reykjavík . Aðalsteinn Jónsson SU á leið til hafnar í Reykjavík . Flutningaskipið Selfoss kom til Reykjavíkur . Rósin sigldi með ferðamenn í hvalaskoðun . Bergur VE 44 gerir sig kláran til að fara á veiðar . Strandveiðibáturinn Þröstur á siglingu innan hafnar í Reykjavík . Helga María AK fer á veiðar . Dráttarbáturinn Magni fór í slipp .
Hér á síðunni má finna ýmsar upplýsingar um Björgunarhesta , myndir , skýrslur og tengla . Einnig erum við með lokaða Facebook síðu , Björgunarhestar , fyrir meðlimi Björgunarhesta og aðra áhugasama . Æfing var haldin þann 24. nóvember að Hæl í Flókadal þar sem Landinn heiðraði okkur með nærveru sinni , þátturinn var sýndur sunnudaginn 2. desember á RÚV . Myndir frá æfingunni eru komnar inn á síðuna . Í tengslum við ráðstefnuna Björgun 2012 nú í október síðastliðnum var haldið námsskeið í notkun hesta við leit og björgun þar sem fenginn var leiðbeinandi frá Bandaríkjunum til að kenna . T'mi Finkle var leiðbeinandi á námsskeiðinu en hún er jafnframt stjórnandi TrotSAR hópsins sem við heimsóttum í apríl sl og hefur unnið að alþjóðlegum stöðlum fyrir björgunarmenn á hestum . Námsskeiðið byggðist upp á fyrirlestrum og verklegum æfingum ásamt því sem nemendur fóru í gegnum svokallað HRE-mat og stóðust allir þátttakendur það próf. Á ráðstefnunni Björgun 2012 var T'mi svo með þrjá ólíka fyrirlestra , þar á meðal einn um leit og björgun með hestum . Allir voru sammála um að námsskeiðið hefði verið skemmtilegt og gagnlegt . Sjá myndir . Nú 5. - 12. apríl 2012 lögðu sex meðlimir Björgunarhesta land undir fót og brugðu sér til Bandaríkjanna til þess að heimsækja hestabjörgunarsveitina TrotSAR . Þar tókum við þátt í tveggja daga æfingu með TrotSAR hópnum og hittum ýmsa viðbragðsaðila bæði í Maryland og Virginíufylkjum . Mjög áhugaverð og lærdómsrík ferð . Sjá grein í Around Horse Country , Björgun , myndir og skýrslu . Ráðstefnan Björgun 2010 var haldin 22. - 24. október á Grand Hótel í Reykjavík , og meðal erinda var kynning á starfi Leitarhesta Borgarfjarðar . Halla Kjartansdóttir var með erindið fyrir hönd hópsins og sátu 25 - 30 manns fyrirlesturinn . Það kom í ljós að áhugi er víða um land á stofnun leitarhestahópa . Leiðinda hóstapest hrjáði margt hrossið í byrjun sumars og hafði meðal annars áhrif á æfingar hjá Leitarhestar Borgarfjarðar . Komin er inn skýrsla eftir æfingu sem var 21. ágúst . Einnig er búið að setja inn myndir frá þrautabraut , ágúst æfingunni og afmælisæfingu FBSR . Hópurinn tók þátt í veglegri afmælisæfingu Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík ( FBSR ) þann 2. október . Auglýsingarfrétt Skessuhorns um ráðstefnu sl. sunnudag ( 21. feb ) Leitarhesta Borgarfjarðar má skoða hér . Iceland Review ( á ensku ) netfrétt er hér . Hestar við leit og björgun ! Grein um leitarhesta í Björgun 2. tbl 9. árg 2009 , blaði Slysavarnarfélagsins Landsbjargar , er nú aðgengileg hér á vefnum . Sama gildir um forsíðufrétt Fréttablaðsins þann 24. febrúar s.l. og efni af visir.is ( sem einnig birtist á síðu Eiðfaxa og Hestafrétta ) . Sjá nánar undir - - Skrár - - Þeir sem hafa áhuga á að afla sér þekkingar hér og nú er bent á vefsíðukrækjur hér til hliðar . Þeir sem vilja hafa beint samband við undirbúningshóp er bent á - - Gestabók - - hér á síðunni eða senda tölvupóst á msar _ iceland ( hjá ) yahoo.com Takk fyrir ! ( " , )
867 . Það var fyrir nokkrum dögum síðan að manni nokkrum varð laus höndin í byggingarvöruversluninni Bauhaus . Ekki þó með þeim hætti að hann veittist að neinu öðru fólki sem þarna var statt , heldur réðist hann að brunaboða þeirrar gerðar sem er svo algeng á slíkum stöðum , þ.e. rofa sem er inni í litlum kassa með gleri yfir og er tengdur bjöllu . Maðurinn braut glerið og ýtti á rofann . Ekki var þó neinn eldur laus og ekki er vitað hvað manninum gekk til með háttalaginu . En þá fór ferli í gang sem erfiðara reyndist að stöðva en koma af stað . Bjallan glumdi og sjálfvirkt aðvörunarkerfi fór í gang og svolítið tölvuleg karlmannsrödd leiðbeindi viðskiptavinum samkvæmt forritaðri áætlun nokkurn vegin á eftirfarandi leið . " Viðskiptavinir athugið ; það er eldur laus í byggingunni . Skiljið eftir kerrurnar og fylgið leiðbeiningum starfsmanna . " Fólk staldraði við , horfði forviða í kring um sig og hélt síðan áfram eins og ekkert hefði í skorist . Enginn sýndi þess merki að til stæði að hætta við verslunarleiðangurinn , hvað þá að fara eitthvað að flýta sér út . Önnur rödd heyrðist þá í hátalarakerfinu sem var greinilega að reyna að ná sambandi við starfsmann . " Logi er beðinn að svara í símann " . Fljótlega uppgötvaðist þó að enginn eldur var neins staðar laus , en illa gekk að stöðva tölvuröddina og hélt hún lengi áfram að aðvara viðskiptavini milli þess sem leitað var logandi ljósi að honum Loga sem virtist vera ákaflega seinn til svars . 866 . Í hinum norrænu goðafræðum er þrumuguðinn Þór sem einnig er kallaður Ása-Þór eða Öku-Þór , sagður eiga nokkra dýrgripi sem einkenna hann . Fyrst má nefna vagn sem hann ferðaðist á , en hann var dreginn af tveimur höfrum sem hétu Tanngrisnir og Tanngnjóstur . Á ferðum sínum hafði Þór þá oft til kvöldverðar , en safnaði svo beinum þeirra saman eftir matinn og vígði þá síðan til lífs á ný með hamri sínum . Vagninum ók hann um himininn og það fylgdu honum þá bæði þrumur og eldingar . Ekki veit ég hvort verk það sem myndin er hér að ofan hefur verið orðið fyrir niðurskurðarhníf Jóhönnu Sig . og Steingríms J. , en ég fæ ekki betur séð að hafurinn sé nú aðeins einn . Það er svo annað mál að það vekur örugglega eftirtekt þeirra sem fram hjá fara og hefur eflaust einnig alla burði til að lífga upp á umhverfið þar sem mér þykir líklegt að því verði komið fyrir . Og eins og einnig má sjá , þá stendur það við vélaverkstæði í Hafnarfirði á vagni sem merktur er " Straumsvík " sem hlýtur því að gefa ákveðna vísbendingu um hver gæti tengst gerð þess , og miðað við áferð þess gæti það vel verið gert úr áli . 865 . Hún Ásdís María Viðarsdóttir fór með sigur af hólmi í Söngkeppni framhaldsskólanna í gærkvöldi ásamt Oddi Inga Kristjánssyni , en þau kepptu fyrir MH . Þannig heyrði ég fréttina í útvarpinu í gærkvöldi , en var ekki alveg viss um að ég hafi heyrt rétt . Ég kveikti því á sjónvarpinu , notaði " I " takkann til að galdra keppnina upp á skjáinn , og viti menn ; þarna mátti sjá svo að ekki varð um villst að ég hafði heyrt rétt . Ásdís söng lagið Pink matter eftir FrankOcean sem mér finnst reyndar ákaflega skrýtið lag og alls ekki það árennilegasta fyrir söngkonur sem eru að feta sín fyrstu spor . Um Ásdísi er það að segja að hún vinnur með skólanum í Spúútnik í Kringlunni , en föt og fatatíska virðist tengjast genunum rétt eins og tónlistin , því Anna Sóley systir hennar rekur fataverslun við Stefansgade í Kóngsins Köben ásamt vinkonu sinni sem er fatahönnuður . Þá er ekki hægt annað en að minnast á bróðir hennar Arnar Inga Viðarsson sem spilaði með hljómsveitinni Moðhaus í músiktilraunum með ágætum árangri hérna um árið . Eftir nám í Tónlistarskóla FÍH þótti hann með efnilegri trommurum og er það reyndar enn , en undanfarið hefur hann verið við nám í Barcelona í grafískri hönnun . Ég prófaði að gúggla hann að gamni mínu og fékk 8.660 " results " sem segir auðvitað heilmikið . En ástæðan fyrir þessum skrifum mínum um hana Ásdísi er að hún er frænka mín sem ég er ákaflega stoltur af . Reyndar er hún og hefur alltaf verið mjög mikil og góð frænka , dóttir Sæunnar systur minnar og Viðars Daníelssonar sem er Eyfirðingur innan " Akureyris " . Um hana verður ekki annað sagt en að hún hefur alltaf verið uppátækjasöm , með ólíkindum ákveðin og stendur alltaf fast á sínu , hugmyndarík , listfeng , og svo mætti lengi telja og allt í plús . Hún hefur verið í tónlistrnámi um margra ára skeið , spilar m.a. á Celló og kassagítar , en hefur ofan á þetta allt saman englarödd sem á það þó til að breytast í eitthvað allt , allt annað og öðruvísi eins og kom svo glöggt fram í nýafstaðinni keppni . Hún hljómaði eiginlega rétt eins og íslenska veðrið á umhleypingasömum degi . Ásdís María , - rosalega er ég góður með mig núna fyrir að vera frændi þinn . 864 . Þegar ég staldraði við á Siglufirði um páskana , datt mér í hug að kíkja inn í skógrækt sem ég vil þó eftir að trén hafa stækkað og meira land lagt undir , kalla Skarðdalsskóg sem er talsvert virðulegri nafngift . Heitir hann það kannski í dag ? Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan ég var að bora græðlingum niður í jörðina á þessum slóðum , aðeins innan við fermingu og undir handleiðslu Jóhanns Þorvaldssonar og gaman að sjá hvað áunnist hefur . Þökk sé þeim framsýna manni sem fékk ekkert allt of mikið þakklæti á sínum tíma . Það er ekki mikil umferð manna í skóginum núna , aðeins ein spor liggja frá hliðinu og upp að Leyningsfossi . Leyningsfoss er auðvitað í klakaböndum þessa dagana ... ... og hann er ekkert síður flottur í vetrarbúningnum . En rebbi hefur greinilega verið meira á ferðinni en mannfólkið í þessari náttúruparadís , því það voru alls staðar slóðir eftir hann . 863 . Það var mikið stuð í Bátahúsi og ánægjulegt að sjá hvað gömlu bítlalögin áttu greiða leið að huga og hjörtum viðstaddra . Slíkt fer ekkert á milli mála þegar virðulegir borgarar á enn virðulegri aldri , þekktir að hlæglæti og yfirvegun , standa upp og stappa og klappa í takt , syngja með og taka létt dansspor í kring um stólana á bryggjunni . Ég vil þakka þeim sem heiðruðu okkur með nærveru sinni fyrir komuna og einnig samstarfsaðilunum sem voru okkur hjálplegir um eitt og annað sem laut að undirbúningi ; Vörumerking , Siglósport , Litróf , Egils síld og Ali . Birgir trommari og frændi hans Sindri Helgason koma fyrir myndvarpanum sem gegndi óvenju veigamiklu hlutverki á tónleikunum . Og Bítla " strákarnir " voru þarna mættir , bæði á tjaldi og á dekki . Danni sem var einn af róturunum kannar hvaða myndefni verður boðið upp á . Gulli ( Leósson og líka rótari ) grípur í gítarinn eftir að hafa tekið þátt í að bera hljóðfærin inn , en hann kann alveg fullt af gripum og skemmtilegum lykkum . Hann klifraði líka upp í möstrin til að festa stögin sem héldu tjaldinu , enda liðugur eins og apaköttur . Ég ( skreyttur marsmottu í ýmsum tónum haustlitaskalans ) klifraði ekki neitt , en hélt mig sem fastast við jörðina , bryggjuna eða bátadekkið . Hér þurfti að festa tunnuna vel og vandlega sem myndvarpinn sat á . Birgir var ekki lengi að koma gamla Ludwig settinu sem hann keypti á sínum tíma fyrir fermingarpeningana sína í stand , enda hefur hann gert það nokkur hundruð sinnum í gegn um tíðina . Grímur mundar gítarinn , en þessi ágæti gítarleikari og tónlistarlegi reynslubolti spilaði með Ingimar Eydal síðustu árin og síðar með Ragga Bjarna eftir að hann flutti suður . ... og mixermaður . Ari og Magnús líta yfir dekkið . Allt er komið á sinn stað á mettíma og kominn tími á soundtest . Magnús var með pínulítinn bassamagnara sem var síðan " línaður " inn á kerfið , en það var splunkunýtt og þarna að þreyta sína " jómfrúartónleika " . Ari laumaðist í hljómborðið og jú , það heyrðist alveg fullt , fullt af hljóði . Ari var hins vegar upphaflega fyrst og fremst trommuleikari og aðalsöngvari gullaldarhljómsveitarinnar Roof Tops . Hann sest nú orðið ekki eins oft við settið og áður , en kemur oftast fram sem söngvari enda firnagóður og hefur vaxið sem slíkur með árunum . Hann er líka mjög liðtækur munnhörpuleikari sem kom sér vel í bítlalögunum . Og það er talið í , myndskreyttir textar laganna í blómabarnastíl birtast jafn óðum á tjaldinu og áheyrendur syngja með . Fram yfir hlé voru gömlu lögin frá fyrri hluta ferils Bítlanna alls ráðandi Svo kom hlé og ( bakara ) meistari Jakob bauð upp á kaffi og ástarpunga , en það reyndist ekki unnt að fá leyfi til veitingu sterkari veiga en kaffis á þessum svo mjög heilaga degi . Það kom þó ekki í veg fyrir að margir gestanna hefðu með sér nesti , rétt eins og gert var á sveitaböllunum í denn . Minný ( Leósdóttir ) sem var líka ein af róturunum aðstoðaði bakarann í hléinu . Svo var haldið áfram ... ... og boðið upp á bítlaepli á tjaldi . Þegar á leið var farið að syngja og spila síðari tíma verkin þar sem hippar og blóm , ýmis konar " snefilefni " og indverskur gúrú settu mark sitt á tónlist Bítlanna . Eftir rúma tvo tíma lauk svo tónleikunum og þá var farið að pakka saman . Hákon , Minný og Ásgeir Rúnar voru mjög liðtæk þegar koma að hljóðværaburði og síðar frágangi stóla og bekkja . Það átti líka við um þær Gullu og Birnu Dís , en sú síðari rataði því miður aldrei inn á myndflötinn hjá Danna sem sá að mestu um að " dokjúmenta " atburði kvöldsins . Það er alltaf svolítill handleggur að koma stólum og bekkjum á sinn stað , bæði fyrir og á eftir . Hér sýnist mér Aníta og Hákon vera að rogast með einn bekkinn eftir bryggjunni . Og eins og alltaf , þá kemur fyrr eða síðar að kveðjustundi . Við þökkum aðstandendum hins stórkostlega Bátahúss og Síldarminjasafns fyrir ánægjulega samvinnu . 862 . Það er kominn skírdagur og tími Bítlamessunnar nálgast . Aðstandendur hennar eru að tygja sig til norðurferðar og fregnir berast af því að forsala aðgöngumiða hefur tekið góðan kipp í gær og í fyrradag . Veðurspáin verður varla mikið hagfelldari og flest bendir til þess að bæði burtfluttir og nærsveitungar fjölmenni á staðinn , bæði skíðafólk og aðrir . Líklega verða einhverjir líka til þess að flýja umferðaröngþveitið í Hlíðarfjalli eins og dæmi eru til og færa sig um set . Þá er Skarðsdalurinn án nokkurs vafa langbesti og skynsamlegasti kosturinn . Það verður bæði gott og gaman að koma á heimaslóðir eins og alltaf . En nokkur orð um Bítlana svona í leiðinni . Þeir voru tíðir gestir á sjöunda áratugnum í óskalagaþáttum Ríkisútvarpsins og þá gjarnan nefndir Bresku bítlarnir til aðgreiningar frá hinni Keflvísku bítlahljómsveit Hljómum . Reyndar voru líka til Bravó Bítlar frá Akureyri sem unnu sér það til frægðar að hita upp fyrir Kinks í Austurbæjarbíói árið 1965 , þá aðeins 12 - 13 ára gamlir . Þeir spiluðu líka á einum tónleikum hérna á Siglufirði , - líklega hafísárið 1965 . Eftir þá tónleika biðu siglfirsku stelpurnar í röðum til að fá þá til að skrifa á handleggina á sér sem var eitthvað alveg nýtt og hefði aldrei komið til tals hjá heitustu dægurlagastjörnum þess tíma eins og Alfreð Clausen , Skapta Ólafs , Ragga Bjarna , Hauki Mortens og fleirum og fleirum . Og svo skulum við ekki gleyma Báu bítlunum sem æfðu uppi í risi í Æskó hér norður á Sigló , en það band sem varð því miður allt of skammlíft var skipað þeim . og haldið ykkur nú fast , - Friðfinni Haukssyni , Sigurði Blöndal , Bjössi Sveins og Róberti nokkrum Guðfinnssyni . Halli Gunni staldraði þar við um tíma , en strákarnir urðu að láta hann fara því hann kunni allt of mörg lög . Biggi Inga , sá sami og mun sitja við settið í Bátahúsi á morgun , mun einnig hafa komið lítillega við sögu í Bláu bítlunum undir það síðasta og Robbi þá gerst umboðsmaður sveitarinnar . Mér skilst að í þarna á Æskóárunum hafi orðið þau umskipti að Róbert Guðfinnsson hafi bæði hafið og lokið sínum tónlistarferli , en snúið sér að bissnessþættinum . Þetta mun hafa verið 1968 eða 69 . Nokkru áður eða um áramótin 1963 - 64 náðu Bítlarinr þeim áfanga að koma lagi í fyrsta sæti í Bandarríkjunum , en framan af hafði Ameríka svo gott sem hafnað bítlunum . Þeir þóttu rustalegir og ódannaðir , lögin þeirra kannski allt í lagi lesin af nótum , en textarnir allt að því dónalegir , eða í það minnsta allt of tvíræðir . Capitol sem hafði gert samning um útgáfu á bítlaefni í henni Ameríku , harðneitaði að dreifa efni þessarra bresku göndlarokkara til hinnar sakausu amerísku æsku . Sagan segir að umboðsmaðurinn Brian Epstein hafi hvatt John og Paul til að semja lag sem höfðaði sérstaklega til unga fólksins vestan hafs . Hún segir líka að þeir hafi orðið við því og útkoman hafi verið smáskífulagið I want to hold yur hand . En George Martin upptökustjóri þeirra segir hins vegar að sagan sé í raun tómt kjaftæði , en burtséð frá því þá stökk lagið nánast beinustu leið í fyrsta sæti í Ameríku og sat þar í sjö vikur . Ýmislegt hefur eflaust haft áhrif og enn einu sinni hafa Bítlarnir eflaust verið á réttum stað á réttum tíma . Hinn írskættaði John F. Kennedy hafði þá nýlega verið myrtur í Dallas í Texas og bandarríska þjóðin var enn í djúpum sárum eftir þá atburði . Forfeður hans höfðu flutt frá landinu hinum megin við Írlandshafið en austan þess stendur einmitt Liverpool fæðingarborg Bítlanna . Það mátti þess vegna með góðum vilja finna augljós tengsl milli Kennedy´s og Bítlanna . I want to hold your hand var því eins og útrétt og sálargræðandi hönd huggunar yfir Atlandsála , vottur um samstöðu og hluttekningu , en í leiðinni ósk um styrk til handa bandarísku þjóðinni til að láta ekki bugast og halda ótrauð áfram . Vestan hafs komu þeir fram í þætti Ed Sullivans og gerðu eins og fyrir þá var lagt , þ.e. að haga sér vel og halda sakleysislegri ímynd sinni barnslegri og hreinni . Sagt er að Ed hafi verið mjög kvíðinn fyrir þáttinn , en varpað öndinn léttar að honum loknum og sagt í heyranda hljóði að þeir væru sennilega ekki eins rosalegir og músikin gæfi til kynna þessir Bítlar . Þetta væru sætir , vel klæddir strákar sem sungu saklausa texta um þrá ungra manna um að fá að smeygja hönd sinni í lófa elskunnar sinnar og annað ekki . Smáskífan seldist að meðaltali í 10.000 eintökum á klukkustund í New York City eingöngu þær sjö vikur sem hún var í efsta sæti Billboard og eftirleiðis stóðu bítlunum flestar dyr opnar upp á gátt vestra . Hver ætli summan sé af þeirri upphæð sé í íslenskum krónum að viðbættum verðbótum frá árslokum 1963 ? En sjáumst við ekki bara í Bátahúsinu á föstudagskvöldið ? 861 . Það er mikið að gerast þessa dagana , því undirbúningur og æfingar standa nú sem hæst vegna fyrirhugaðs tónleikahalds í Bátahúsi um páskana . Og það á að fara svolítið óhefðbundnar miðlunarleiðir ef þannig mætti komast að orði , því hugmyndin er að tvinna saman hljóð og mynd þannig og áheyrendur verði samtímis einnig áhorfendur . Skilningarvit gestanna fá því væntanlega úr nægu að moða meðan á tónleikunum stendur . Verið er að safna saman bítlatengdum fróðleiksmolum , vinna að ýmis konar kynningarefni svo og að grafíkinni sem nota skal vegna myndasýningarinnar , ásamt því að afla myndefnis héðan og þaðan - einnig vegna hennar , og svo auðvitað að æfa öll flottu bítlalögin . Þá má einnig nefna að einnig er staðið í talsverðum fjárfestingum um þessar mundir , því það er verið að kaupa splunkunýtt hljóðkerfi svo bæði tal og tónar komist til skila eins og best verður á kosið . Þetta verður vafalaust bæði gaman og skemmtilegt , - en nánar um málið einhvern allra næstu daga . 860 . Það getur oft verið meira en lítið gaman að kíkja í gömul blöð frá löngu liðnum árum , rifja upp næstum gleymdar stundir , draga nokkur nöfn fram úr þoku fortíðarinnar og minnast staða sem einu sinni voru þeir langsamlega heitustu . Sé flett upp á bls. 25 laugardaginn 1. maí , árið 1965 í Morgunblaðinu , getur að líta fimm auglýsingar þar sem nokkrar af vinsælustu hljómsveitum þess tíma leika á dansleikjum . Eftir að hafa rennt yfir síðuna sá ég mér til mikillar furðu en einnig talsverðrar ánægju , að þær eiga það allar sameiginlegt að tengjast Siglufirði með einhverjum hætti , reyndar bæði mjög misjöfnum og líklega mætti einnig segja mismiklum . Haukur Mortens sótti konuefnið sitt Ragnheiði Magnúsdóttur til Siglufjarðar . Guðjón Pálsson kenndi um tíma í Tónlistarskóla Siglufjarðar . Það mun hafa verið í kring um 1980 Hallvarður S. Óskarsson ( Garíbalda ) var um tíma trommuleikari í Lúdó sextet þó svo að hann hafi ekki verið orðinn það á þeim tíma sem hér er vísað til . Karl Lilliendahl var eiginmaður Hermínu dóttir Jónasar rakara og reyndar líka faðir Krístínar Lilliendahl sem söng " Ég skal mála allan heiminn elsku mamma " árið 1972 og þá í leiðinni afi Grétu Salóme Júróvisjónfara . Hallvarður var líka trommuleikari hjá Gretti Björnssyni um nokkurra ára skeið . Það má svo láta þess getið að Hjördís Geirs er móðir stórsöngkonunnar Heru Bjarkar þó að það sé nú allt annað mál og sú tenging við Siglufjörð e.t.v. svolítið langsótt . Alli Rúts er svo hálfbróðir Hannesar Rúts sem lengi bjó á Siglufirði og á líklega enn íbúð í Norðurgötunni , og einnig hálfbróðir Huldu Friðgeirs ( kona Gests Hansa ) sem á heima á Hverfisgötunni . 859 . Þessa stórskemmtilegu uppsetningu má sjá á vefnum siglfirdingur.is . Hér er vissulega stórt spurt , en svarið fæst þó ekki fyrr en með vorinu . Eins og fram kemur stendur fyrir dyrum að halda spurningakeppni átthagafélaga sem rekja rætur sínar til margra og merkra staða víðs vegar um landið og án nokkurs vafa verður hún hin skemmtilegasta . Félögin sem taka þátt í keppninni eru : Árnesingafélagið , Átthagafélag Héraðsmanna , Átthagafélag Sléttuhrepps , Átthagafélag Strandamanna , Barðstrendingafélagið , Breiðfirðingafélagið , Dýrfirðingafélagið , Félag Djúpmanna , Húnvetningafélagið , Norðfirðingafélagið , Siglfirðingafélagið , Skaftfellingafélagið , Stokkseyringafélagið , Súgfirðingafélagið , Vestfirðingafélagið og Önfirðingafélagið . Keppnin sem verður haldin í Breiðfirðingabúð , hefst 28. febrúar og lýkur á síðasta vetrardag . En spurningin sem borin er fram getur þó varla talist út í hött þegar að er gáð og litið til fortíðar , því fordæmi eru fyrir því að Siglfirðingar hafi í raun stimplað sig inn sem mestu gáfumenn landsins . Það gerðist veturinn 1964 - 65 í geysivinsælum útvarpsþáttum sem útvarpað var á sunnudagskvöldum og nefndust " Kaupstaðirnir keppa " . Birgir Ísleifur Gunnarsson og Guðni Þórðarson stjórnuðu þáttunum og leikarinn góðkunni Gunnar Eyjólfsson var kynnir . Keppnin var útsláttarkeppni og kepptu kaupstaðirnir þeirri röð sem hér segir : 29. nóv. 1964 Neskaupstaður og Seyðisfjörður . 14. febr . 1965 Hafnarfjörður og Neskaupstaður . Þann 2. maí 1965 kl. 20.45 var svo komið að úrslitakeppninni milli Hafnfirðinga sem sigrað höfðu lið Vestmannaeyja og Siglfirðinga sem borið höfðu Sauðkræklinga ofurliði . Þar höfðu Siglfirðingar betur og sá sem þetta ritar gleymir ekki hinni rafmögnuðu spennu sem ríkti meðal bæjarbúa , enda orðinn næstum tíu ára og eyrun límdust hreinlega við útvarpið þegar þættinum var útvarpað . Hið magnaða sigurlið Siglfirðinga : Frá vinstri eru Pétur Gautur Kristjánsson fulltrúi sýslumanns , Benedikt Sigurðsson kennari og Hlöðver Sigurðsson skólastjóri . Sérstaka athygli vekur auðvitað pípa Péturs sem hann skildi nánast aldrei við sig , en á þessum tíma þótti ekkert tiltökumál að reykt væri nánast hvar sem var . Í aðdraganda keppninnar er sagt að maður nokkur hafa átt erindi við Pétur á heimili hans . Hann fannst hvergi í fyrstu , en að lokum uppgötvaðist verustaður hans með þeim hætti að reykur sást liðast upp fyrir brúnina á risastórum bókastafla sem hann var á bak við . Mun þá Pétur hafa verið að undirbúa sig fyrir keppnina . ( Ljósmynd Steingrímur ) Í kjölfarið fylltust bæjarbúar auðvitað stolti yfir hinum frábæra árangri sinna manna og liðsmennirnir sem staðið höfðu sig svo vel , voru auðvitað ekkert annað en hetjur í augum þeirra sem heima sátu og hlustuðu spenntir á viðureignina . Þegar þarna var komið sögu hafði Benedikt kennt mér heila þrjá vetur í Barnaskóla Siglufjarðar og ég hafði alla tíð litið mjög upp til hans sem kennara , en eftir þetta breyttist hann í huga mér í eins konar hálfguð og vitsmunaveru sem var af einhverju allt öðru kalíberi en venjulegt gat talist . Auðvitað voru hinir keppendurnir settir í sama flokk , en Benedikt var sá eini þeirra sem ég þekkti vorið 1965 . Það átti svo eftir að breytast í 12 ára bekknum þegar Hlöðver kenndi okkur krökkunum og við bárum svolítið óttablandna virðingu annars vegar fyrir honum sem skólastjóra og hins vegar fyrir gáfumanninum úr sigurliðinu . Mogginn sagði svo frá þ. 14. maí 1965 Á SUNNUDAGSKVÖLD , 2. maí , lauk vinsælasta skemmtiþætti vetrarins : " Kaupstaðirnir keppa " . Sigruðu þá Siglfirðingar Hafnfirðinga og urðu þar með sigurvegarar í þessari keppni og hljóta í verðlaun ókeypis flugfar til og frá Höfn , svo og uppihald þar í nokkra daga . Þessi kaupstaðakeppni er ein snjallasta hugdetta , sem þeir hafa fengið árum saman , útvarpsmenn . Hún hefur áreíðanlega glætt áhuga á útvarpinu vítt og breitt um landið , einkum meðal yngra fólks . Má þó segja , að efnið hæfði öllum aldursflokkum , sem útvarpsefni . Þjóðviljinn sagði líka frá úrslitunum sem var auðvitað ekkert undarlegt , því það má jafnvel halda því fram með ágætum rökum að hann hafi á vissan hátt átt sína fulltrúa í sigurliðinu . Þjóðviljinn gerir þarna Pétur Gaut að Siglfirðingi í umsögn sinni eins og fram kemur í úrklippunni hér að ofan og auðvitað vildum við eiga hann eftir hina frábæru frammistöðu . Væntanlega hafa því fáir gert einhverja athugasemd við " eyrnamarkið " . Hann var þó fæddur Seyðfirðingur , en ólst upp í Stykkishólmi og Hafnarfirði . Árin hans á Siglufirði voru ekki mjög mörg , því hann var þar fulltrúi sýslumanns á árunum 1961 - 1966 en flytur eftir það til Vestmannaeyja . Gera má ráð fyrir að ekki hafi margir hlustað á fréttir , veðurfregnir og íþróttaspjall Sigurðar Sigurðssonar sem voru næstu liðir útvarpsins þetta kvöld , því sigurvíman hefur eflaust verið nokkra stund að renna af mönnum . En Siglfirðingar höfðu þó ekki yfirgefið þennan eina ljósvakamiðil landsins þetta kvöld , því dagskránni lauk með danslögum sem Heiðar Ástvaldsson valdi . 858 . Það rata ekki allar fréttir " í fréttirnar " , það hef ég upplifað og sannreynt nokkrum sinnum um dagana og þessi uppákoma er greinilega og svo sannarlega ein af þeim . Sennilega hafa allir fréttaöflunarmennirnir verið steinsofandi kl. 06.20 þegar atburðurinn átti sér stað . Í morgunsárið fórum við " strætókallarnir " í Kópavogi af stað laust upp úr kl. 06 , komum okkur fyrir á sínum byrjunarreit að vanda og hófum síðan akstur saamkvæmt skipuriti . Ég ók þetta morgunsárið frá Hamraborg kl. 06.36 áleiðis í Mjódd um Vatnsenda . Á leiðinni heyrði ég í talstöðinni að eitthvað hefði greinilega farið úrskeiðis hjá einhverjum og þegar ég ók inn á Lindarveg eftir að hafa farið fram hjá Smáralindinni blasti við það sem má sjá á myndinni hér að ofan . Eldur í strætó er eins langt frá því að vera nokkurt grin og hugsast getur og ég velti því strax fyrir mér hvort einhver slys hefðu orðið á fólki , - en vonaði auðvitað að svo væri ekki . " Þetta er sennilega vagn sem hefur verið á leið 2 " hugsaði ég og ók áfram upp Hlíðardalsveg . Þegar ég var kominn upp á það sem ég kalla " hálendi Kópavogs " ( Lindir , Salir , Kórar , Þing og Hvörf ) fór mig þó að gruna eitt og annað . Ég ók öðrum vagni morgunsins sem fylltist von bráðar og eiginlega mun fyrr en venjulega eða grunsamlega fljótt . Margir kvörtuðu yfir að næsti vagn á undan mér ( þ.e. fyrsti morgunvagninn ) hlyti annað hvort að hafa verið á undan tímanum eða hreinlega ekki mætt . Sumir voru greinilega frekar súrir , reiðir og fúlir , enda hugsanlega orðnir of seinir til vinnu eða annarra tímasettra verka . Mér leist hins vegar ekki á málið í heild sinni þegar þarna var komið sögu og kallaði á Þjónustuver sem vissi ekkert um brunann . Ég hafði því samband niður á Kynnisferðir þar sem ég fékk að vita að kviknað hefði í vagni 310 ( sem er einn af oss ) og væri hann sennilega mjög illa farinn eða jafnvel ónýtur þar sem slökkviliðsmenn hefðu nánast klippt afturendann af honum til að komast að upptökum eldsins , þrátt fyrir að bílstjórinn ( gamall kunningi úr videóbransanum frá því í denn ) hefði farið langt með að slökkva hann áður en " liðið " mætti á staðinn . Ég reyndi að segja þeim sem gagnrýndu hina " lélegu " þjónustu Strætó frá því hvað hafði gerst þarna um morguninn , en flestir horfðu á mig með fyrirlitlegu og vorkunarblöndnu augnaráði fullu af vanrtú og fannst afsökunin um strætisvagninn sem brann vera með lélegustu , aumkunnarverðustu og dapurlegustu afsökunum ever eða þannig ... Það var jú ekkert um þetta mál í fréttunum - og svo gerðist þetta á sjálfan ÖSKUDAGINN ... 857 . Það má líklega vel halda því fram og það með góðum og gildum rökum að sannkallaður " Miklihvellur " hafi gengið yfir Siglufjörð síðustu dagana með heilmiklu brauki og bramli . Stundum er komist þannig að orði að elstu menn muni vart annað eins og gæti það eflaust átt við um það sem gengið hefur á í bænum . Sú kenning hefur verið sett fram að snjóflóðavarnargarðarnir gætu hugsanlega haft áhrif á vindstýringu og hnútamyndum sem er kannski ekkert verri kenning en aðrar . Alla vega virðist vera talsvert um tjón á húsum efst í bænum , við fjallsræturnar rétt neðan við garðana , en reyndar einnig neðst á eyrinni . Mér bárust þau frekar fúlu tíðindi að Kári hefði komið við í híbýlum mínum nyrðra og gert þar talsverðan usla . Suðurgata 46 stendur hátt og út um stofugluggann er hreint ótrúlegt útsýni yfir bæinn og höfnina . Verulegar endurbætur hafa verið gerðar á húsinu og enn meiri slíkar voru fyrirhugaðar . En á vetrum getur þurft að hafa svolítið fyrir hlutunum . Húsið séð ofan frá . - Það var efsti hluti þaksins sem hreinlega lyftist ofan af veggjunum . Það var í októbermánuði sem við Óli Kára trömpuðum þarna á þakinu , spegúleruðum mikið og áformuðum að fara í einhverjar endurbætur á því með vorinu . Svona leit eitt herbergjanna út eftir að hvellurinn ógurlegi hafði gert þar usla . Og svona var umhorfs inni á baði . En nú þýðir líklega lítið annað en að spýta í lófana og taka á sínum málum eins og það er kallað . En því er við að bæta að gott er að eiga góða að þegar þörf er á . Nokkrir vaskir piltar úr björgunarsveitinni Strákum svöruðu kalli íbúanna sem búa á neðri hæðinni , mættu á staðinn og björguðu því sem bjargað varð . Böndum var komið yfir þakið og þau fest í fiskikör sem síðan voru fyllt af vatni . Einfalt trix sem alveg svínvirkaði . Ég kann þeim mínar mestu og bestu þakkir fyrir . Fyrir daga núverandi skráningakerfis tilheyrði þetta virðulega bílnúmer yfirvaldinu á Siglufirði , þ.e. bæjarfógeta og síðar sýslumanni . Embættismennirnir komu og fóru eins og gengur , en númerið færðist þá á milli einkabíla þeirra . Ekki veit ég hvort það hefur myndast einhvers konar hefð um millifærslu þess , eða hvort það hefur á einhvern hátt tilheyrt embættinu frekar en starfsmanni þess . Nú hin síðari ár bregður því hins vegar stundum fyrir hér á höfuðborgarsvæðinu og þá er ekki laust við að burtfluttir Siglfirðingar eins og ég snúi höfðinu í hálfan til heilan hring , því slíkar plötur jafn kunnuglegar og þessar , sjást ekki á hverju götuhorni . Þá kviknar líka jafnframt á forvitnisperunni sem er líklega staðsett einhvers staðar undir hvirflinum eða í grenndinni við hann þegar svona nokkuð ber fyrir augu . 855 . Menn koma víða við á ferðum sínum um víðan völl í ýmis konar erindagjörðum , þegar hinu daglega þrasi og brasi er fylgt eftir í dagsins önn og amstri , rétt eins og gerist og gengur . Ég átti einmitt erindi í fyrirtæki nokkurt á höfuðborgarsvæðinu á síðasta ári akkúrat í einni slíkri ferð , þegar upp kom sú staða að ég þurfti nauðsynlega að bregða mér afsíðis í litla afslappaða rýmið þar sem friðurinn ríkir alla jafna og finna má í sérhverju húsi . Þegar þangað var komið sá ég þó ég vissi það nú reyndar fyrir , að húsráðendur á þessum bæ eru greinilega hinir ágætustu húmoristar eins og sjá má á meðfylgjandi myndum . Ég laumaðist því til að documenta speisið . . 854. " Hvernig fannst þér Áramótaskaupið " verður eflaust ein af algengari spurningum næstu daga eins þegar menn taka tal saman , og hún var líka eitt af því allra fyrsta sem birtist á netútgáfu DV . Það gæti auðvitað verið vegna þess hve kommentakerfi miðilsins kom þar mikið við sögu og líklega ekki alveg að ástæðulausu . Kannski hafa þeir DV menn orðið eitthvað órólegir vegna málsins og eru einfaldlega að þreifa á því hvort einhverja bandamenn og hjálparhellur sé að finna meðal fólksins í landinu sem leggi þeim lið með því að flíka skoðunum sínum enn frekar í hinum umrædda kommentakerfi . Annars er bæði skrautlegt að vanda , en líka svolítið skemmtilegt að renna yfir innleggin sem þar getur að líta eins og búast mátti við . " Alveg skelfilegt , held að það sé komin tími á að hleypa einhverjum öðrum að . - Mér fannst skaupið að mestu gott . - Ósmekklegt og gamlar lummur ljótt orðbragð , ekki fyrir fjölskylduna samasem hundleiðinlegt . - Hefði átt að banna það innan 16 ára held ég . - Já því 14 - 15 ára krakkar hafa aldrei heyrt ljótt orðbragð . - Það versta sem ég man eftir . - Með þeim betri sem ég man eftir . Versta skaup sem ég man eftir að hafa séð og orðbragðið ótrúlegt , ekki fyrir börn . - Eitt besta skaup fyrr og síðar , held að þetta fólk sem er að segja að skaupið hafi verið lélegt eru ekkert búin að vera að fylgjast með eða eru bara að tala með rassgatinu ! - Aldrei hægt að gera öllum til geðs , snilldarskaup að mínu mati , takk kærlega allir sem að því stóðu : ) - Algjör hneisa , og sóun á almannafé . Til hvers að borga fyrir svona orðbragð ... - Versta áramótaskaup síðan 1987 . - Handritið þunnt og mikið um endurtekningar , en viðurkenni að hafa flissað á köflum . - Snilldarskaup , gróft og gott að fokking Sjallarnir fengu á baukinn sem og Grísinn ( líka hinir , en tók bara ekki eins eftir því ) . - Svona á að gera þetta . - Fannst skaupið mjög skemmtilegt . - Hreifst af þeim hluta skaupsins þar sem gert var grín að ummælakerfi DV . " Vertu virkur á kommentakerfinu " - tær snilld . - Ég get ekki klárað að skrifa þennan status , ég hlæ svo mikið . Vantaði samt meira Gangnam Style . - Skaupið hafði meiri áhrif á suma en aðra . " Ég er hættur við að djamma í kvöld útaf þessu . - Gott að einhverjum líkaði . Kannski er þetta svona að horfa á skaupið edrú . " En það er svo sem ekkert nýtt að það séu verulega skiptar skoðanirnar um Áramótaskaupið . Í DV sem gerði sérstaka könnun um skoðanir áhorfenda kemur fram að 27,6 prósent lesenda segja að skaupið hafi verið afleitt , en 12,9 prósent segja það hafa verið frábært . Sé spurt um í verri eða betri kantinum breytist svarhlutföllin . Alls eru þá 871 neikvæðir gagnvart því , en 705 jákvæðari sem gerir muninn talsvert minni . En að ofansögðu að allt öðru máli og miklu jákvæðara . - Gleðilegt nýtt ár og bestu óskir um farsæld um ókomna tíð . 853 . Óska öllum vinum og vandamönnum , svo og auðvitað öllum þeim sem ennþá nenna að reka nefið hérna inn á síðuna þrátt fyrir að þar hafi bæði fátt og smátt verið að gerast undanfarið , gleðilegra jóla og farsældar um ókomin ár . Mér finnst myndin hér að ofan standa vel undir því að vera jólamyndin í ár , en á ferðum mínum fyrir fáeinum dögum staldraði ég eins og svo oft við í Mjóddinni og rakst þá á sjálfan jólasveininn , væntanlega nýlega kominn til byggða úr heimkynnum sínum í Esjunni . Þar var þá einnig stödd siglfirska kjarnakonan Lilla á Á , sem er okkur sem erum búin að ná þokkalega góðum meðalþroska að eigin mati , að góðu kunn . Þau féllust bæði góðfúslega á þá beiðni mina um að fá að mynda þau saman og kann ég þeim miklar þakkir fyrir það .
Það kom loksins að því að okkar fyrsti sauðburður færi af stað . Ég átti von á fyrstu lömbum síðastliðna helgi og á mánudag 13. maí gerðist það loksins . Fyrst til að bera var kollótt gimbur undan Lagði og kind sem var þrílembingur . Hún hélt í sæðingu við Streng . Burðurinn var erfiður sökum stærðar lambsins og ég var ekki í fjárhúsinu sjálf þegar hún bar . Sindri á Neðri Mýrum dró úr henni lambið og blés í það líf . Lambadrottningin mín braggaðist vel og dafnar núna í fjárhúsinu . Fyrsta lambið okkar - gimbur undan Algebru ( 12 - 008 ) og Streng frá Árbæ Þórdís með fyrstu gimburina dagsgamla 14. maí bar svo Aþena hennar Þórdísar hvítum hrút undan Prúð frá Ytri Skógum . Hún var ekki alveg að átta sig á þessu lambi fyrst um sinn og kærði sig ekki um það en þegar leið á daginn var hún búin að sættast við það . Hrútur undan Aþenu ( 12 - 004 ) og Prúð frá Ytri Skógum Í nótt fékk Afríka lambsóttina en því miður var lambið bæði gríðarstórt og snéri eitthvað vitlaust svo það lifði ekki fæðinguna af . Sindri og Birna voru á vaktinni og þrátt fyrir tilraunir þeirra til að koma lambinu í heiminn á lífi gekk það ekki upp . Svona er nú bara víst að vera bóndi , maður missir stundum skepnur . Afríka var fengin við Streng eins og Algebra . Í morgun bar svo Aska ( 12 - 016 ) tveimur hvítum lömbum , hrút og gimbur . Tekin var ákvörðun að gera tilraun til að venja annað lambið hennar undir Afríku . Þar sem búið var að telja fósturvísa var nokkuð öruggt að Aska væri með tvö lömb svo hægt var að skipuleggja þetta fyrirfram . Hún fékk að halda fyrra lambinu sínu en það seinna var sett ókarað , beint til Afríku og meira að segja baðað upp úr salti ( sumir segja að það sé alveg málið ) . Þetta fór nú þannig að Afríka tók að sér hrútinn svo þær eru nú sáttar með sitt hvort lambið . Þetta gerðu Sindri og Birna fyrir okkur þar sem ég var í vinnunni minni og Atli að heiman í vinnu . Ég get allavega verið sátt við að þetta endaði vel miðað við aðstæður Nú eru allar gimbrarnar bornar sem voru fengnar við sæðishrútum svo ég hef engar tímasetningar á hinar gimbrarnar . Væntanlega fara þær að bera koll af kolli og ég krossa putta og vona að sauðburðurinn gangi vel . Hvernig er það svo er maður nokkuð fjárbóndi nema að eiga fjárhund ? . . og þarf maður ekki klárlega að eiga fleiri en einn ? Týri minn er nú víst fjárhundur og allt það en ég er búin að vera að bíða eftir rétta Australian shepherd hvolpinum í þónokkurn tíma . Á sumardaginn fyrsta fæddust svo loksins hvolpar hjá Heimsendaræktun og þar af þrjár tíkur , tvær blue merle og ein svört þrílit . Ég er búin að fara að skoða hvolpana og auðvitað er maður alveg ástfanginn . Nú er bara að sjá hvaða tík er mín tík Foreldrarnir eru margverðlaunaðir og ótrúlega flottir fulltrúar sinnar tegundar Það er nú kominn vorhugur í mann þó veðrið minni ekkert á vor . Grillið er komið út og garðhúsgögnin líka . . en það hættir bara ekki að snjóa ! Sauðburður er hafinn á Neðri Mýrum svo við bíðum spennt eftir okkar fyrstu lömbum . Ég á þó ekki von á lömbum úr okkar ám fyrr en um næstu helgi eða svo . Samkvæmt fósturvísatalningu héldu 4 gimbrar í sæðingum og eina af þeim ætti að vera tvílembd . Af þessum 4 eru allar lituðu gimbrarnar okkar , tvær svartar og ein grá svo vonandi fáum við eitthvað skemmtilegt til að setja á undan þeim . Ég hef verið léleg með myndavélina í fjárhúsunum svo ég skelli hér inn myndum frá því í apríl sem aldrei rötuðu inn á síðuna . Aþena hennar Þórdísar hér fyrir miðju Þessi kolla er svo ein ef þeim sem eiga að bera fyrst hjá okkur , hún er fengin við kollóttan sæðishrút . Ég á von á að fyrstu ærnar okkar beri um næstu helgi svo hér er bara tilhlökkun Við mæðgur erum búnar að vera á reiðnámskeiðum í vetur , ég á knapamerki 1 og Þórdís á reiðnámskeiði með yngstu krökkunum . Ég tók verklega prófið í knapamerkinu í síðustu viku á Drunga mínum og það gekk bara vel , erfiðast var þó að fara á bak , hann er nú bæði stór en svo er ég bara orðin ansi stirð og þung á mér enda gengin 26 vikur þegar ég tók prófið . Þórdís Katla tók svo þátt í afmælissýningu hestamannafélagsins Neista á sunnudaginn á Drunga . Litli strumpurinn búinn að snúa sér við og situr öfugt á hestinum Þessi sýning er vonandi bara forsmekkurinn af því sem koma skal því á meðan hún sýnir áhuga á hestamennskunni verður allt fyrir hana gert svo mamman fái hana með í sportið Það er aldrei lognmolla á heimilinu heldur . Foreldrar Atla komu til okkar um helgina og reyndar var tengdapabbi mættur fyrr og hér var tekið til hendinni í eldhúsinu . Ég ætla að sýna fyrir og eftir myndir af eldhúsinu þegar það er tilbúið en það er nú þegar orðin þvílík breyting þó svo að fyrsti hluti nýja eldhúsins sé ekki fullkláraður . Þeir feðgar drifu sig líka af stað í að klára baðherbergið og þar er nú komin upp innrétting Myndir koma inn fljótlega . Ég verð svo vonandi dugleg að skrifa fréttir á næstunni enda er vorið spennandi tími í sveitinni . Myndavélin fór með í fjárhúsið áðan . . en svo var engin mynd tekin og vélin gleymdist þar . Nú jæja hún er þá allavega til staðar fyrir næstu ferð í fjárhúsið ! Fleiri myndir af þessu öllu í myndaalbumi . Ég held að fréttaleysið hafi aldrei varað jafn lengi og núna . Reyndar ætla ég að kenna internetinu um það að hluta þar sem það hefur verið afleitt internetsamband hérna vikum og mánuðum saman . Núna á að bæta úr fréttaleysinu og vonandi verða svo tíðar fréttir hér í gegn um sauðburð og fleira skemmtilegt Síðasta frétt á heimasíðunni var í janúar ( sem betur fer á þessu ári ! ) . . og það hefur heilmikið gerst síðan þá en ég er ansi hrædd um að margt af því sé gleymt þar sem ég hef líka verið arfaslök við að taka myndir . Það er helst að ég muni hvað við vorum að bralla ef ég á myndir af viðburðinum . Þórdís var í ballett eins og áður sagði en hún fékk meira að segja sendan alvöru ballettbúning frá frænku sinni í Reykjavík sem sló heldur betur í gegn . Þórdís fékk svo sinn eigin ballettbúning sendan frá Svíþjóð svo nú á stelpan allt tilheyrandi . Svo kom langþráð afmæli hjá heimasætunni og varð hún loksins 4 ára Hún fékk að bjóða vinkonunum í afmæli í félagsmiðstöðinni á Skagaströnd því færið hingað heim í febrúar er ekki upp á marga fiska . Fleiri skemmtilegir dagar voru í febrúar og þar á meðal öskudagurinn . Við komumst að því að metnaður Skagstrendinga fyrir öskudagsbúningum er mikill og væntanlega verður ekki búðarkeyptur búningur aftur á þessum bæ . . hér koma sko allir í heimagerðum búningum og þeir voru sko rosalega flottir ! Þórdís Katla var samt mjög ánægð með búninginn sem hún hafði valið sér . . auðvitað var það prinsessulegt , Mjallhvít varð fyrir valinu . Þórdís Katla tilbúin í leikskólann á öskudaginn Krakkarnir á leikskólanum gengu á milli fyrirtækja á Skagaströnd og sungu . Öskudagsballið var mjög skemmtilegt og búningarnir frábærir . Karakterar úr Oz Stjáni blái , Betty Boop og strympa dóttir þeirra hani og kjúklingur Það var svo haldin smá ballett sýning í lok námskeiðsins og það er óhætt að segja að þessar litlu ballettskottur hafi verið algjörar dúllur . Af hrossunum er allt gott að frétta . Veturinn hefur verið heldur hvítur og snjóþungur á köflum . Hér eru girðingar búnar að vera meira og minna á kafi síðan ég man ekki hvenær . Hrossin hafa verið til vandræða þar sem girðingar hafa ekki haldið þeim . Ég er að vona að við séum að sjá fyrir endann á vetrinum en það er nú ekkert öruggt í þeim efnum ennþá . Hrossin eru búin að vera í nokkrar fyrir í hólfi fyrir neðan veg en sú girðing hefur staðið að mestu upp úr snjó og hægt var að setja örlítinn straum á hana . Ég hef tekið skammarlega lítið af myndum af hrossunum mínum og verð að bæta úr því bráðlega . Gleði fór til nýrra heimkynna í Belgíu Ég byrjaði á reiðnámskeiði í janúar og fékk lánað hryssu til að byrja með . Drungi kom svo á hús á Blönduósi og fékk það hlutverk að bera mig á knapamerki og Þórdísi Kötlu á krakkanámskeiðinu hennar . Í byrjun mars fór Drungi svo á Sölvabakka í gott atlæti og ég tók inn nýja hestinn minn hann Kóng sem ég keypti í haust . Kóngur frá Mið-Fossum Ég hef reyndar ekki stundað útreiðar mikið undanfarið en það litla sem ég hef prufað hann er ég mjög sátt og hlakka til að brúka hann meira . Ég tók þátt í smá rekstri um páskana og Kóngur stóð sig vel í þeirri reið . Þórdís Katla sýnir hestamennskunni áhuga og ég krossa putta og vona að það endist Henni finnst gaman á reiðnámskeiði og vill ólm fá að fara á bak . Ég er að byrja að sleppa af henni hendinni og hér er hún á Drunga okkar inni í skemmu á Sölvabakka . . alein og ánægð með lífið . Þórdís Katla á Drunga Ég átti svo að taka próf í knapamerkjum í síðustu viku en þurfti að sleppa því vegna vinnu í Rvk . Ég tek því prófið fljótlega í staðinn . Nú styttist í vorið og eigum við von á 2 folöldum þetta árið , eða Atli réttara sagt því hann á þau bæði . Hugsýn fór undir Abraham frá Lundum II og kastar væntanlega í byrjun júní Abraham frá Lundum II á Vesturlandssýningunni um daginn . Assa fór svo undir Kvist frá Skagaströnd og hún kastar líklega í lok júní / byrjun júlí . Sauðburður er að skella á og við bíðum spennt eftir lömbunum okkar . Fósturvísar voru taldir í mars og lítur út fyrir að við eigum von á nokkuð mörgum lömbum . Ein gimbur hafði látið , 7 teljast tvílembdar og 7 einlembdar . Svo er bara að sjá hvað gerist og hvernig gengur . Það hefur ekki verið spennandi færðin heim á bæ í vetur , í raun hefur ekki verið fært nema stundum fyrir jeppann . Ég var að viðurkenna að fyrir ekki svo löngu síðan var ég að vona að þessi vetur væri búinn og ég gæti komist á bíl upp á hlað hérna heima fyrir vorið . . en svo snjóaði aftur svo ætli þetta verði ekki þannig að skaflinn hverfi ekki fyrr en í júní . Ég krossa putta og vona að við fáum allavega gott vor þar sem núna hef ég lömb að hugsa um ! Svo er auðvitað fjölgun í fjölskyldunni eins og allir eflaust vita nú þegar . Ég er sett 7. ágúst og er því á 25. viku núna . Þórdís Katla verður því loksins stóra systir og hlakkar mikið til Fleiri myndir af þessu öllu í myndaalbumi .
Ég set inn ýmsar myndir sem ég á í tölvunni minni , frá ferðalögum , fjölskyldumyndir og djammmyndir . Velkomin í heimasíðuna mína og njótið hennar . Ég nota þessa síðu til að blogga um það sem liggur mér á hjarta . Mér þætti vænt um að þið kommentið við bloggið mitt svo ég fái einhver viðbrögð og jafnvel einhverjar viðræður um það sem ég hef verið að tala um , og einnig þætti mér gaman að þið kvittið fyrir ykkur í gestabókina mína . Sum myndaalbúm eru læst og þarf sérstaka lykilorð til að skoða þær . Áhugasamir mega þá hafa samband við mig í emaili til að fá lykilorðið að myndaalbúminu .
Eiður ÓF 13 hefur alldeilis fengið andlitsliftingu frá þvi að báturinn Hét Kristjan EA núverandi eigandi Hermann Daðasson tók bátinn gjörsamlega i nefið og er hann nú með glæsilegustu bátunum i Bótinni sem að er aðstaðn sem að trillukarlarnir hafa fyrir sig fleiri færslur koma þaðan næstu daga Gylfi Guðmarsson , Árni Björn Árnasson , Fjóla Stefánsdóttir , Auður Helena , Margret Jónsdóttir , Dagrún Mattiasdóttir nokkrir farþegar fara hluta leiðarinnar þau eru Kristján Stefánsson Hallur Heimisson og Jói Patró . Vaktirnar eru 3 A-frá 08 - 12 og 20 - 24 Nú eru fimmtíu ár frá því að happafleytunum Knerrinum og Húna II var hleypt af stokkunum á Akureyri , báðir eru þeir hannaðir af annáluðum skipasmíðameistara , Tryggva Gunnarssyni . Að tilefni hálfrar aldar afmælisins leggja Norðursigling og Hollvinir Húna í hringsiglingu um landið á skipunum tveimur . Sigling Húna II og Knarrarins hefst í dag , Húni II leggur upp frá Akureyri og skipin sameinast á Húsavík þar sem hin sameiginlega sigling hefst þegar lagt verður úr Húsavíkurhöfn um kl. 22 í kvöld . Ferðaáætlunin er eftirfarandi : 13. maí Neskaupstaður 10:00 - 12:00 14. maí Breiðdalsvík 17:00 - 19:00 15. maí Höfn í Hornafirði 20:00 - 22:00 17. - 18. maí Reykjavík , Bátahátíð við Víkina , Sjóminjasafn . Boðið í siglingu kl. 10:00 . Skipin til sýnis 13:00 - 17:00 Eins og sjá má var Elin ÞH lengd um 2,4 metra og skipt um vélVolvo Penta sem að er 225 hp með dual pró og er ganghraðinn 25 - 30 milur eftir afla og aðstæðum verkið var unnið hjá bátasmiðju Baldurs Halldórssonar á Hliðarenda og niðursetning vélarinnar á verkstæði Brimborgar á Akureyri sem að er umboðsaðili Volvo Penta Talsvert er að gera i slippnum nú þegar loksins fer að vora og margir útgerðarmenn keppast þá við að skvera skipin sin fyrir sumarið þar á meðal er eikarbáturinn Húni annar sem að heldur i hringferð um landið NK laugardag 11 mai ( nánar um það á Laugardaginn ) Togarinn Örvar i eigu Fisk Seafood hefur verið i hefðbundnu viðhaldi einnig norski togarinn Stamsund sem að er i eigu Aker Seafood sem að er eitt stæðsta sjávarútvegsfyrirtæki þar i landi siðan er vert að geta þess að plastbáturinn Óli Gisla HU 112 verður útbúinn á makrilveiðar það er dótturfyrirtæki slippsins Dng sem að sér um þá hlið málsins Farþegar í hvalaskoðun á Rib-bátnum Ömmu Siggu í eigu Gentle Giants . mbl.is / Rúnar Pálmason " Stofnunin virðist misskilja hlutverk sitt fullkomlega og telur sig eiga að vera í því hlutverki að leggja steina í götu okkar í stað þjónustu og samvinnu í þróun regluverks á nýjungum , " segir Stefán Guðmundsson , framkvæmdastjóri hvalaskoðunarfyrirtækisins Gentle Giants á Húsavík , í samtali við mbl.is . Fyrirtæki hans og önnur sem gera út svokallaða Rib-báta hafa átt í deilum við Siglingastofnun undanfarin ár vegna krafna sem stofnunin hefur viljað gera til rekstur bátanna með tilliti til öryggismála . Þannig vill Siglingastofnun að ekki að fluttir séu fleiri farþegar með bátunum , sem eru opnir slöngubátar , en tólf þó pláss sé fyrir 18 manns . Eins vill stofnunin að farþegarnir séu klæddir björgunarflotgöllum á meðan á siglingu stendur á tímabilinu frá 30. september til 1. júní hvert ár en gert er ráð fyrir að reglur þess efnis taki gildi í vor . Eru þessar kröfur rökstuddar með vísun í hitastig sjávar auk reglna sem í gildi séu á Norðurlöndunum í þessum efnum og innan Evrópusambandsins . Þá er vísað í hraða bátanna og hættu því fylgjandi að farþegar falli útbyrðis . Stefán segir að skírskotun Siglingastofnunar í Norðurlandsreglurnar standist ekki skoðun . Reglur á hinum Norðurlöndunum séu ef eitthvað sé ekki eins strangar og hér á landi . Enda hafi stofnunin dregið úr orðalagi sínu í þeim efnum þegar liðið hafi á málið og tali nú einungis um að þær reglur hafi verið hafðar til hliðsjónar . Þær forsendur sem Siglingastofnun gefi sér varðandi hitastig sjávar standist ekki heldur . Farþegar hafa til þessa klæðst vinnuflotgöllum og björgunarvestum að hans sögn sem samþykkt hafi verið af Siglingastofnun . Þá sé ítrasta öryggis gætt um borð . Bátarnir séu nýjir og sérstaklega hannaðir fyrir slíkar siglingar . Þeir séu búnir tveimur aðalvélum með tvö aðskilin eldsneytiskerfi og öllum bestu siglingatækjum og öryggisbúnaði sem völ sé á . Stefán segir að erfitt sé fyrir farþega að athafna sig í björgunarflotgöllum sem séu ætlaðir til notkunar í neyð en ekki að staðaldri . Þá gildi almennt þær reglur um slíka galla að setja þurfi þá í skoðun eftir notkun . Þeir séu í raun hliðstæðir á við fallhlífar í flugvélum . Ekki sé gert ráð fyrir að þeir séu í stöðugri notkun . Hann segir framgöngu Siglingastofnunar hafa kostað fyrirtækin sem geri út Rib-báta tugi milljóna og sett rekstur þeirra í uppnám . Þeir hafi reynt að koma með tillögur að lausnum og samvinnu í málinu en ekki fengið neinar undirtektir hjá stofnuninni . Meðal annars hafi þeir boðið starfsmönnum hennar að koma og skoða bátana en allt fyrir ekki . Málið er nú hjá innanríkisráðuneytinu en fyrirtækin hafa kært afgreiðslu stofnunarinnar til þess . Beðið er niðurstöðu þess sem átti að liggja fyrir í byrjun maí . Aðstæður með ólíkindum erfiðar , segir skipstjórinn á Lundey NS ,, Það er víst engu logið um að þetta hafsvæði suður af Færeyjum er sannkallað veðravíti og það er mikið um frátafir á veiðum vegna þess . Í gær urðum við að halda sjó í hálfan sólarhring í norðanbrælu og haugasjó og það var ekki fyrr en í morgun að það var hægt að kasta aftur . Og það lítur ekki út fyrir mikinn frið því að næsta lægð er á leiðinni og nú er spáð sunnanbrælu . " Þetta sagði Stefán Geir Jónsson , fyrsti stýrimaður og afleysingaskipstjóri á Lundey NS , en er rætt var við hann á vef HB Granda nú síðdegis var hann með skipið að veiðum um 70 mílur suður af Færeyjum . Búið var að hífa eftir fyrsta hol dagsins og var áætlaður afli um 400 tonn . Þar með er aflinn í veiðiferðinni orðinn rúmlega 1.000 tonn . Sagðist Stefán Geir vonast til þess að ná nægilegu aflamagn í síðara holi dagsins til að hægt yrði að halda til Vopnafjarðar með ásættanlegan afla áður en næsta stórviðri skylli á . ,, Það er eiginlega með ólíkindum hvað aðstæður hafa verið erfiðar . Um daginn var ekki um annað að ræða en að koma skipunum í var við Færeyjar enda var þá gríðarmikil ölduhæð á veiðisvæðinu . Sjólagið var skárra í gærkvöldi en þá fór vindhraðinn í 20 m / s og þýðingarlaust að vera að veiðum . " Að sögn Stefáns Geirs er Lundey nú í síðasta hreina kolmunnaveiðitúr ársins . Faxi RE er á leiðinni á miðin og er væntanlegur þangað í fyrramálið . Faxi á eftir eina veiðiferð og hið sama má segja um Ingunni AK . Verið er að landa úr skipinu á Vopnafirði og standa vonir til að það geti látið úr höfn strax í nótt . Með aflanum úr þessum þremur síðustu veiðiferðum HB Granda skipanna má reikna með því að heildarkolmunnaaflinn á vertíðinni verði um 21.000 tonn . Þá er lítið óveitt af kvótanum en eftirstöðvarnar verða nýttar fyrir kolmunna sem meðafla á síld - og makrílveiðum í sumar . Veiðar á úthafsrækju byggja á sóknarstýringu og hefur verið ákveðið að veiðarnar verði stöðvaðar eigi síðar en 1. júlí . Þessi ákvörðun er tekin í ljósi þróunar veiða á yfirstandandi fiskveiðiári og til að tryggja ákveðinn fyrirsjáanleika . Þá má búast við að stjórn veiða á úthafsrækju komi til endurskoðunar fyrir upphaf næsta fiskveiðiárs . Þetta kemur fram í frétt á vef atvinnu - og nýsköpunarráðuneytisins . Í júlí 2010 var tekin ákvörðun um að frá og með fiskveiðiárinu 2010 / 2011 yrði ekki gefinn út heildarafli , og þar með aflamark , vegna veiða á úthafsrækju . Í fréttatilkynningu ráðuneytisins nr. 46 / 2012 var gerð grein fyrir forsendum þeirrar ákvörðunar . Þar er rakið að frá fiskveiðiárinu 2000 / 2001 hafi ekki verið aflað upp í útgefið aflamark . Þá var einnig vísað til skýrslu starfshóps ráðuneytisins um veiðar á úthafsrækju frá 2010 , þar sem ljáð var máls á því að tekin yrði upp sóknarstýring í stað aflamarksstýringar við stjórn veiða á stofninum , í því skyni að hvetja til betri nýtingar . Við upphaf fiskveiðiáranna 2011 / 2012 og 2012 / 2013 var ákveðið að framlengja þessari ákvörðun , þ.e. veiðar á úthafsrækju hafa að meginreglu verið öllum frjálsar þó með hliðsjón af ráðgjöf , segir í frétt ráðuneytisins . Fyrir nokkru ákváðu grænlensk stjórnvöld að heimila veiðar á 15 þúsund tonnum af makríl í grænlenskri lögsögu á komandi sumri . Grænlendingar hafa farið þess á leit við íslensk stjórnvöld að fá að landa makrílnum á Íslandi og hefur verið fallist á að þeir fái að landa 12 þúsund tonnum hér á landi . Í viðtali við Geir Zoëga skipstjóra á Polar Amaroq og áður skipstjóra á Eriku kom fram fyrir nokkru að vart hefði orðið við makríl í grænlenskri lögsögu í fyrra og hefði Erika m.a. veitt þar 2.500 tonn . Nú hefur verið ákveðið að Íslendingar muni koma að rannsóknum á útbreiðslu makríls í grænlenskri lögsögu og er fyrirhugað að hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson haldi þangað til rannsókna í sumar . Grænlenska makrílkvótanum verður úthlutað til grænlenskra fyrirtækja en þau geta síðan framselt hann áfram til veiðiskipa . Því er mögulegt að íslensk skip geti lagt stund á makrílveiðar innan grænlenskrar lögsögu á komandi sumri rétt eins og tveir togarar Brims gerðu um tíma s.l. sumar . Eina uppsjávarskip Grænlendinga er Polar Amaroq sem er í eigu East Greenland Codfish en eins og flestum er kunnugt á Síldarvinnslan þriðjung í því félagi . Fullvíst má telja að auk Polar Amaroq muni frystitogarar veiða grænlenska makrílkvótann.heimild www.svn.is Sæmkvæmt frétt á siðu Tryggva Sigurðssonar www.batarogskip.123.is er aflaskipið Sigurður Ve 15 nú á leið i pottin fræga eftirfarandi frétt birtist þar og kann ég Tryggva bestu þakkir fyrir afnotin Tók eftir því í dag að unnið var við að færa Sigurð milli bryggja og var mér tjáð að til stæði að rífa úr honum kraftblökkina nótaleggjarann og eitthvað af spilum . Siðan er gert ráð fyrir að gamli öldungurinn sigli sjálfur á vit örlaga sinna um miðjan maí líklegast til Danmerkur þar sem hann verður höggvinn niður . Hlutverki hans er lokið hvað veiðar varðar og ekkert grín að ætla að geyma skip sem er yfir 70 metrar á lengd og en verra að sjá hann grottna niður . Glæsilegur er hann blessaður og hefur reyndar alltaf verið og ófáar krónurnar sem hann hefur skilað þjóðarbúinu síðustu 50 árin . En eins og maðurinn sagði " Allt hefur sinn tíma .
Það er með mikilli gleði sem ég get sett þessa frétt inn á heimasíðuna okkar en fyrsti hluti framkvæmda við nýtt afhafnasvæði fyrir Nökkva hófst í dag . Á háfjöru í dag fór fyrsta grafan inn á grynningarnar á Leirunni og hóf að moka upp sandi í nýja uppfyllingu . Við munum lofa Nökkvamönnum vítt og breytt að fylgjast náið með framkvæmdum hér á heimasíðunni og sendum öllum kærar kveðjur í tilefni dagsins . Næstu daga munum við halda upp á þetta tilefni og bjóða félögum okkar að koma og þyggja veitingar og sjá teikningar af fyrirhuguðum framkvæmdum . Með bestu kveðju frá stjórn Nökkva , Rúnar Þór formaður Nökkva . Talsvert var um að vera i slippnum i dag Jón Kjartansson fór niður úr kvinni eitthvað stýrisvandamál hjá þeim og Beitir NK fór upp verið er að legjja lokahönd á vinnu við Birting NK ásamt þvi að verið er að græja Geir ÞH til rækjuveiða og Óla Gisla HU til Makrilveiða hjá DNG Nú skömmu eftir miðnættið komu til Akureyrar Húni 11 og Knörrinn en þessir tveir Eikarbátar eru sem kunnugt er 50 ára á þessu ári og var þessi ferð farin meðal annas til að sýna ibúum þessa lands mikilvægi þess að eiga skipasmiði og lika hitt að það þarf að varðveita eikarbáta ekki setja þá uppá land þar fúna þeir bara og verða ónýtir eftir stuttan tima af samtölum siðuritara við skipverja var mikil gleði i hópnum þótt að svolitið hafi brælt á köflum en að lokum voru allir sælir og ánægðir með ferðina Eiður ÓF 13 hefur alldeilis fengið andlitsliftingu frá þvi að báturinn Hét Kristjan EA núverandi eigandi Hermann Daðasson tók bátinn gjörsamlega i nefið og er hann nú með glæsilegustu bátunum i Bótinni sem að er aðstaðn sem að trillukarlarnir hafa fyrir sig fleiri færslur koma þaðan næstu daga Gylfi Guðmarsson , Árni Björn Árnasson , Fjóla Stefánsdóttir , Auður Helena , Margret Jónsdóttir , Dagrún Mattiasdóttir nokkrir farþegar fara hluta leiðarinnar þau eru Kristján Stefánsson Hallur Heimisson og Jói Patró . Vaktirnar eru 3 A-frá 08 - 12 og 20 - 24 Nú eru fimmtíu ár frá því að happafleytunum Knerrinum og Húna II var hleypt af stokkunum á Akureyri , báðir eru þeir hannaðir af annáluðum skipasmíðameistara , Tryggva Gunnarssyni . Að tilefni hálfrar aldar afmælisins leggja Norðursigling og Hollvinir Húna í hringsiglingu um landið á skipunum tveimur . Sigling Húna II og Knarrarins hefst í dag , Húni II leggur upp frá Akureyri og skipin sameinast á Húsavík þar sem hin sameiginlega sigling hefst þegar lagt verður úr Húsavíkurhöfn um kl. 22 í kvöld . Fyrirtæki hans og önnur sem gera út svokallaða Rib-báta hafa átt í deilum við Siglingastofnun undanfarin ár vegna krafna sem stofnunin hefur viljað gera til rekstur bátanna með tilliti til öryggismála . Þannig vill Siglingastofnun að ekki að fluttir séu fleiri farþegar með bátunum , sem eru opnir slöngubátar , en tólf þó pláss sé fyrir 18 manns . Eins vill stofnunin að farþegarnir séu klæddir björgunarflotgöllum á meðan á siglingu stendur á tímabilinu frá 30. september til 1. júní hvert ár en gert er ráð fyrir að reglur þess efnis taki gildi í vor . Þær forsendur sem Siglingastofnun gefi sér varðandi hitastig sjávar standist ekki heldur . Þeir séu búnir tveimur aðalvélum með tvö aðskilin eldsneytiskerfi og öllum bestu siglingatækjum og öryggisbúnaði sem völ sé á . Þeir hafi reynt að koma með tillögur að lausnum og samvinnu í málinu en ekki fengið neinar undirtektir hjá stofnuninni . Meðal annars hafi þeir boðið starfsmönnum hennar að koma og skoða bátana en allt fyrir ekki . Og það lítur ekki út fyrir mikinn frið því að næsta lægð er á leiðinni og nú er spáð sunnanbrælu . " Þetta sagði Stefán Geir Jónsson , fyrsti stýrimaður og afleysingaskipstjóri á Lundey NS , en er rætt var við hann á vef HB Granda nú síðdegis var hann með skipið að veiðum um 70 mílur suður af Færeyjum . Búið var að hífa eftir fyrsta hol dagsins og var áætlaður afli um 400 tonn . Um daginn var ekki um annað að ræða en að koma skipunum í var við Færeyjar enda var þá gríðarmikil ölduhæð á veiðisvæðinu . Sjólagið var skárra í gærkvöldi en þá fór vindhraðinn í 20 m / s og þýðingarlaust að vera að veiðum . " Með aflanum úr þessum þremur síðustu veiðiferðum HB Granda skipanna má reikna með því að heildarkolmunnaaflinn á vertíðinni verði um 21.000 tonn . Þá er lítið óveitt af kvótanum en eftirstöðvarnar verða nýttar fyrir kolmunna sem meðafla á síld - og makrílveiðum í sumar . Í fréttatilkynningu ráðuneytisins nr. 46 / 2012 var gerð grein fyrir forsendum þeirrar ákvörðunar . Þar er rakið að frá fiskveiðiárinu 2000 / 2001 hafi ekki verið aflað upp í útgefið aflamark . Þá var einnig vísað til skýrslu starfshóps ráðuneytisins um veiðar á úthafsrækju frá 2010 , þar sem ljáð var máls á því að tekin yrði upp sóknarstýring í stað aflamarksstýringar við stjórn veiða á stofninum , í því skyni að hvetja til betri nýtingar . Við upphaf fiskveiðiáranna 2011 / 2012 og 2012 / 2013 var ákveðið að framlengja þessari ákvörðun , þ.e. veiðar á úthafsrækju hafa að meginreglu verið öllum frjálsar þó með hliðsjón af ráðgjöf , segir í frétt ráðuneytisins .
Bóklegt bifhjólanámskeið verður haldið fimmtudaginn 2. maí og mánudaginn 6. maí , 2013 . Námskeiðið verður haldið í Klettagörðum 11 , húsnæði Nýja ökuskólans og hefst kl. 17:30 báða dagana . Nauðsynlegt er að hafa samband við Sigurð til að skrá sig á námskeiðið en fjöldi þátttakenda er takmarkaður á hverju námskeiði . Verð kr. 17.000 , - Á námskeiðinu er hægt að kaupa eftirfarandi náms - og kennslugögn : Akstur og umferð , A réttindi ( bók ) kr. 5.000 , - ATH : Hér er um vandað námskeið að ræða og ánægja þátttakenda er okkar besta auglýsing ! Kennarar á námskeiðinu eru hlaðnir af þekkingu og fróðleik og starfa eingöngu við ökukennslu . Námskeiðið er ætlað þeim sem hyggjast verða sér út um A eða M réttindi . Til að skrá sig á námskeiðið eru þrjár leiðir : Sendið tölvupóst á [email protected] Hringið í síma 822 4166 Notið „ hafa samband “ flipann hér á síðunni – efst til hægri Næsta námskeið vegna akstursbanns hefst laugardaginn 18. maí , 2013 , kl. 11:00 . Námskeiðið verður haldið að Skeifunni 11b , Rvk . Fjöldi þátttakenda takmarkast við sex að lágmarki og 12 að hámarki . Námskeiðsgjald er kr. 39.900 , - Nauðsynlegt er að skrá sig með því að hafa samband við Sigurð , [email protected] eða í síma 822 4166 . Nánari upplýsingar um námskeið vegna akstursbanns er að finna hér að ofan – smellið á stikuna “ akstursbann ” . Ökukennsla 17.is býður upp á ökuskóla 1 og 2 í samvinnu við Ökukennslu Reykjavíkur . Ökuskóli 1 hefst mánudaginn 18. febrúar , kl. 18:15 . Ökuskóli 2 hefst þiðjudaginn 26. febrúar , kl. 18:15 . Ö 1 lýkur kl. 21:15 og Ö 2 lýkur kl. 22:00 . Kennt er á Hverfisgötu 105 , annarri hæð . Ökunám er mikilvægt því nemandi býr að því alla ævina . Mikilvægt er að báðir aðilar , kennari og nemandi , gefi sér góðan tíma í ökunámsferlið . Góður undirbúningur stuðlar að gæfuríkum ferli í umferðinni . Ökunáminu má skipta niður í nokkur þrep : Bóklegt nám fyrir próf Smelltu á Lög og reglur þar sem þú finnur umferðarmerkin , umferðarlögin og helstu reglugerðir sem varða vegfarendur . Vakin er athygli á að verulegar breytingar hafa verið gerðar á umferðarlögunum , t.d. gilda bráðabirgðaökuskírteini nú í 3 ár , handhafi þess fer í akstursbann fái hann 4 punkta á tímabilinu og þarf þá að fara á námskeið og í fræðilega og verklega prófið á ný . Við upphaf náms fær nemandi ökunámsbók hjá ökukennara . Í ökunámsbók er allur námsferillinn skráður ásamt upplýsingum sem leiðbeinandi getur nýtt sér . Þessi ökunámsbók fylgir nemanda í gegnum allt ökunámsferlið . Áður en ökunám hefst á nemandi að vera búinn að sækja um námsheimild hjá sýslumanni , hægt er að fylla út eyðublaðið hér á netinu , prenta út , skrifa svo undir og fara með til næsta sýslumanns . Smelltu á „ Eyðublöð “ hér efst á síðunni til hægri en þar finnur þú tengil á eyðublaðið . Ökunámsbók þarf alltaf að vera til staðar í þeirri bifreið sem nemi er á í æfingaakstri . Þegar æfingaakstur hefst fær nemandinn afhent æfingaakstursmerki hjá ökukennara , en þetta merki á alltaf að vera aftan á bifreiðinni þegar ökunemi er við stýrið .
270 mos Gisting - Íbúðargisting í notalegri og snyrtilegri íbúð í Mosfellsbæ . Íbúðin getur tekið fjóra í gistingu , tvo í svefnherbergi og tvo í svefnsófa í stofu . Íbúðin er með vel útbúið eldhús , rúmgott baðherbergi með sturtu , borðstofu og setustofu með sjónvarpi , DVD og útvarpi með geislaspilara . Rúmfatnaður , handklæði og þráðlaust Internet eru innifalin í verði . Hér eru MYNDIR . Erum með öll tilskilin leyfi .
04 : 4004.09 2012 Annað Hörður Snævar Jónsson | [email protected] | Twitter : @hoddi23 Eiður Smári á leið til Bandaríkjanna Eiður Smári Guðjohnsen , markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins frá upphafi , er á leið til Bandaríkjana þar sem hann mun skoða aðstæður hjá Seattle Sounders FC í MLS deildinni . Þetta staðfesti hann í samtali við 433.is . Eiður flýgur út síðdegis til Seattle þar sem hann mun æfa næstu daga áður en ákvörðun verður tekin um framhaldið . Hann er samningslaus eftir að hann rifti samningi sínum við AEK Aþenu í sumar en hann hafði verið þar í eitt ár . ,, Ég er bara að fara að skoða aðstæður , ég æfi þarna í nokkra daga og sé hvernig mér lýst á þetta allt , " sagði Eiður þegar 433.is náði á hann í dag Eiður hefur fengið fjölmörg tilboð í sumar en Seattle hefur haft áhuga um nokkurt skeið . ,, Þetta er búið að vera í gangi í smá tíma , ég ákvað að skella mér á þetta . Ég er ekki búinn að lofa neinu áður en ég kem þangað , ég fer bara og hitti fólk hjá klúbbnum . " MLS deildin hefur verið í sókn síðustu ár með komu margra heimsfrægra leikmanna . ,, Ég hef ekki hugmynd um hversu sterk MLS deildin er , ég hef ekki fylgst það mikið með henni . Hún hefur samt verið að sækja í sig veðrið og stórir leikmenn eins og David Beckham , Thiery Henry , Rafael Marquez og Robbie Keane hafa komið þangað . Deildin er í sókn en það er ekkert öruggt um að ég muni spila þarna . " ,, Ég ákvað að taka þessu boði félagsins um að koma , þeir vilja kynna klúbbinn fyrir mér . Þeir vilja líka sjá hvort að löppin á mér sé í lagi . Við ákváðum að ræða samning ekkert , ég er bókaður aftur til Íslands eftir helgi en ég sé bara til hvernig hlutirnir þróast . " Eiður sem er 34 ára gamall hefur átt afar farsælan feril en hann hefur spilað með PSV , Bolton , Chelsea , Barcelona , Mónakó , Stoke , Tottenham , Fulham , AEK Aþenu , KR og Val .
Átján börn voru fermd í fermingarguðþjónustu í Húsavíkurkirkju á Hvítasunnudag . ] ]
Um borð voru 32 farþegar og þriggja manna áhöfn . Farþegarnir voru ferjaðir í land á slöngubátunum Jóni Kjartanssyni frá björgunarsveitinni Garðari og Ömmu Siggu frá hvalskoðunarfyrirtækinu Gentle Giants . Engan þeirra sakaði . Í viðtali við fréttastofu RÚV sagði Hörður Sigurbjarnarson stjórnarformaður Norðursiglingar enga hættu hafa verið á ferðum : „ Það sem gerðist var einfaldlega það að báturinn var þarna í fuglaskoðun og eðli málsins samkvæmt er þá farið mjög nálægt eyjunni , en þarna hafa orðið mistök , hann fór heldur nærri , eins og ljóst má vera . Hann strandaði norðan við eyjuna og sendi þá út eðlilegt neyðarkall , í gegnum strandgæsluna og björgunarsveitin er kölluð til . Og sömuleiðis okkar björgunarsveit , á vegum fyrirtækisins . Þannig að við fórum bara á vettvang , fólkið var flutt í land á vegum björgunarsveitarinnar . En við fórum þarna að á öðrum bát og settum taug á milli skipanna og frá því að strandið varð og þar til við drógum hann af strandsstað liðu nákvæmlega 55 mínútur . “ Að sögn Harðar er báturinn alveg óskemmdur . „ Enda voru aðstæður þannig að þær hefðu ekki getað verið betri , það var algjört logn og ládauður sjór þannig að það var engin hætta á ferðum nokkurn tímann . Þarna var virkað sem mögulegt er neyðar - og viðbragðskerfi landsins í gegnum björgunarsveitina og strandgæsluna . “ Hann segir að farþegunum hafi ekki verið mjög brugðið . „ Það er þannig í þessum ferðum að allir eru í flotbúningum og þetta gerðist mjög hægt , báturinn rann upp á grynningarnar á hægustu ferð og það tókst að halda fólkinu öllu rólegu enda augljóst öllum að það var engin hætta á ferðum . “ ( ruv.is ) Á strandstað norðan við Lundey . Verið að ferja fólk um borð í Jón Kjartansson og Amma Sigga bíður átekta . Fiskibátar skammt undan . Skonnortan Haukur kemur að bryggju en hann virtist óskemmdur eftir hremmingarnar .
fyrir 32 farþega hvalaskoðunarbátsins Hauks sem strandaði við Lundey á Skjálfanda í morgun . Fimm manns frá Rauða krossinum á Húsavík tóku á móti farþegunum með teppi eftir að þeir höfðu verið fluttir í land með slöngubátum og kvennadeild Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Húsavík bauð þeim upp á kaffi og kökur . Læknar frá sjúkrahúsinu á Húsavík ávörpuðu farþegahópinn nú rétt fyrir hádegið , lýstu síðbúnum einkennum áfalla og hvöttu fólkið til að styðja við hvort annað og leita sér aðstoðar ef það finndi fyrir vanlíðan í kjölfar strandsins . Eigendur Norðursiglingar sem rekur hvalaskoðunarbátinn Hauk ávarpaði einnig fólkið og var því boðið í heita súpu á veitingastað eftir að fundinum lauk nú um hádegið . Að sögn Guðnýjar Björnsdóttur , verkefnisstjóra Rauða krossins á Norðurlandi , amaði ekkert að fólkinu , flestir farþeganna héldu ró sinni og engum virtist illa brugðið . Þegar klukkan var tíu mínútur yfir tólf sagði hún hvalaskoðunarbátinn Hauk vera að sigla fyrir eigin afli inn í Húsavíkurhöfn . ( redcross.is )
í Kína til sölu á Íslandi . Óskað verður eftir upplýsingum um kjör og aðbúnað fólksins í Kína sem framleiðir lopapeysurnar fyrir markaðinn á Íslandi . Fram að þessu hafa Kínverjar ekki verið þekktir fyrir góð launakjör eða aðbúnað verkafólks , sé tekið mið af því sem gerist á Íslandi og víðast hvar í Evrópu . Framsýn tekur heilshugar undir meðfylgjandi yfirlýsingu frá Handverkskonum milli heiða sem er þingeyskur félagsskapur 100 kvenna sem síðustu 20 ár hafa selt heimatilbúnar afurðir á Fosshóli við Goðafoss . „ Á síðustu árum hefur færst í vöxt að íslenskir minjagripir séu framleiddir erlendis . Ýmiskonar dót skartar íslenska þjóðfánanum eða myndum af okkar helstu náttúruperlum , vandlega merkt Kína eða Taiwan . Við því er víst lítið að segja , en leiðinlegt samt að þetta skuli vera það sem helsta sem íslendingum dettur í hug að bjóða erlendum gestum okkar . En nú tekur steininn úr þegar íslenska lopapeysan er dregin niður í gróðasvaðið og subbuð út með þessum hætti . Drottningin okkarlopapeysaner flutt inn til Íslands . Er ekki fokið í flest skjól þegar fjársterkir aðilar eru farnir að flytja út íslenska lopann alla leið til Kína þar sem að prjónaðar eru úr honum peysur , þær síðan sendar aftur til Íslands og seldar erlendum ferðamönnum sem íslenskar lopapeysur . Það skal tekið fram að við erum ekki að beina spjótum okkar að kínverskum prjónakonum , enda þær sennilega ekki öfundsverðar af launum sínum . En hér á landi er fólk sem vildi gjarnan hafa atvinnu af því að prjóna fyrir þessi fyrirtæki en þá sennilega á heldur hærri töxtum . Íslenska lopapeysan hefur lengi verið burðarásinn í sölu okkar smærri aðilanna , það hefur orðið vakning í prjónaskap og margir haft töluverðar tekjur af því þjóðlega handverki , að prjóna . Ef við eigum að standa í samkeppni við kínverskar prjónakonur er nokkuð ljóst hvernig rekstur okkar fyrirtækja fer . Og hvað eigum við að leggjast lágt ? Erum við Íslendingar stoltir að því að allar þær þúsundir ferðamanna sem sækja okkur heim yfirgefi landið með íslenska minjagripa í farteskinu sem flestir eru framleiddir erlendis . Við spyrjum : hvar varð um þjóðarstoltið ? Er okkur alveg sama hvað bjóðum gestum okkar , svo lengi sem að við fáum greitt fyrir ? Við hjá Goðafossmarkaði vitum að við getum ekkert við þessu gert , þetta er víst allt saman löglegt , en að okkar mati siðlaust . Víða um land eru rekin lítil handverksgallerí , við teljum að fólk sem rekur þau séu sama sinnis og köllum eftir viðbrögðum þeirra . “
Brimnesi RE sem staddur er við veiðar í Smugunni . Í gærmorgun þegar Brimnesið var að koma í Smuguna sáu skipverjar Hvítabjörn á ísnum en Bjarki segir svo frá í skeytinu sem hann sendi : Við sigldum framá ísbjörn rétt áður en við renndum inn í Smuguna í gærmorgunn . Bangsi gekk lengi þvert fyrir skipið svo við máttum beygja frá honum , greinlegt að hann hefur ekki kynnst svona farartæki á lífsleiðinni . Það var Ólafur Sveinn Ásgeirsson frá Felli við Skagaströnd sem kom auga á björninn og Hjalti Magnússon frá Bakka í Skagahreppi hinum forna tók myndirnar . Ekki nema von að allir ísbirnir sem ganga á land koma á Skagann . Hér í Smugunni má finna nokkra Húara á öðrum skipum , Eiríkur stýssa er skipstjóri . á Ontiku og svo eru þeir ( að ég held ) Matti Leifs og Emil Kári á Remö Viking . Svo mörg voru þau orð og þakkar 640.is Bjarka fyrir sendinguna . Hvítabjörninn virtist með öllu ókunnur stórum togurum að sögn Bjarka . Ljósmyndirnar tók eins og áður segir Hjalti Magnússon frá Bakka í Skagahreppi hinum forna .
framtíðinni s.s við móttöku á slysstað eða öðrum vettvangi ” . Sagði Guðbergur Rafn Ægisson formaður Björgunarsveitarinnar Garðars sem æfði með þyrlusveit Landhelgisgæslunnar í gær . Þyrlan kom hér síðdegis á fimmtudag og um kvöldið var haldið námskeið í móttöku þyrlu og umgengni við hana . Að því loknu var þyrlunni flogið til Akureyrar þar sem áhöfnin gisti . Og hingað kom hún aftur um hádegisbil í gær og verklegar æfingar hófust . Æfingarnar í gær fólust m.a í því að hífa menn úr sjó , úr gúmmíbát og sækja mann um borð í hvalaskoðunarbátinn Sylvíu . Þá var æfing upp á melnum ofan Stallalyftunnar þar sem farið var í börubjörgun , upphífingar með tengilínu og móttöku á sigmanni . Að sögn Guðbergs tókust þessar æfingar vel í alla staði og menn ánægðir með verk dagsins . Og Guðbergur segir ýmsa konfektmola oft leynast í björgunarsveitarstarfinu og einn slíkur kom í ljós í gær . “ Æfingaferlið endaði á því að við sem þátt tókum í fengum að fara í smá flugferð yfir Húsavík í þyrlunni sem bónus fyrir störf okkar í björgunarsveitinni og það var mjög gaman ” : Sagði Guðbergur en tólf börgunarsveitarmeðliðir tóku þátt í æfingunum . Hér að neðan eru nokkrar myndir frá æfingunum og myndband einnig .
Mismunandi efni eru í flíkunum eftir því til hverra nota þær eru hugsaðar . Þú getur lesið nánari upplýsingar um hvert efni fyrir sig með að smella á tenglana hér til vinstri . Grunnlag er það lag fatnaðar sem liggur næst líkamanum . Efnin sem notuð eru í grunnlag eiga það öll sameiginlegt að draga raka frá líkamanum og dreifa honum um yfirborð efnisins til að ná sem mestri uppgufun á sem skemmstum tíma . Við notum hvort tveggja Merino ull og flísefni , á borð við Power Stretch og Power Dry , í fatnað sem er hugsaður sem grunnlag . Efnin eru miseinangrandi fyrir mismunandi aðstæður . Miðlaghefur þann tilgang að mynda loftmikið lag sem veitir góða einangrun . Miðlagið þarf einnig að taka við raka frá innsta laginu og annað hvort veita honum í burtu eða draga hann í sig án þess þó að missa einangrunargildi sitt . Algengast er að nota flísefni í miðlagið en flísefni eru gædd mjög mismunandi eiginleikum . Hefðbundna flísefnið , sem til er í nokkrum þykktum og gerðum , er notað sem einangrun undir yfirhafnir . Aðrðar tegundir flísefnis sem við notum eru til að mynda Wind Pro flísið sem er vind - og vatnsfráhrindandi flísefni sem hrindir frá sér vatni og andar en er ekki regnhelt . Power Shield flísefnið er önnur tegund af flísefni sem stundum er kallað Soft Shell . Power Shiled hefur sömu eiginleika og vindhelda flísið en er þar að auki mjög slitsterkt og regnþolið . Skel er ysta lagið og þær flíkur sem notaðar eru yfir flísið og verja það gegn veðri og vindum . Við notum nokkrar gerðir efna í skeljar sem öll eiga það sameiginlegt að vera í hæsta gæðaflokki . Má þar helst nefna eVENT ® sem er háþróað vatnshellt efni sem andar einstaklega vel ( hleypir raka út frá líkamanum ) . Við notum fleiri efni sem falla í sama flokk og eVENT ® og eru þær flíkur allar með vatnsheldum saumum . Efnin hafa öll mismunandi eiginleika sem henta við mismunandi aðstæður og notkun . Við notum gúmmíhúðuð efni í flíkur sem eiga að þola að vera lengi úti í mikilli rigningu án þess að notandinn blotni nokkuð . Flíkur úr gúmmihúðuðu efni eru mest hannaðar fyrir sjómenn og börn .
Starfsmannafatnaður merktur fyrirtækinu er öflug leið til markaðssetningar og ímyndarsköpunar . Slíkur fatnaður sameinar innri - og ytri markaðssetningu auk þess sem hann tengir saman vörumerkið , veitta þjónustu og gæði . Jafnframt eykur merktur starfsmannafatnaður samhug starfsmanna og hollustu þeirra við fyrirtækið . Fyrirtæki gefa viðskiptavinum eða starfsmönnum sínum í vaxandi mæli merktan fatnað og vörur í tengslum við ákveðin tímamót , svo sem við kynningu á nýrri vörulínu , þegar ákveðnu markmiði er náð , við ráðstefnuhald , golfmót og margt fleira . Félagasamtök og íþróttafélög nýta sér þjónustu okkar við kaup og merkingu á fatnaði fyrir margvísleg tilefni , hvort sem er til eflingar á innra starfi félaga , til auglýsingar eða við fjáröflunarverkefni . Hafðu samband við sölumenn okkar og þeir munu veita þér upplýsingar um þá fjölmörgu möguleika sem í boði eru . Beinn sími söludeildar er : 535 6660 .
Sem gestur á vefsíðu 66° Norður getur þú verið viss um öryggi og trúnað varðandi notkun persónuupplýsinga . Um öflun og notkun upplýsinga á vef okkar hefur fyrirtækið eftirfarandi venjur : 66° Norður virðir friðhelgi persónuupplýsinga um viðskiptavini sína . Tilgangurinn með þessari yfirlýsingu öryggi og trúnað er að koma því á framfæri hvers konar upplýsingum við höldum til haga um þig sem viðskiptavin , hvernig við kunnum að nota þær , hvernig við verndum þær , hvenær við getum nýtt þessar upplýsingar og hvaða val þú hefur varðandi upplýsingar um þig . Með því að heimsækja vefinn okkar lýsir þú þig samþykkan þeim hefðum sem lýst er í núverandi yfirlýsingu um öryggi og trúnað . Ef þú hefur áður heimsótt vefinn okkar vinsamlega kynntu þér yfirlýsinguna að nýju til að fullvissa þig um að þú þekkir núverandi skilmála . Ef þú hefur einhverjar spurningar varðandi öryggi og trúnað við meðferð upplýsinga um þig geturðu haft samband við okkur með tölvupósti á netfangið [email protected] . Toppur á síðu Upplýsingum sem ekki er hægt að tengja við einstaklinga er safnað með sjálfvirkum hætti um leið og þú kemur inn á vefinn okkar . Þar á meðal er svokölluð IP-tala þín ( Internet Protocol ) , það er sú einkennistala sem tölvan þín fær sjálfkrafa í hvert skipti sem þú tengist við netið . Þessi tala gefur ekki til kynna nafn þitt , netfang né aðrar persónulegar upplýsingar . Við notum IP-töluna þína til þess að auðvelda okkur að greina vandamál á netþjóni okkar og í tengslum við vefstjórn . Með svokölluðum kökum ( cookies ) söfnum við einnig upplýsingum sem ekki er hægt að tengja einstaklingum . Kaka er skrá staftöluorða sem vefsíða færir inn á harða diskinn á tölvunni þinni til þess að muna upplýsingar á meðan þú ferð á milli síðna innan vefsins eða þegar þú kemur aftur inn á vefinn . Við notumst við kökur til að varðveita upplýsingar um innkaupakörfuna þína á meðan þú skoðar aðrar síður á vefnum . Þegar þú hefur lokið því eru vörurnar enn í innkaupakörfunni . Við notumst einnig við kökur til að ná uppsöfnuðum upplýsingum um heimsóknir á vefinn , tíðni heimsókna og uppflettingar einstakra síðna innan vefsins . Með þessu móti getum við bætt viðmót og notagildi vefsins okkar . Þessar kökur safna ekki persónugreinanlegum upplýsingum né heldur tengjum við þær við persónuupplýsingar sem við höfum um þig . 66° Norður , auglýsendur okkar og auglýsingavefir kunna einnig að nýta kökur , sem og skrár sem kallast „ Web beacons “ eða „ Clear gifs “ , til þess að komast að því , án tengingar við einstaklinga , hvaða auglýsingar og kynningar notendur vefsins okkar skoða og hvernig þeir bregðast við þeim . Hins vegar nýtum við þessa tækni ekki til að safna persónugreinanlegum upplýsingum . Toppur á síðu Mögulegt er að við söfnum persónugreinanlegum upplýsingum um þig , svo sem nafni , heimilisfangi , netfangi , símanúmeri og kreditkortanúmeri , í tengslum við afgreiðslu á pöntun frá þér eða vegna annarra samskipta við þig . Til dæmis skráum við þær persónugreinanlegu upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að koma til skila þeirri vöru sem þú kaupir . Einnig fjármálatengdar upplýsingar , svo sem kreditkortanúmer og heimilisfang vegna reiknings , og einstaklingsupplýsingar , svo sem netfanga , heimilisfang , símanúmer og viðtökustað vörusendingar . Fjármálatengdar upplýsingarnar eru nýttar eingöngu til að innheimta greiðslu fyrir þá vöru sem þú kaupir . Einstaklingsupplýsingarnar af pöntunarforminu eru notaðar til að senda vörur og upplýsingar um fyrirtækið til þín . Þú getur valið að sleppa við að fá sendan póst í framtíðinni , sjá : „ Hvernig hægt er að losna af póstlista eða netfangalista , “ hér að neðan . Ef þú skráir þig á póstlista eða gefur upp netfangið þitt sendum við þér tölvupósta . Með þeim munum við upplýsa þig um þegar við setjum nýjar vörur á markað , sérstök tilboð , kynningartilboð frá samstarfsfyrirtækjum , umhverfismál sem við teljum mikilvæg og um það sem er að gerast í verslun okkar á þínu svæði . Ef þú færð nú þegar tölvupósta frá fyrirtækinu en vilt hætta að fá þá , vinsamlega kynntu þér : „ Hvernig hægt er að losna af póstlista eða netfangalista , “ hér að neðan . Viðtökuheimilisfang notum við til að senda til þín vörur , vörulista og annan póst . Ef annað heimilisfang er skráð fyrir viðtöku reiknings en fyrir vörusendingar , notum við það til að fá staðfestingu á innheimtuupplýsingum . Við deilum aldrei nöfnum , heimilisföngum , netföngum eða öðrum persónugreinanlegum upplýsingum um viðskiptavini okkar . Ef þú hefur ekki áhuga á að fá senda vörulista eða annan póst frá okkur vinsamlega kynntu þér : „ Hvernig hægt er að losna af póstlista eða netfangalista , “ hér að neðan . Toppur á síðu Um leið og þú slærð inn upplýsingar um þig á vefnum okkar býðst þér að velja að fá sendar upplýsingar frá okkur . Vefurinn okkar gefur þér eftirfarandi möguleika á að fjarlægja upplýsingar um þig úr gagnagrunni okkar til að koma í veg fyrir að við höfum samband við þig í framtíðinni . 66° Norður Miðhrauni 11 210 Garðabær Neðst á öllum markpósti sem 66° NORÐUR sendir á póstlista sinn er einnig hnappur sem býður upp á að láta fjarlægja það netfang sem pósturinn var sendur á af póstlista 66° NORÐUR . 66° Norður Miðhrauni 11 210 Garðabær Toppur á síðu Við leggjum okkur fram um að vernda persónulegar upplýsingar með því að nota þá öryggisstaðla sem viðeigandi eru eftir eðli upplýsinganna , hvort sem þær upplýsingar eru fengnar og / eða geymdar fyrir milligöngu netsins eða ekki . Við gerum allt sem skynsamlegt og viðeigandi getur talist til að koma í veg fyrir að slíkar upplýsingar glatist , verði stolið , óviðkomandi fái aðgang að þeim , þær verði opinberaðar , afritaðar , notaðar , þeim breytt eða eytt . Við leggjum sérstaka áherslu á að tryggja öryggi upplýsinga þegar keyptar eru vörur í gegnum vefsíðuna . Í þeim tilgangi notum við svokallaða SSL-dulritunartækni . Með SSL eru upplýsingarnar sem þú flytur frá tölvunni þinni dulritaðir yfir á vefþjón 66° Norður . Ef þú notar Netscape vafra getur þú kynnt þér öryggið í tengingu þinni með því að athuga neðst í vinstra horni vefgluggans . Ef þú notar Internet Explorer skaltu athuga reiti neðst hægra megin . Ef þú sérð heilan lykil eða lokaðan lás ( fer eftir því hvaða tegund af vafra þú notar ) er SSL tæknin virk . Sumar útgáfur af vöfrum og sumir eldveggir leyfa ekki samskipti í gegnum öryggisnetþjóna . Ef þér tekst ekki að tengjast öryggisnetþjóni eða ert ekki viss um hvort tenging þín er örugg vinsamlega pantaðu þá með því að hringja í 535 6600 . Toppur á síðu
66° NORÐUR rekur eigin viðgerða - og breytingaþjónustu og annast beina þjónustu við viðskiptavini sína . Viðgerðaþjónustan byggir á margra ára reynslu en í upphafi var viðgerðaþjónustan eingöngu fyrir sjófatnað en samhliða breytingum á framleiðslu fyrirtækisins breyttis viðgerðaþjónustan í alhliða þjónustu fyrir vinnufatnað á sjó og landi auk útivistarfatnaðar . Fatnaður 66° NORÐUR er gæðafatnaður framleiddur úr vönduðum efnum af fagfólki . Það er því metnaður 66° NORÐUR að bjóða viðskiptavinum sínum samskonar gæði og þjónustu ef svo illa vill til að fatnaður skaðist í leik eða starfi og ef breyta þarf fatnaði . Viðgerða - og breytingaþjónusta 66° NORÐUR annast allan fatnað sem framleiddur er og eða seldur af 66° NORÐUR . Viðgerðaþjónustan er til húsa að Miðhrauni 11 , 210 Garðabæ en allar verslanir 66° NORÐUR taka á móti fatnaði til viðgerðar . Vinsamlega hafið allan fatnað hreinan sem kemur í viðgerð .
Sjóklæðagerðin hf. er eitt elsta framleiðslufyrirtæki Íslands . Árið 1926 hóf fyrirtækið framleiðslu á sérstökum hlífðarfatnaði fyrir sjómenn og fiskverkunarfólk á norðurslóðum en seinna bættist við vörulínu fyrirtækisins vinnufatnaður fyrir fólk í landi . Rætur fyrirtækisins liggja því í framleiðslu sjó - og vinnufatnaðar og er fyrirtækið afar stolt af þeirri arfleifð sinni . Í dag er hönnun og framleiðsla útivistarfatnaðar kjarninn í starfsemi fyrirtækisins sem framleiddur er undir vörumerkinu 66° NORÐUR en fyrirtækið leggur mikið upp úr gæðum vörunnar þar sem eingöngu eru notuð bestu fáanlegu efnin í framleiðsluna . 66° NORÐUR er ávallt í góðu sambandi við endanlegan notanda . Í því samhengi má nefna náið samstarf fyrirtækisins við björgunarsveitir landsins , Íslenska fjallaleiðsögumenn o.fl. 66° NORÐUR framleiðir útivistafatnað fyrir Slysavarnarfélagið Landsbjörgu auk þess að framleiða fatnað fyrir lögregluna og slökkviliðið en allt eru þetta aðilar sem þurfa fatnað sem er endingargóður og þolir mikið álag . Á síðustu árum hefur 66° NORÐUR sótt í sig veðrið , bæði innanlands sem utan , með aukinni fjölbreytni í fatnaði og framleiðslu fyrir alla aldurshópa með áherslu á hönnun og gæði .
66° NORÐUR er afar stolt af því langa og góða samstarfi sem fyrirtækið hefur átt við björgunarsveitir landsins . Tæplega 18 þúsund sjálfboðaliðar starfa undir merkjum Landsbjargar um allt land . Um 3.500 manna útkallshópur er tilbúinn að bregðast við þegar neyðarkallið berst . Sjálfboðaliðar sveitanna hafa klæðst fatnaði frá 66° NORÐUR í 80 ár og þekkjum við vel það erfiða starf sem björgunarsveitirnar inna af hendi . Til að vekja athygli á óeigingjörnu starfi björgunarsveitanna höfum við hjá 66° NORÐUR hleypt af stað auglýsingum og látið gera stutt myndband um björgunarsveitina Kára í Öræfum . Sú sveit , líkt og ríflega hundrað aðrar sveitir í landinu , byggir á sjálfboðastarfi . ,, Myndinni er ætlað að minna okkur á að félagar í björgunarsveitum er venjulegt fólk . Það getur verið nágranni þinn eða vinnufélagi , kaupmaðurinn á horninu , skólabílstjórinn eða þjónninn . Þetta er allt fólk sem er tilbúið að hverfa frá daglegum skyldum til að koma öðrum til hjálpar oft og tíðum við mjög erfiðar aðstæður , " segir Helgi Rúnar Óskarsson , forstjóri 66° NORÐUR . Það er okkar von að almenningur svari kalli björgunarsveitanna og styrkji þeirra öfluga starf með kaupum á flugeldum . Sjóklæðagerðin - 66° NORÐUR er eitt elsta framleiðslufyrirtæki landsins , stofnað árið 1926 , og hefur um áratuga skeið verið leiðandi í framleiðslu á sjó - og vinnufatnaði . Undanfarinn áratug hefur fyrirtækið vaxið hratt með aukinni framleiðslu og sölu á fjölbreyttum fatnaði til útivistar og fengið margvísleg verðlaun fyrir hönnun sína og markaðsstarf síðastliðin ár .
66° NORÐUR og Íslenskir fjallaleiðsögumenn sameina krafta sína á ný og bjóða upp á hina vinsælu æfingaáætlun „ Toppaðu með 66° NORÐUR og Íslenskum fjallaleiðsögumönnum " . Þetta er fimmta árið sem verkefnið er haldið en það veitir fólki tækifæri til að ganga á Hvannadalshnúk , hæsta tind Íslands ( 2110 m ) , sem er á suðurhluta Vatnajökuls , stærsta jökuls í Evrópu . Fyrirtækin tvö hafa umhverfisvitund að leiðarljósi og leggja hart að sér að nota viðburðinn sem fræðslufarveg í þeim tilgangi að göngufólk geti fræðst um hlýnun jarðar og áhrif hennar á jökla Íslands . Íslenskir fjallaleiðsögumenn hafa áralanga reynslu í fjallaleiðsögn og 66° NORÐUR er leiðandi við þróun útivistarfatnaðar sem gerir göngufólki kleift að njóta útivistar við erfiðar aðstæður . Sjóklæðagerðin - 66° NORÐUR er eitt elsta framleiðslufyrirtæki landsins , stofnað árið 1926 , og hefur um áratuga skeið verið leiðandi í framleiðslu á sjó - og vinnufatnaði . Undanfarinn áratug hefur fyrirtækið vaxið hratt með aukinni framleiðslu og sölu á fjölbreyttum fatnaði til útivistar og fengið margvísleg verðlaun fyrir hönnun sína og markaðsstarf síðastliðin ár .
Sjóklæðagerð Íslands hf. var stofnuð árið 1926 á Suðureyri við Súgandafjörð . Fyrirtækið dregur nafn sitt af Norðurheimskautsbaugnum sem er á 66 breiddargráðu Norður og liggur sunnan við Súgandafjörð . Stofnendur voru Hans Kristjánsson frá Súgandafirði ásamt nokkrum öðrum aðilum . Fyrirtækið starfaði í upphafi í bakhúsi við Laugarveg en nokkrum árum seinna flytur fyrirtækið í stórt verksmiðjuhús í Skerjafirðinum . Þar hófst framleiðsla á öðrum hlífðarfatnaði en sjófatnaði , svo sem frökkum og kápum fyrir karla og konur , úlpum og almennum vinnufatnaði . Í Skerjafirði unnu á annað hundrað manns þegar flest var á þriðja áratugnum . Striginn var dreginn á stórum trommlum í gegnum olíubað sem var komið fyrir í stórum blikkkerjum á neðstu hæð á kjallaragólfi . Striginn var síðan undinn á trommlum uppundir rjáfur til þurrkunar . Miklar eldvarnir voru viðhafðar í þessum hluta hússins vegna eldfimra efna enda var bruninn í Skerjafirðinum mönnum enn í fersku minni . Starfsemin í dag Annað efni sem 66° NORÐUR er með einkaleyfi á Íslandi fyrir er eVENT ® öndunarefnið . eVENT ® er hátækni öndunarfilma sem hlotið hefur fjölda viðurkenninga sem besta öndunarfilman á markaðnum . eVENT ® filman er frábrugðin örðum öndunarfilmum á borð við GORE TEX ® þar sem hún byrjar fyrr að veita rakauppgufun í gegnum sig . Sérstakar framleiðsludeildir fyrirtækisins í Lettlandi framleiða hágæðavöru úr þessum efnum undir vörumerkinu 66° NORÐUR og hafa vörurnar verið markaðssettar í Bandaríkjunum og Evrópu með athygliverðum árángri . 66° NORÐUR hefur sterk viðskiptatengsl við marga ólíka hópa og eru þau tengsl ómentanleg uppspretta þekkingar í hönnunarferli fyrirtækisins . Fyrirtækið er stolt af því að framleiða fatnað á lögregluna og slökkviliðið og er góð samvinna við þessa aðila þegar kemur að framleiðslunni . 66° NORÐUR vinnur einnig náið með Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu sem vinnur með hönnunardeild fyrirtækisins og kemur með innsýn þegar verið er að hanna hágæða útivistarfatnað sem þarf að þola verstu veðuraðstæður sem upp geta komið . Fatnaður 66° NORÐUR hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir góða og nýstárlega hönnun úr hágæða efnum . Fyrir vikið hefur fyrirtækið hlotið fjölda verðlauna bæði fyrir hönnun og markaðsstarf . Á síðustu árum hefur 66° NORÐUR fært út kvíarnar og fást vörur fyrirtækisins nú í yfir 500 verslunum í 15 löndum . Árið 2006 opnaði 66° NORÐUR svo sína eigin skriftsofu í New York sem sér um sölu og markaðssetningu á vörum fyrirtækisins á Bandaríkjamarkaði . Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Miðhrauni 11 í Garðabæ .
66° Norður notar einungis bestu fáanlegu efnin í vörur sem fyrirtækið framleiðir . Hvort heldur sem um er að ræða ytra byrði fatnaðarins eða einangrunina . Dúnvörurnar hafa verið vinsælar í gegnum árin en nýlega var 66° Norður fyrst íslenskra framleiðenda til þess að nota PrimaLoft ® fyllingu í hlífðarfatnað . PrimaLoft ® einangrunin er einstaklega hlý og létt en er einnig vatnsfráhrindandi og hentar því vel sem einangrun við íslenskar aðstæður . Skoðaðu vöruframboð okkar hér að neðan .
Smelltu á myndirnar til að sjá mismunandi vörumyndir Mögulegir litir , smelltu til að sjá vöru í þessum lit Smelltu hér fyrir neðan til að sjá stærðar kortin okkar Kjölur Fyrir daga bílsins var Kjölur eða Kjalvegur fjölfarnasta leið milli Norður - og Suðurlands . Kjölur nefnist hæsta svæðið ( spildan ) milli Langjökuls og Hofsjökuls þar sem vatnaskil eru ( eins og kjölur báts ( keel ) á hvolfi ) . Þar sem Kjölur er í raun skarð á milli tveggja stórra jökla verða þar gjarnan skyndilegar og stundum ófyrirséðar veðurbreytingar . Lesa meira Gerð : K11741 Magn : VelduSíðanEkki til á lager , vinsamlega veldu annan lit
Smelltu á myndirnar til að sjá mismunandi vörumyndir Mögulegir litir , smelltu til að sjá vöru í þessum lit Smelltu hér fyrir neðan til að sjá stærðar kortin okkar Botnsá rennur úr öðru dýpsta vatni landsins , Hvalvatni ( 160 m ) , í Hvalfjörð . Í stórfenglegt gljúfur Botnsár fellur hæsti foss landsins , Glymur , um 198 metra hár . Margir hafa furðað sig á örnefnum á þessum slóðum en skemmtileg þjóðsaga er Rauðhöfði nefnist segir frá tilurð þeirra . Lesa meira Gerð : W11135 Verð : 64.000 kr ( ISK ) Magn : VelduSíðanEkki til á lager , vinsamlega veldu annan lit
Smelltu á myndirnar til að sjá mismunandi vörumyndir Mögulegir litir , smelltu til að sjá vöru í þessum lit Smelltu hér fyrir neðan til að sjá stærðar kortin okkar Askja er virkt eldfjall í Ódáðahrauni og má rekja myndun hennar til tíðra eldgosa . Undir Öskju er kvikuþró sem tæmst hefur við eldgos svo botninn hefur sigið . Árið 1875 varð öflugt eldgos í gíg Öskju , svipað því er lagði grunn að mótun fjallsins 10.000 árum áður . Lesa meira Verð : 39.800 kr ( ISK ) Magn : VelduSíðanEkki til á lager , vinsamlega veldu annan lit
Hér er listi yfir þau fyritæki sem 66° Norður á í mjög nánu samstarfi við og má með sanni kalla vini 66° Norður . Fyrirtækið Íslenskir Fjallaleiðsögumenn var stofnað árið 1994 og hefur markmiðið frá upphafi verið að fara ótroðnar slóðir með innlenda sem erlenda ferðamenn , opna augu fólks fyrir fjallaferðum , stuðla að verndun viðkvæmrar náttúru norðurslóða og að auka gæði og fagmennsku í leiðsögn . Trúir þessum markmiðum , hafa Íslenskir Fjallaleiðsögumenn staðið í farabroddi íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja í þróun nýrra ferða , umhverfismálum , menntun starfsmanna og öryggismálum . Sem þjónustufyrirtæki leggja Íslenskir Fjallaleiðsögumenn áherslu á breidd í ferðum , allt frá auðveldum dagsferðum til erfiðra heimskautaleiðangra , með mottóið ævintýri fyrir alla að leiðarljósi . Norðursigling er fjölskyldufyrirtæki , staðsett á Húsavík . Fyrirtækið var stofnað árið 1995 og hefur síðan þá kappkostað að bjóða ferðamönnum sem og öðrum upp á ýmsar gerðir siglingaferða . Hvalaskoðun hefur frá upphafi verið aðalsmerki Norðursiglingar ásamt upphefð íslenskrar strandmenningar svo og uppgerð og varðveisla gamalla eikarbáta . Hin síðari ár hefur starfsemin stækkað hratt . Í boði eru nú margs konar ferðir og náttúruskoðun og bátarnir alls sex talsins , þar af tvær skonnortur , þær einu sinnar tegundar á landinu . Norðursigling á og rekur að auki veitingastaðinn Gamla Bauk og kaffihúsið Skuld , bæði staðsett við Húsavíkurhöfn .
Knattspyrnumaðurinn Jón Daði Böðvarsson var valinn Sunnlendingur ársins - og íþróttamaður ársins - á útvarpsstöðinni Suðurland FM . Hlustendur Suðurland FM kusu Jón Daða Sunnlending ársins og hann var einnig valinn sunnlenski íþróttamaður ársins . Heil og sæl gott fólk .
Einnig er fyrir stafni vinna við texta sem vonast er til að bólgni út með leiðréttingum og aukinni vitneskju um eyfirska bátasmíði . Vonast er til að gott lífsmark verði sýnilegt á vefnum og er þar treyst á lesandann . Þeim mun meiri upplýsingar sem berast skrásetjara þeim mun meiri hreyfing verður á vefnum . Frá lesendum er vænst upplýsinga um báta og skip sem ekki hefur tekist að tengja skipasmið eða skipasmíðastöð . Fljótlegast er að finna þessa munaðarleysingja í meðfylgjandi skrám . Einnig hangir á spýtunni bón um að skrásetjara verði sendar myndir af bátum byggðum í Eyjafirði þannig að sögunni verði einnig haldið til haga á myndrænan máta . Eftir að ofanskráð var fest á blað hefur verið leitað fanga beggja vegna Eyjafjarðar og nær vefurinn nú yfir svæðið frá Horni að Fonti á Langanesi . Önnur og þriðja lína efnisyfirlits , neðan frá talið , leiða skoðendur að upplýsingum um báta og bátasmiði vestan og austan Eyjafjarðar . Sjálfsögð kurteisi við lesendur er að skrásetjari geri grein fyrir tilvist sinni þannig að þeir geti lagt mat á hvort hann hafi yfirhöfuð einhverja þekkingu á því , sem vefurinn fjallar um . Fyrst er til að taka að fæðingarár skrásetjara er 1935 og uppalinn er hann í fjöruborðinu á Grenivík . Árið 1957 lá leið skrásetjara til Patreksfjarðar í vélvirkjanám og til Akureyrar kom hann árið 1961 og hefur dvalið þar síðan . Fyrsti vinnustaðurinn á Akureyri var Vélsmiðjan Oddi hf. þá Vélsmiðjan Valur sf. og frá árinu 1964 til ársins 2004 Slippstöðin hf. á Akureyri . Allir þessir vinnustaðir buðu upp á náin samskipti við starfsmenn útgerðarfyrirtækja og útgerðamenn og þá sér í lagi þá er lögðu leið sína í Slippstöðina hf. þar sem skrásetjari var lengst af verkstjóri og verkefnastjóri viðgerðarverka . Félagsstörf í samfellt 30 ár hafa einnig leitt til kynna við fjölda verkstjóra um land allt og gefið skrásetjara kost á innsýn í fjölmörg fyrirtæki . Skrásetjari sat í stjórn Verkstjórafélags Akureyrir og nágrennis sem gjaldkeri og formaður frá 1974 til 1995 og í stjórn Verkstjórasambands Íslands frá 1981 til 2001 . Þar af varaforseti samtakanna í 6 ár og önnur 6 ár sem forseti þeirra . Ritstjórn Verkstjórans hefur hann haft með höndum í tæp 30 ár . Skrásetjari lætur lesendum eftir að fella dóm um hæfi hans eða óhæfi til ritunar þess sem vefurinn inniber .
Þann 30. apríl s.l. útskrifaðist 7. bekkur ABC skólans , samtals 22 ABC liðar . Að þessu sinni var námskeiðið tvö kvöld í viku á 12 vikna tímabili . Samhliða fræðslu tóku þátttakendur til hendinni og skiluðu vinnuframlagi í þágu starfsins sem er afar gagnlegt fyrir ABC barnahjálp . Við óskum þeim innilega til hamingju og bjóðum þá hjartanlega velkomna í Félag ABC liða . Framundan hjá þeim flestum er ferð til Kenya í lok júlí í fylgd Guðjóns Inga fararstjóra . Þar fá þeir að heimsækja starf ABC í Nairobi og í Loitoktok og í lok ferðar ætla þeir að skoða hluta af þessu fagra og auðuga landi . Bekkurinn ætlar að vinna að fjáröflun í sumar svo þeir geti fært börnunum okkar og heimilinu rausnarlega gjöf . Öllum er velkomið að leggja til aur í þann sjóð ( nánari upplýsingar gefur Bryndís Rut S : 661-2220 ) . > ABC skólinn áætlar að halda aftur námskeið í þróunar - og hjálparstarfi í haust . Það verður auglýst hér á síðunni er nær dregur .
Sé um að ræða óþekkt ökutæki , sem valdið hefur tjóni , getur einvörðungu skapast bótaréttur hjá ABÍ vegna líkamstjóns og / eða missis framfæranda , en ekki vegna munatjóns . Sé t.d. ekið á kyrrstæða , mannlausa bifreið og tjónvaldurinn lætur sig hverfa af vettvangi , eignast eigandi kyrrstæðu bifreiðarinnar , sem ekið var á , engan rétt gagnvart ABÍ . Eigandi skemmdu bifreiðarinnar gæti þá átt kröfu á vátryggingafélag sitt , hafi hann keypt kaskótryggingu ( húftryggingu ) , en ella yrði hann að sitja uppi með tjón sitt sjálfur .
Internetsambönd eru afhent með þrennum hætti Wimax , ADSL og ódýrari þráðlaus búnaður Wi-Max : Wi-Max samböndin voru fyrst sett upp 2008 og byggja á tíðnisviðinu 3,5 Ghz sem er úthlutuð tíðni frá Póst og fjarskiptastofnun . Búnaðurinn er margfalt betri en Wi-Fi . Alþjóðafjarskiptasambandið ITU hefur flokkað WiMax sem hluta af s.k. þriðju kynslóð , 3G . Þó flestir líti á 3G sem nýja kynslóð farsíma er í raun margvísleg tækni flokkuð sem 3G og nú hefur WiMax , sem er langdræg háhraða nettækni , bæst í þann hóp . Wi-Max er hluti framtíðarfjarskipta . Búnaðurinn sem nýttur er frá Alvarion.com og Icecom.is og er gæða búnaður á allan máta . Búnaður er alltaf í eigu Ábótans . Wi-Max er örbylgjukerfi sem getur boðið upp á Internet , síma og fjarvöktun . Úr turnháum möstrum er merki sent af stað er dregur 50km sjónlínu : frá Langholtsfjalli í Hrunamannahreppi frá Búrfelli í Skeiða - og Gnúpverjahreppi frá Hurðarbaki í Flóahreppi frá Skíðbakka í Landeyjum . Afnotagjald af Wimax búnaði er 3.000 kr / mán af tengingum frá 1. janúar 2011 í stað stofngjalds að tengingu . ADSL-sambönd rennur eftir símalínum frá símstöðinni við Brautarholt á Skeiðum og frá símstöðinni við félagsheimilið Árnes , báðar í Skeiða - og Gnúpverjarheppi . Þau voru fyrst sett upp 2008 . Hraði allt að 8 Mbit / s og drægni 5000 símalínumetrar . Afnotagjald af ADSL router 500 kr / mánuði verður lagt á eftir 1. janúar 2011 . 5 Ghz Mimo búnaður sem í boði er var fyrst settur upp 2011 . Hann dregur allt að 20 km og er stilltur til að skila notanda allt að 4 Mbit / s frá samnýttum örbylgjusendi . Örbylgjusamböndin Mimo byggja á opinni tíðni á tíðnisviði . Þetta þýðir að örbylgjan er ekki truflunarlaus máti til samskipta . Það er margt sem getur truflað og vert er að hafa það í huga . Í flestum tilvikum hefur þetta gengið hnökralaust en þrautinni þyngra að ráða fram úr truflunum eða öðrum bilunum . Þess vegna er ekki ráðlegt að byggja öryggiskerfi ofan á þennan búnað eða fjárhagslega afkomu . Rétt er að benda á Wimax sambönd í þeim efnum . Afnotagjald af Mimobúnaði er kr. 1.000 kr / mán . Drægni Mimo örbylgjubúnaðarins er 15 - 20 km sjónlína frá útsendingarstöðum en þeir eru : Langholtsfjall í Hrunamannahreppi Torfastarðaheiði í Biskupstungum Sel í Grímsnesi Háafjall í Biskupstungum Flagbjarnarholt á Landi í Rangárvallasýslu Brautarholt á Skeiðum Sleðás við Laxárdal í Skeiða - og Gnúpverjarhreppi Steinsholt í Skeiða - og Gnúpverjahreppi Víðihlíð í Skeiða – og Gnúpverjahreppi Hús Neseyjar ehf við Árnes í Skeiða -og Gnúpverjahreppi Nefsholt nærri Laugalandi Huðarbaki í Flóa Selfossi 3G tengingar í endursölu frá Símanum standa einnig til boða gegnum Ábótann ehf. en mælum ekkert sérstaklega með þeim sem heimilis - eða fyrirtækjatengingu . ADSL tengingar í endursölu frá Símanum standa einnig til boða gegnum Ábótann ehf. á svæðum sem Síminn veitir ADSL tengingar . En nokkur orð um uppsetningu : Ábótinn afhendir notenda móttökubúnað fyrir sambandið . Stofngjaldið er greiðsla fyrir afnotin af búnaði Ábótans og er hann eign Ábótans . Við viðskiptalok skal notandi afhenda Ábótanum þennan búnað niður teknum . Rétt er að ítreka að móttökubúnaður er afhendur til afnota og afnotagjald greitt . Þessi búnaður er ætíð eign Ábótans . Afnotagjald að sambandi er rukkað . Viðskiptavinur getur sjálfur sett upp búnaðinn eða Ábótinn innir það af hendi fyrir greiðslu frá 15.000 kr ( miðað við 100km akstur og klukkutíma vinnu ) . Annað sem notendi þarf til : Festing fyrir búnaðinn s.s. loftnetsfestingu og þær eru hægt að kaupa hjá Ábótanum kr. 4.900 fyrir þær minnstu . Beinir eða router þarf notandi og fást þeir hjá Ábótanum frá 7.900 kr . Öryggismál routers er í höndum notenda fyrst og síðast . Notanda er óheimilt að endurselja eða láta í té þriðja aðila internetsamband Ábótans , þe . hús nágranna . Notenda er hins vegar heimilt að samtengja heimilstölvurnar . Eins bera að skila búnaði Ábótans við lok viðskipta án tafa . Nokkur orð um tenginguna : Búnaður sem stendur hjá notendanum talar við miðjubúnaðinn , þaðan við ljósleiðarkerfi Ábótans við Félagsheimilið Árnes í Skeiða - og Gnúpverjahreppi . Ljósleiðarakerfi Ábótans tengist síðan við ljósleiðara Fjarska til Reykjavíkur á 100 Mbit / s tengingu við Vodafone . Með örbylgjusambandi Ábótans fylgir þrjú netföng . Hægt er að velja sér [email protected] , eða [email protected] , @consul . is , @handverk . is , @holtin , @jarl . is , @landeyjar . is , @love . is , @pax . is og @floinn . is . Ef þarf fleiri , þá er greiddar 350 kr. á mánuði hvert netfang . Örbylgjusambönd Ábótans fóru að streyma í mars 2003 . Ljósleiðarasambönd í apríl 2002 . Mánaðargjöld eru innheimt með kreditkortum eða greiðlsuseðlum ( útskriftargjald reikninga kr. 250 ) Ábótinn rekur ekki 24 tíma þjónustu 7 daga vikunnar , en reynt er að mæta bilunum eftir föngum . Rukkað er fyrir þjónustu sem snýr að búnaði notanda , en ekki sjálfum búnaði Ábótans . Þetta þýðir að ef eitthvað er snúið heima fyrir og þjónustu er þörf þá er rukkað fyrir unna tíð . Þau sem sjá sér hag í því að nýta sér örbylgjusambönd Ábótans ættu að hafa frekara samband , annað hvort í síma 481 2258 nú eða með tölvupósti abotinn ( hja ) abotinn.is .
Ábótinn hefur hýst lén síðan 1996 svo nokkur reynsla hefur safnast liðin ár . Til að nýta Internetið undir eigin lénsnafni þarf að fylla út og skila umsóknum um lén ( á ensku “ domain ” ) . ISNIC.is hefur með höndum úthlutun . is léna á Íslandi . Ábótinn hýsir og þjónustar lén í nafnaþjónum sínum og aðstoðar við útfyllingu umsóknar ef þörf krefur . Atburðarrás fyrir hýsingu á léni á vefþjónum Ábótans er þessi : Senda þarf Ábótanum ósk um hýsingu á tilteknu léni ( sé það laust ) með símtali ( símar 481 2258 eða 898 2935 og þar er einnig frekari upplýsingar að fá ) . Ábótinn vinnur síðan umsóknina og gengur frá henni . Samfara þessu þarf að greiða tilgreint stofngjald til Isnic kr. 7.918 . Gjaldskrá fyrir skráningu og hýsingu léna ( . IS ) Stofngjald léns til ISNIC er kr. 6.982 með VSK sem greiðist við úthlutun léns og innifelur skráningargjald fyrsta árið . Mánaðargjald fyrir lén hýst hjá Ábótanum er frá kr. 1.200 með vsk . Innifalið er eftirfarandi : Hýsing í nafnaþjónum 1 GB vefsvæði Þrjú netföng Mánaðarlegt gjald fyrir önnur netföng er kr. 350 Uppsetningartími er 8 - 48 klukkutímar . WordPress hýsing er ennfremur í boði . Ábótinn ehf áskilur sér allan rétt til að loka hýstum lénum eða loka aðgengi að efni , sem ekki samrýmist góðu og gildu kristilegu siðferði , án frekari aðvörunnar . Hafið frekara samband séu upplýsingar hér ónógar eða lénaþörfin önnur .
Hagstofa Íslands gefur út árlega hagtölur sem meðal annars eiga að sýna fram á hvaða þjóðfélagshópar eiga á hættu að lenda í fátækt . Einstæðir foreldrar eru oftast nefndir sem sá þjóðfélagshópur sem hættast er við fátækt og þá oftar en ekki einstæðar mæður . Hagstofa Íslands hefur hins vegar ekki , ... Lágtekjumörk ( e. at risk of poverty ) er ákveðin skilgreining Evrópusambandsins á þeim mörkum ráðstöfunartekna á neyslueiningu sem skapa hættu á fátækt og félagslegri einangrun . Megintilgangur þess að lágtekjumörk eru notuð er að skima fyrir þeim þjóðfélagshópum sem eiga á hættu að búa við fátækt og félagslega einangrun . En grundvallaratriði ... Fræðasetur þriðja geirans við Háskóla Íslands Hvaða gagn gera frjáls félagasamtök ? Þriðjudaginn 12. febrúar kl. 12:15 – 13:45 í Háskólanum í Reykjavík í fyrirlestrarsal M 101 12:15 Þingið opnað Ragna Árnadóttir formaður Almannaheilla opnar þingið og segir frá vinnu Almannaheilla með stjórnvöldum að gerð lagafrumvarps um frjáls félagasamtök sem ... MÁLSTOFURÖÐ ÞEMA VORSINS 2013 Fæðingarorlof og foreldrajafnrétti Rannsóknastofnun í barna - og fjölskylduvernd ( RBF ) og Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands í samstarfi við MARK , Miðstöð margbreytileika - og kynjarannsókna Feður , mæður og fæðingarorlof – löggjöf og nýting Ingólfur V. Gíslason , dósent í Félags - og mannvísindadeild Fimmtudaginn 7. febrúar kl. 12:10 - 13:00 , Háskólatorg , stofa ... Fréttatilkynning Félag um foreldrajafnrétti vill koma eftirfarandi á framfæri í tengslum við fréttir frá Innheimtustofnun sveitarfélaga um hertar innheimtuaðgerðir . Félag um foreldrajafnrétti vill árétta að meðlagsgreiðendur eru foreldrar sem flestir hverjir annast börn sín með umönnun og framfærslu með beinum hætti auk meðlagsgreiðslna . Það sem aðgreinir þessa foreldra frá ... Lágtekjumörk ( e. at risk of poverty ) er ákveðin skilgreining Evrópusambandsins á þeim mörkum ráðstöfunartekna á neyslueiningu sem skapa hættu á fátækt og félagslegri einangrun . Megintilgangur þess að lágtekjumörk eru notuð er að skima fyrir þeim þjóðfélagshópum sem eiga á hættu að búa við fátækt og félagslega einangrun . En grundvallaratriði þess að finna slíka hópa ... Lesa meira » Félag um foreldrajafnrétti vill minna formenn verðandi ríkisstjórnarflokka á að um 40% barna á Íslandi eiga foreldra á tveimur heimilum . Þessi börn eiga rétt á báðum foreldrum sínum eins og önnur börn . Foreldrum þessara barna ber að axla ábyrgð á börnum sínum óháð búsetu . Stjórnvöldum ber að gera foreldrum kleift að sinna ábyrgð sinni ... Lesa meira » Hagstofa Íslands gefur út árlega hagtölur sem meðal annars eiga að sýna fram á hvaða þjóðfélagshópar eiga á hættu að lenda í fátækt . Einstæðir foreldrar eru oftast nefndir sem sá þjóðfélagshópur sem hættast er við fátækt og þá oftar en ekki einstæðar mæður . Hagstofa Íslands hefur hins vegar ekki , þrátt fyrir ábendingar þess efnis , ... Lesa meira » Fræðasetur þriðja geirans við Háskóla Íslands Hvaða gagn gera frjáls félagasamtök ? Þriðjudaginn 12. febrúar kl. 12:15 – 13:45 í Háskólanum í Reykjavík í fyrirlestrarsal M 101 12:15 Þingið opnað Ragna Árnadóttir formaður Almannaheilla opnar þingið og segir frá vinnu Almannaheilla með stjórnvöldum að gerð lagafrumvarps um frjáls félagasamtök sem vinna í þágu almennings , þess ... Lesa meira » MÁLSTOFURÖÐ ÞEMA VORSINS 2013 Fæðingarorlof og foreldrajafnrétti Rannsóknastofnun í barna - og fjölskylduvernd ( RBF ) og Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands í samstarfi við MARK , Miðstöð margbreytileika - og kynjarannsókna Feður , mæður og fæðingarorlof – löggjöf og nýting Ingólfur V. Gíslason , dósent í Félags - og mannvísindadeild Fimmtudaginn 7. febrúar kl. 12:10 - 13:00 , Háskólatorg , stofa 104 Frá vöggu til leikskóla ... Lesa meira » Alþingi hefur þannig eytt þeirri réttaróvissu sem ríkt hefur um réttindi barna og foreldra þeirra frá því það spurðist út að Ögmundur Jónasson , innanríkisráðherra , hygðist fresta gildistöku breytinganna um hálft ár . Lögin voru samþykkt á Alþingi 25. júní 2012 en frumvarp þess efnis hafði legið á borðum ráðherra dómamála frá 12. janúar 2010 eftir ... Lesa meira » Þegar talað er um heimild dómara til þess að dæma sameiginlega forsjá , þá er iðulega fjallað um sameiginlegar ákvarðanir foreldra og hæfni þeirra til þess að taka slíkar ákvarðanir . Undirritaður hefur verið að fara yfir hvað lögin segja um ákvarðanarétt foreldra sem fara sameiginlega með forsjá barns . ( miðað við samþykkt lög sem eiga að ... Lesa meira » Félagi um foreldrajafnrétti hefur borist bréf til Alþingis frá konu sem vill hvetja Alþingismenn til þess að setja sig í spor þeirra sem þurfa að þjást vegna núverandi barnalaga . Forsaga málsins er sú að á síðasta þingi voru samþykktar breytingar á barnalögum samkvæmt frumvarpi sem lagt var fram af innanríkisráðherra . Í meðförum þingsins var ... Lesa meira » Af óviðráðanlegum orsökum verður aðalfundi frestað . Aðalfundur verður því haldinn þriðjudaginn 30. október 2012 kl. 20:00 . Aðalfundur Félags um foreldrajafnrétti verður haldinn þriðjudaginn 30. október kl. 20:00 í Árskógum 4 , Reykjavík . Venjuleg aðalfundarstörf . Allir velkomnir á fundinn en aðeins þeir sem hafa greitt félagsgjald hafa kosningarrétt . Vinsamlega kynnið ykkur lög félagsins og siðareglur ef ... Lesa meira » Lágtekjumörk ( e. at risk of poverty ) er ákveðin skilgreining Evrópusambandsins á þeim mörkum ráðstöfunartekna á neyslueiningu sem skapa hættu á fátækt og félagslegri einangrun . Megintilgangur þess að lágtekjumörk eru notuð er að skima fyrir þeim þjóðfélagshópum sem eiga á hættu að búa við fátækt og félagslega einangrun . En grundvallaratriði þess að finna slíka hópa ... Föstudagurinn 26. október 2012 Á dagskrá Þjóðarspegils 2012 er meðal annars : Foreldrar og börn – skilnaður og forsjá Tími og staður : 09:00 – 10:45 – Háskóli Íslands : Oddi 201 Erindi : Guðný Björk Eydal og Heimir Hilmarsson Fjölskyldubætur og framfærsla barna : Þegar foreldrar búa ekki saman Sigrún Júlíusdóttir og Íris Dögg Lárusdóttir Skilnaðarráðgjöf : Rannsóknir um ... Fimm þingmenn , einn úr hverjum flokki , hafa lagt fram frumvarp til lögfestingar á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins . Lögfesting sáttmálans hefur þá þýðingu að einstaklingar geta leitað réttar síns samkvæmt samningnum fyrir dómstólum . Þannig mun þessi 23 ára samningur sem staðfestur var á Alþingi Íslendinga fyrir 20 árum loksins öðlast raunverulegt gildi fyrir ... Fyrirlestur í Háskólanum á Akureyri Miðvikudaginn 19. september mun Tryggvi Hallgrímsson sérfræðingur á Jafnréttisstofu flytja erindi á jafnréttistorgi í Háskólanum á Akureyri sem fjallar um tengsl karla við jafnréttismál . Félag um foreldrajafnrétti hvetur karla sem áhuga hafa á jafnréttismálum til þess að mæta á erindið . Ljóst er að hvergi í íslensku samfélagi er meiri ... “ Út frá sjónarmiðum jafnréttis og heilbrigðrar skynsemi þarf því klárlega eitt af tvennu að gerast : Annað hvort þarf að heimila tvöfalt lögheimili barna eða að afnema þann sjálfkrafa umframrétt sem lögheimilið veitir öðru foreldrinu . ” segir Pawel Bartoszek , stærðfræðingur og fulltrúi stjórnlagaráðs sem skrifar um foreldrajafnrétti í Fréttablaðinu þann 8. júní 2012 . Lesa meira Heimir Hilmarsson , formaður Félags um foreldrajafnrétti , skrifar um ofbeldi sem tengist umgengnistálmunum í Fréttablaðið í dag . Vald lögheimilisforeldra Hvaða nafn sem gefa má því andlega ofbeldi sem felst í tilefnislausum umgengnistálmunum , neikvæðri innrætingu , heilaþvotti eða kúgun á börnum , þá hjálpum við engum með hártogunum um það hvaða nafn á að gefa slíku ofbeldi eða ... Fréttatilkynning Félag um foreldrajafnrétti vill koma eftirfarandi á framfæri í tengslum við fréttir frá Innheimtustofnun sveitarfélaga um hertar innheimtuaðgerðir . Félag um foreldrajafnrétti vill árétta að meðlagsgreiðendur eru foreldrar sem flestir hverjir annast börn sín með umönnun og framfærslu með beinum hætti auk meðlagsgreiðslna . Það sem aðgreinir þessa foreldra frá öðrum foreldrum er að lögheimili ... Nokkurrar oftúlkunar eða mistúlkunar virðist gæta á hugtakinu foreldrajafnrétti í almennri umræðu og jafnvel fræðilegri . Þannig segir til dæmis í frumvarpi til breytinga á barnalögumað full samstaða sé um það á öllum Norðurlöndunum að þarfir barns verði að vega þyngra en sjónarmið um jafnrétti foreldra . Þannig er látið að því liggja að jafnrétti foreldra ... Hvernig taka fulltrúar sýslumanna ákvarðanir um umgengni ? Hér er texti úr greinargerð með barnalögum nr. 76 / 2003 : Í úrskurði um umgengni er kveðið á um inntak umgengninnar og oft einhver nánari fyrirmæli um framkvæmd hennar . Til margs verður að líta þegar úrskurða þarf um umgengni eftir því sem hverju einstöku barni þykir koma best en ... Nú eru umgengnisúrskurðir unnir og kveðnir upp hjá embættum sýslumanna um allt land , og hægt að áfrýja þeim til dómsmálaráðuneytisins . Þetta fyrirkomulag tíðkast óvíða annarsstaðar . Eðlilegt er að dómskerfið nýtist til mála sem eru jafnmikilvæg þegnunum eins og samvera við börnin er . Eðlilega eru gerðar meiri kröfur um málsmeðferð fyrir dómstólum en hjá sýslumönnum . Gagnsæi og dómafordæmi er meira , þar sem dómar dómstóla eru birtir en úrskurðir sýslumanna ekki . Áfrýjun til Hæstaréttar er trúverðugri en áfrýjun til dómsmálaráðuneytisins , en sýslumannsembættin eru á forræði þess ráðuneytis og tengslin því óeðlileg . Engin leið er að réttlæta minni kröfur til meðferðar umgengnismála hér en í öðrum löndum . Forsjármál voru færð undir dómstóla árið 2003 og með stöðugt aukinni umgengni barna við feður sína er eðlilegt að færa umgengnismál undir dómstóla einnig . Rannsóknir sýna börn flest öll skilnaðarbörn kjósa að verja meiri tíma með feðrum sínum en þeim er leyft eða kleift að gera .
Ábyrgspilun.is er í eigu og rekin af Íslandsspilum , Happdrætti Háskóla Íslands ( HHÍ ) , Íslenskri getspá og Íslenskum getraunum . Síðan var upphaflega sett á laggirnar árið 2002 og þá fjármögnuð af Íslandsspilum og HHÍ , en síðar í breyttri mynd haustið 2009 í samstarfi þriggja fyrrnefndra fyrirtækja . Íslandsspil starfrækir söfnunarkassa á landsvísu og rennur allur ágóði af starfseminni tilRauða kross Íslands , Slysavarnafélagsins Landsbjargar og SÁÁ . HHÍ eru með skjávélar og auk þeirra skafmiða og flokkahappdrættiog rennur ágóði til byggingarframkvæmda og tækjakaupa fyrirHáskóla Íslands . Íslensk getspá starfrækir Lottó og rennur ágóði Íslenskrar getspár til Íþrótta - og Ólympíusambands Íslands , Öryrkjabandalags Íslands og Ungmennafélags Íslands . Ágóði Íslenskra getrauna rennur til íþróttahreyfingarinnar . Öll fyrirtækin , sem og önnur lögleg happdrætti á Íslandi , starfa eftir reglugerðum og innan lagaramma frá Dómsmálaráðuneyti . Nánari upplýsingar má finna á heimasíðum fyrirtækjanna , Íslandsspila , HHÍ og Íslenskra getrauna / getspár . Vakin er sérstök athygli á því að lágmarksaldur fyrir allar tegundir peningaspila sem fyrirtækin bjóða upp á er 18 ár . Markmið síðunnar er að hægt sé að nálgast fjölbreyttar upplýsingar um peningaspil með góðu móti . Leitast er við að allt efni síðunnar sé áreiðanlegt , heimildir séu ávallt traustar og hlutleysis sé gætt í allri umfjöllun . Síðan er unnin í samstarfi Auðar Sigrúnardóttur MA í sálfræði og Dr. Daníels Þórs Ólasonar , Dósents í sálfræði við Háskóla Íslands . Daníel hefur varið miklum tíma í rannsóknir og skrif um spilavanda og stendur einna fremstur fræðimanna á Íslandi í þessum málaflokki .
Aðalökuskólinn hefur aðsetur í Menntaskólanum við Sund , Gnoðarvogi 43 . Aðalökuskólinn var stofnaður árið 1996 og er nú í eigu 32 sérmenntaðra ökukennara sem leggja áherslu á að skila góðum ökumönnum út í umferðina . ATH ! Nemendur þurfa að nýskrá / skrá sig á námskeið ( sjá fliba efst Nýskráning / skráning ) . Verð : 16.500 . - Kennd eru tvö námskeið í mánuði ásamt einu helgarnámskeiði . Ö 1 er 12 kennslustundir og er kennt virka daga frá 18:00 - 21:20 og helgarnámskeið er kennt frá 09:00 - 12.30 Lesa Meira Verð : 13.500 . - Kennd eru tvö námskeið í mánuði ásamt einu helgarnámskeiði . Ö 2 er 12 kennslustundir og er kennt virka daga frá 18:00 - 21:20 og helgarnámskeið er kennt frá 09:00 - 12:30 . Lesa meira Í Ö 3 er farið í skrikvagn sem ökunemar upplifa akstur í hálku , ásamt því að fara í veltibíl beltasleða ofl . Svo að hægt sé að fara í skriflegt próf þarf að vera búið að skila inn umsókn um ökuskírteini ásamt passamynd til sýslumanns , Ö 2 þarf að vera lokið ásamt 14 ökutímum hjá ökukennara . Fyrir verklega prófið þarf að auki Ö 3 að vera lokið . Prófin eru tekin hjá Frumherja á Hesthálsi . Ljúka þarf skriflegu prófi áður en hægt er að panta verklegt próf. Skriflega prófið má taka tveimur mánuðum fyrir 17 ára afmælisdaginn og er það oftast nemandinn sem pantar það sjálfur . Til að hægt sé að fara í skriflegt próf þarf Ö 2 að vera lokið og búið að skila inn umsókn um ökuskirteini ásamt passamynd til sýslumanns , einnig þarf 14 verklegum tímum að vera lokið hjá ökukennara fyrir skriflega prófið . Ef um lesblindu er að ræða þá pantar ökukennarinn prófið . Síminn hjá prófadeild Frumherja er 570-9070 . Verklega prófið er hægt að panta þegar Ö 3 hefur verið lokið ásamt því að skriflega prófinu hefur verið náð . Verklega prófið má taka tveimur vikum fyrir 17 ára afmælisdaginn . Ökukennarinn sér um að panta verklega prófið . Skriflegt próf kostar 3,100 . - Ef endurtaka þarf próf verður að borga fullt verð að nýju fyrir prófið .
Vöru er einungis hægt að skila í vöruafgreiðslu Advania og ber kaupandi ábyrgð á að kreditreikningur og / eða móttökukvittun sé í samræmi við vöruskil . Vöru fæst aðeins skilað ef eftirfarandi skilyrðum er fullnægt : Varan er sannanlega gölluð . Allar handbækur , fylgihlutir , fylgigögn og umbúðir fylgi með í upprunalegu ástandi . Varan er algjörlega í upprunalegu ásigukomulagi án sjáanlegra skemmda . Innan við 30 dagar eru frá afhendingu vörunnar eða uppgötvunargalla , ef kaupandi sýnir fram á að galli hafi uppgötvast síðar . Sérpantaðri vöru fæst ekki skilað nema varan sé verulega gölluð . Vörur á kaup - , fjármögnunar - eða rekstrarleigu fæst aðeins skilað í samræmi við ákvæði viðkomandi samnings .
Advania er tilnefnt í tveimur flokkum . Öll félög innan samstæðunnar stóðu sig betur á fyrri árshelmingi 2012 en áætlanir gerðu ráð fyrir , að undanskildu Advania í Noregi . Nú geta viðskiptavinir Hátækni nálgast fjölbreytt úrval Dell tölva í versluninni og mun Hátækni leggja áherslu á að bjóða vandaðar fartölvur sem henta þörfum kröfuharðra einstaklinga . Samhliða þessu er fyrirhugað að Skúli setjist í stjórn Skýrr á næsta aðalfundi félagsins . Á fundinum munu sérfræðingar Skýrr og alþjóðlega öryggisfyrirtækisins HID kynna hvernig byggja má upp örugg starfsmannakort með öllum aðgangi á einu korti og sýna hvaða möguleikar opnast við innleiðingu þeirra . Á fundinum munu sérfræðingar í viðskiptagreind hjá Landsbanka Íslands og N1 segja reynslusögur um notkun fyrirtækjanna á viðskiptagreind . Einnig munu sérfræðingar hjá Skýrr sýna nokkur af þeim tólum sem helst eru notuð í þessu fagi . Verðlaunin voru veitt fyrir mesta fjölgun viðskiptavina á þessu markaðssvæði á yfirstandandi ársfjórðungi . PageID = 93 ea 826c - a 11a - 4873 - 9030 - d 609 e 44376 ab & NewsID = fc 1 c 3853 - 0 c 72 - 4543 - b 1 fb - 37952 b 595 f 44 Hatarðu að gata ? Skeytamiðlun Skýrr sparar tíma , vinnu og peninga með því að móttaka , meðhöndla og senda rafræna reikninga . Þjónustan hentar öllum fyrirtækjum og stofnunum , óháð stærð þeirra . PageID = 93 ea 826c - a 11a - 4873 - 9030 - d 609 e 44376 ab & NewsID = cd 4 fede 4 - b 89c - 4484-8239-2 a 709 b 0552 d 6
Tilbúið launafyrirtæki með greiðslutegundum Upplýsingar um starfsmenn skráir þú í launþegaupplýsingarnar . Fyrst og fremst er um skráningu persónuupplýsinga , skattkort og launakjör að ræða . Þú velur stærð á launakerfinu í samræmi við fjölda launþega . Minnsta launakerfið er fyrir hámark 3 launþega og það stærsta fyrir ótakmarkaðan fjölda starfsmanna . Með hjálp fastra launaseðla þarf aðeins að yfirfara og skrá þá launaliði sem eru breytilegir í launaútreikningnum eins og t.d. fjöldi tíma eða veikindadagar . Sjálfvirkur launaútreikningur Með TOK launum fylgir uppsett launafyrirtæki með greiðslutegundum og flokkum fyrir mánaðarlaun , dagvinnulaun , yfirvinnulaun , hlunnindi , orlof , staðgreiðslu o.s.frv . Hægt er að stofna greiðslutegundir fyrir hvern starfsmann með því að afrita greiðslutegundirnar sem eru til staðar eða stofna nýjar með hjálp flokka . Hentar fyrirtækjum af öllum stærðum og gerðum Einfalt í uppsetningu Tilbúið launafyrirtæki fylgir með greiðslutegundum Reiknað endurgjald Flutningur yfir í fjárhagsbókhald Hægt að skipta launakostnaði niður á víddir : deildir og verkefni Rafrænir launamiðar , launamiðar í skrá og launaframtal rafrænir launaseðlar Rafræn skil á staðgreiðslu og launatengdum gjöldum Innlestur úr tímaskráningarkerfum beint í dagbók Gögn fyrir Kjararannsóknanefnd Einfalt og þægilegt í hverjum mánuði Stuttu fyrir útborgun launa er búin til ný launakeyrsla . Þar sem fastir launaseðlar eru þegar til í kerfinu þarf aðeins að færa inn á þá launaliði sem hafa breyst . Að því loknu þarf aðeins að gera fimm einfaldar aðgerðir : Prentun skilagreina Gögn færð í fjárhagsbókhald Enginn tvíverknaður Þar sem allar upplýsingar um launaútreikning eru vistaðar í TOK launum tekur aðeins nokkrar mínútur að ganga frá launamiðum og launaframtali í lok árs . Hægt er að senda þessi gögn rafrænt til skattstjóra . Mikið úrval af skýrslum Kerfið býður upp á mikið úrval af skýrslum . Fyrir utan skýrslur sem varða launaútreikninginn beint er einnig að finna lista yfir heimilisföng , símanúmer og afmælisdaga starfsmanna . Mjög einfalt er einnig að flytja skýrslur í skrá til að vinna áfram í Excel . TOK þjónusta gerir lífið léttara Með því að bæta við þjónustusamningi tryggir þú þér aðgang að ráðgjöf , reglulegum uppfærslum og ýmsu öðru sem auðveldar þér lífið í þínum daglega rekstri . Þjónustuver TOK - 440 9900 TOK þjónustuverið er opin frá kl. 9 til 17 virka daga . Þar svarar starfsfólk TOK þjónustunnar þínum spurningum , aðstoðar og styður við þig og þína starfsemi . Kannski hefur eitthvað breyst í verkferlum fyrirtækisins , þú þarft að vinna aðgerð sem þú gerir sjaldan , eða nýr starfsmaður hefur hafið störf ? Fræðsla TOK Viðskiptavinir með þjónustusamning fá eitt frítt námskeið fyrir einn starfsmann á ári ásamt 15% afslátt af öðrum námskeiðum sem Advania býður upp á . Uppfærslur Þegar þú kaupir TOK Laun , samræmist kerfið þeim lögum og reglugerðum sem gilda þegar kerfið er keypt . Hins vegar breytist markaðsumhverfi fyrirtækja stöðugt og hafa þessar breytingar bein áhrif á daglegan rekstur fyrirtækja . Með þjónustusamningi getur þú verið viss um að kerfið þitt sé í takt við þau lög og reglugerðir sem gilda á hverjum tíma . Margt fleira ... Að auki er margt fleira innifalið í þjónustusamningi . Þar á meðal er 15% afsláttur af útseldri vinnu og fjartengingum , rafrænt fréttabréf TOK , fræðslumorgnar og margt fleira . Hvað geri ég ef ég lendi í vandræðum ? Þjónustudeild okkar er ætíð tilbúin að liðsinna þér ef þú lendir í einhverjum vandræðum . Hægt er að hafa samband við okkur í síma 440 9900 . Er erfitt að nota TOK laun ? Nei , markmið þróunar á TOK launum er ætíð að reyna að gera vinnu við launaútreikning einfalda og þægilega . Er hægt að vera með fleiri en einn notanda inni í TOK launum í einu ? Já , þú kaupir einfaldlega leyfi fyrir fleiri notendur . Verð ég að kunna allt um laun til að geta notað TOK laun ? Launakerfi geta aldrei gert allt og þarft þú t.d. að geta sett inn launakjör einstakra starfsmanna í samræmi við kjarasamninga og lög sem gilda . Ákveðin grunnþekking er því nauðsynleg . Þú getur aflað þér þessarar þekkingar , t.d. með því að hafa samband við samtök atvinnurekenda , Ríkisskattstjóra og lífeyrissjóði . Er hægt að nota TOK með öðrum kerfum eins og t.d. tímaskráningarkerfum ? Já , hægt er að lesa inn skrár úr Bakverði , Tímon , Marel og fleiri tímaskráningarkerfum . Einnig er hægt að senda upplýsingar um launauppgjör yfir í TOK bókhaldskerfin , Microsoft Dynamics Ax ( Axapta ) , Navision , TOK plús og fleiri bókhaldskerfi . Hvaða stýrikerfi þarf til að keyra TOK laun ? Við mælum með Windows 7 fyrir nýjustu útgáfurnar af TOK launum . Get ég stækkað TOK laun ef starfsmönnum fjölgar ? Já , þú getur alltaf uppfært í stærra kerfi þegar að því kemur . Við tökum einfaldlega hitt kerfið upp í . Hvernig læri ég að nota TOK laun ? Öflug vefhjálp er inn í TOK launakerfi og eru hjálparhnappar um allt í kerfinu sem aðstoða við notkun . Einnig bjóðum við upp á námskeið í notkun kerfanna . Get ég sjálf ( - ur ) sett upp TOK laun ? Já , TOK laun eru sótt beint inn á mínar síður hér á síðunni . Hvernig veit ég hvaða kerfi ég þarf ? Við viljum að þú veljir rétta stærð af TOK launum , hvorki of lítið né of stórt . Minnsta launakerfið er fyrir hámark 3 launþega og það stærsta fyrir ótakmarkaðan fjölda starfsmanna . Kerfiskröfur fyrir TOK Laun Uppsetning Stýrikerfi TOK PSQL v 11 miðlari * Ef fjöldi notenda er orðinn meiri en 3 mælum við með því að settur sé upp sérstakur netþjónn með afritunarkerfi .
S5 Ábendingar er notendavænt og heildstætt hugbúnaðarkerfi til þess að halda utan um og vinna úr ábendingum og kvörtunum . S5 Ábendingar er lausn sem styður allt ferlið frá því að ábending eða kvörtun er skráð þar til úrbótum vegna hennar er lokið á farsælan hátt . S5 Ábendingar nýtist fyrirtækjum sem vilja tryggja að ávallt sé gripið til viðeigandi ráðstafana vegna ábendinga og kvartana sem þeim berast og að sífellt sé unnið að endurbótum sem taldar eru skila fyrirtækinu ávinningi . S5 Ábendingar er veflausn og því aðgengilegt öllum skilgreindum notendum sem aðgang hafa að veraldarvefnum . Viðmót kerfisins er notendavænt og auðvelt er að læra á það . Kerfið uppfyllir kröfur gæðastaðalsins ÍST ISO / IEC 9001 . Ummæli viðskiptavinar Hjá Kópavogsbæ notum við S5 kerfið til að halda utan um ábendingar frá bæjarbúum og starfsmönnum , kvartanir um hnökra í gæðakerfinu , skýrslur innri úttekta og úttektaráætlanir . Kerfið er mjög auðvelt í notkun og varðveitir gögn á einfaldan og skipulegan hátt . Notkun S5 kerfisins hefur auðveldað alla vinnslu í framangreindum þáttum gæðakerfisins .
Visita er einföld og ódýr lausn fyrir gestamóttöku í fyrirtækjum og stofnunum . Kerfið er fljótlegt í uppsetningu og hagkvæmt í rekstri . Með Visita er gert ráð fyrir að gestir geti skráð sig inn á tölvu sem er staðsett í afgreiðslu fyrirtækisins . Skráningar færast í gagnagrunn og starfsmenn afgreiðslu staðfesta komu og brottför gesta í gegnum umsjónarvef á innraneti sem þeir hafa aðgang að . Jafnframt prentast út miðar með upplýsingum um gesti sem þeir bera á sér meðan þeir eru í húsnæði fyrirtækisins . Hægt að fá yfirlit yfir hverjir eru í húsinu á hvaða tíma Tímasparnaður þar sem ekki þarf að skrá gesti sérstaklega Nútímalegt fyrirkomulag Gestir fá spjöld með sínu nafni Skráð hvaða gestur er á ábyrgð hvaða starfsmanns , eykur öryggi
Advania sérhæfir sig í að útfæra lausnir fyrir smátæki , spjaldtölvur og snjallsíma . Forritaður er hugbúnaður fyrir Android , iPhone og Windows Mobile . Þekking okkar spannar allt frá greiningu og hönnun til útfærslu og útgáfu . Unnið er í nánu samstarfi við útlitshönnuði Advania sem hafa langa reynslu af hönnun á notendaviðmóti . Meðal verkefna okkar eru lausnir fyrir viðskipta - og bókhaldskerfi , heilbrigðissvið , almennar upplýsingaveitur auk sérsmíði fyrir viðskiptavini .
Til þess að styrkja stöðu viðskiptavina hvað varðar birgðahald ætlar Advania að bjóða upp á ráðgjöf í vörustjórnun . Advania ætlar að bjóða viðskiptavinum sínum upp á reglulega ástandsskoðun á stöðu birgðamála , koma með tillögur til úrbóta og fylgja eftir úrbótatillögum . Sérfræðingur á sviði vörustjórnunar vinnur úttekt á stöðu birgðamála , skoðar ferla og þau kerfi sem er verið að nota og gefur álit á hvort betur megi nýta þau eða hvort bæta megi við lausnum til að hagræða í rekstri , draga úr birgðakostnaði , minnka fjárbindingu , auka afhendingaröryggi svo eitthvað sé nefnt . Að lokinni úttekt er gefið út ástandsvottorð þar sem fram kemur ákveðið mat á stöðu birgðamála ásamt lykiltölum . Ef vill er samið um nýja ástandsskoðun að ákveðnum tíma liðnum þar sem skoðað er hvernig til hafi tekist . Ástandsskoðunin fer fram á eftirfarandi hátt : Heimsókn skipulögð Ákveða tíma fyrir heimsókn Fá heimild til að taka tölur til mælingar Úttekt á notkun kerfisins Grunnupplýsingar Niðurstaða úttektar Úttektarblað fyrir viðskiptamann Grunnupplýsingar Niðurstaða úttektar Tillögur um endurbætur Fara yfir úttekt á kerfinu / ferlum Að hverju er stefnt í notkun kerfisins ? Hvaða lausnir höfum við ? Ástandsvottorð Vottorð fyrir úttekt Stefnumótun getur tekið á heildarsýn eða jafnvel á ákveðnum þætti , svo sem stefnu í vefmálum . Einnig er vert að leggja fram stefnu um öryggismál . Ráðgjafar Advania hafa mikla reynslu og yfirsýn yfir þarfir fyrirtækja og möguleika til framtíðar , sem er nauðsynlegt þegar kemur að stefnumótun . Kafað dýpra í hugmyndir og þarfir fyrirtækja Forgreining er að vissu leyti náskyld stefnumótun , nema hvað þar er farið nánar í hugmyndir og þarfir fyrirtækja , leitað að ákveðnu marki og lagður fram vegvísir , áhættumat og jafnvel áætlun við að ná fyrrgreindu marki . Slík forgreining getur t.d. komið inn á val á hugbúnaði , skilgreint þörf fyrir þjónustuvef eða möppun á hvaða hluta viðskiptakerfa fyrirtæki ætti að nýta .
Fullkomin gagnaleyndFyllsta öryggis er gætt og nýjasta tækni í öryggismálum með 128 bita dulkóðun ( Advanced Encryption Standard ) er notuð . Þetta tryggir að allar Logmein tengingar eru algerlega öruggar . Heimildir og stjórnun á yfirtökuViðskiptavinur þarf alltaf að samþykkja að starfsmaður Advania taki yfir tölvuna þeirra . Á engan annan hátt getur starfsmaður Advania tengst viðskiptavinum . Að auki hafa viðskiptavinir fullkomna stjórn á mús og lyklaborði þegar tenging hefur átt sér stað og geta hvenær sem er rofið tengingu . YfirtakaViðskiptavinur þarf alltaf að smella á krækjuna hér fyrir neðan svo þjónustufólk Advania geti tengst . Misjafnt er eftir samningum viðskiptavina hvort greitt sé fyrir þessa þjónustu . Leiðbeiningarnar eru miðaðar við Dynamics AX 2009
Hjá Advania starfar stór hópur sérfræðinga í tengslum við ráðgjöf og þjónustu á Microsoft Dynamics NAV . Um er að ræða reynslumikinn hóp með mikla þekkingu sem nýtist vel við ráðgjöf og þjónustu til kröfuharðra viðskiptavina okkar . Okkar viðfangsefni eru innleiðingar , ráðgjöf , verkefnastýring , þjónustuheimsóknir , móttaka þjónustusímtala og þjónustubeiðna sem dæmi . Markmið Advania er að tryggja að viðskiptavinurinn nýti sem allra best þá fjárfestingu sem liggur í viðskiptakerfi hans og að öll vinna við kerfið verði sem þægilegust og árangursríkust . Einnig veitum við liðsinni við ýmsar aðlaganir kerfisins að þörfum viðskiptavina okkar . Microsoft Dynamics NAV fyrir smærri fyrirtæki Advania býður mjög einfalda og þægilega upplýsingatækni fyrir smærri fyrirtæki . Í boði er fullkomið Microsoft Dynamics NAV til leigu . Kerfið er hýst miðlægt í öruggu umhverfi hjá Advania , stærsta hýsingaraðila Microsoft Dynamics hugbúnaðar á Íslandi . Helstu kostir leigunnar : Þann 1. maí 2013 kom út á Íslandi nýjast útgáfan af Microsoft Dynamics NAV en hún kom fyrst á markaðinn í október 2012 . Microsoft Dynamics NAV 2013 byggir á sömu tækni og var kynnt í Microsoft Dynamics NAV 2009 en býr þessi nýja útgáfa yfir nýjum eiginleikum og uppfærslum sem gefur enn betri stjórnun og eykur yfirsýn á afkomu fyrirtækisins . Margar skemmtilegar nýjungar litu þar dagsins ljós eins og aukinn hraði , samþætting við Microsoft Office , endurbætt víddarmeðhöndlun , eigið sjóðsstreymi og Vefbiðlari sem gerir alla fjarvinnslu mjög auðvelda . Til að fá nánari útlistun hverjar þær eru skaltu smella HÉR . Það var í Microsoft Dynamics 2009 þar sem kynnt var fyrst hið nýja tækniskipulag , þ.e. hinn Hlutverkamiðaða biðlara eða RoleTailored Client . Þessi nýji biðlari einfaldaði allan aðgang fyrir notandann að þeim hlutum kerfisins sem hans þarfnaðist til daglegra nota við vinnu sína í NAV heldur einnig er hann samþættur við aðrar Microsoft vörur og tækni eins og Outlook og Internet Explorer . Eftir að NAV 2009 kom út hafa þegar komið tvær þjónustu uppfærslur en þessi útgáfa er einning þekkt undir nafninu 6.0 . NAV Eldri útgáfur Það er orðið langur listinn af útgáfum og mismunandi heiti í gegnum tíðina . Algengast á Íslandi eru útgáfurnar frá 3.70 og uppí 5.0 en þessar útgáfur eru nú ekki lengur þjónustaðar af Microsoft þar sem þeir þjónusta alltaf bara tvær nýjustu útgáfurnar . Ef þú vilt kynna þér hvaða breytingar og viðbætur hafa verið að koma á milli útgáfa er gott að fara inná þessa vefsíðu hjá Microsoft og skoða samanburðinn
Oracle launakerfið er fjölhæft launakerfi sem hentar vel stórum fyrirtækjum með marga starfsmenn og mismunandi samninga og launakjör . Kerfið hefur verið aðlagað íslenskum aðstæðum , til dæmis vegna samninga við stéttarfélög , notkunar á skattkortum og aðildar að lífeyrissjóðum . Kerfið hefur vefrænt notendaviðmót eins og aðrir kerfishlutar Oracle viðskiptalausna . Notendum nægir því aðgangur að vafra til að slá inn eða lesa upplýsingar úr kerfinu . Staðfært til að henta íslenskum aðstæðum Samnýtir starfsmannaupplýsingar með mannauðskerfi Tenging við þjóðskrá og Reiknistofu bankanna og sjálfgefin gildi minnka þörf fyrir innslátt Villuleit við innslátt eykur gæði gagna Tengist sérsmíðuðum kerfum Advania eins og VinnuStund og Ráðningakerfi Hægt er á auðveldan hátt að reikna laun fyrir einstaka starfsmenn , til dæmis ef þörf er á að skoða niðurstöðu fyrir nýráðinn starfsmann . Eftir slíka launakeyrslu er hægt að skoða rafrænan launaseðil með öllum niðurstöðum keyrslunnar . Launakeyrslu fyrir alla starfsmenn má framkvæma eins oft og þurfa þykir fram að útborgunardagsetningu , sé þörf á leiðréttingum . Launaseðlar geta verið sendir í heimabanka , birtir í sjálfsafgreiðslu starfsmanna og yfirmanna eða prentaðir og sendir í pósti . Greiðsla launa er með rafrænu innleggi í banka eða ávísun sé þess óskað . Yfirmenn geta skoðað launaseðla sinna undirmanna . Yfirmenn geta einnig séð um launabreytingar sem er valkvæmt hvort er samkvæmt samþykktarferli eða ekki . Hægt er að fletta upp niðurstöðum launakeyrslu fyrir alla starfsmenn í einni skjámynd og skoða þar rafræna launaseðla . Kerfinu fylgja ýmsir staðlaðir listar , skýrslur og hefðbundnar fyrirspurnir , en einnig er hægt að sérsmíða ýmsar skýrslur eftir þörfum viðskiptavinarins . Eins má tengja launakerfið við greiningarkerfi sem gerir endanotendum kleift að taka út ýmsar lifandi skýrslur á auðveldan hátt . Mikið er um viðbótarskráningarsvæði sem tengjast ýmist starfsmanni , starfi eða launategundum . Upplýsingar sem þar eru skráðar er síðan hægt að nota við ýmsa flokkun og skýrslugerð . Íslenskri staðfæringu af kerfinu fylgir það úttak sem nauðsynlegt er til að uppfylla kröfur aðila eins og Ríkisskattstjóra og Hagstofunnar . Ef um aðrar sérþarfir er að ræða notar Oracle kerfið opna staðla og skilgreind viðmót inn í kerfið til innlestrar á upplýsingum . Frekari upplýsingar , ítarefni og greinar um mannauðskerfi Oracle ( Oracle Human Recource System ) og einingar þess er að finna á vefsvæði Oracle , www.oracle.com .
Skeytamiðlun Advania er þjónusta fyrir rafræn viðskipti í atvinnulífinu . Þjónustan er miðlæg og gerir mögulega rafræna dreifingu pantana og reikninga milli aðila sem tengjast miðluninni . Flest fyrirtæki og stofnanir geta með einföldum hætti tekið upp pappírslaus viðskipti . Tilkostnaður við pappírslaus viðskipti er lítill og hagræðing mikil . Örugg rafræn viðskipti og hraðari vinnsla á pöntunum Einfaldar ferla og bætir upplýsingagjöf Ummæli viðskiptavinar Við höfum starfað náið með Advania við upptöku rafrænna reikninga og það samstarf hefur verið mjög gott og gefandi . Árangur af rafrænum reikningum er ótvíræður og þjónusta Advania hefur verið til fyrirmyndar . Fyrirtæki ákvað að byrja í rafrænum viðskiptum fyrri 4 mánuðum Fyrirtækið sendir í dag um 300 rafræna reikninga á mánuði Áður kostaði hver reikningur um 200 krónur Núna kostar hver reikningur um 29 krónur Sparnaður Pappíslaus viðskipti Fyrirtæki og stofnanir geta með einföldum hætti tekið upp pappírslaus viðskipti . Advania býður upp á heildarlausnir fyrir fyrirtæki , jafnt stór sem smá . Tilkostnaður við að taka upp pappírslaus viðskipti er lítill en hagræðingin mikil . NES-viðskiptastaðallinn Frá árinu 2005 hefur verið unnið að samnorrænum staðli fyrir rafræn viðskipti . Staðallinn kallast NES og á rætur að rekja í EDI-heiminn . NES staðallinn býður upp á ýmis form viðskipta , allt frá einföldum reikningum til flókinna innkaupaferla . Skeytamiðlun Advania styður að fullu flutning á NES-skeytum . Með því að stunda rafræn viðskipti í gegnum Skeytamiðlun Advania er búið að tryggja öryggi og auka hagræði við meðhöndlun gagna . Aukaþjónusta í boði Samhliða því að dreifa viðskiptagögnum með rafrænum hætti á öruggan máta býður Skeytamiðlun Advania upp á margskonar aukaþjónustu til handa sínum viðskiptavinum . Þessi aukaþjónusta er hugsuð sem valmöguleika fyrir fyrirtæki eða stofnanir til að geta hagrætt enn frekar . Prentun hjá Advania Grunnskeyti , send og móttekin að 50 kB * Afsláttur miðast við magn á mánuði Nettó verð Aukagjald fyrir hver 50 kB umfram grunnskeyti Birting á sértæku stílsniði með einni uppsetningu
Get ég notað Office 365 á léni fyrirtækisins ? Já þetta er hægt . Sjálfgefið er að Microsoft úthluti léni til nýrra viðskiptavina á forminu NAFNFYRIRTÆKIS.ONMICROSOFT.COM en þessu má breyta yfir í lén fyrirtækisins Advania veitir alla aðstoð við að stilla upp tölvupósti og Sharepoint Online síðum upp á léni fyrirtækisins sé þess óskað Hver er ábyrgðaraðili fyrir þjónustuna Viðskiptavinir eru með hugbúnaðinn í Office 365 í áskrift hjá Microsoft sem ábyrgist virkni hans og aðgengi samkvæmt skilmálum frá Microsoft Getur Microsoft tryggt að gögn séu aðeins hýst á Evrópska Efnahagssvæðinu ? Skv. upplýsingum frá Microsoft þá er gögn íslenskra fyrirtækja hýst í gagnaveri á Írlandi . Ef eitthvað kemur upp á í því gagnaveri eru gögn flutt til Hollands . Ef Microsoft þarf að færa gögnin út fyrir Evrópska Efnahagssvæðinu þá er Microsoft með svokallaða Safe Harbour stöðu Get ég sjálf ( ur ) sinnt notendaumsjón og stýringu á Office 365 hugbúnaði sem ég er með ? Já , Microsoft lætur viðskiptavinum sínum í té stjórnborð fyrir þetta . Sé þess óskað getur Advania séð um alla notendaumsjón og stýringar . Hafðu samband við Advania til að fá nánari upplýsingar . Er hægt að nota Office 365 með Mac tölvum Hvernig virkar prufuáskrift að Office 365 Prufutíminn á Office 365 ( e. Trial ) stendur yfir í 30 daga . Eftir það þarf að ákveða hvort viðkomandi fyrirtæki vilji greiða fyrir áskrift . Meginreglan er sú að í prufuáskrift í Enterprise ( E ) áskriftarleiðum er hámarksfjöldi notenda 25 . Í áskriftarleiðinni fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki ( P ) er hámarksfjöldi notenda 10 . Ég er þegar með nýjustu útgáfurnar af Office , Exchange , Sharepoint og hýsi þennan hugbúnað sjálfur eða hjá hýsingaraðila – á ég að samt að skoða Office 365 ? Það fylgja margir kostir að nýta Office 365 . Þú greiðir aðeins fyrir þann hugbúnað sem reksturinn þinn þarf og það er alltaf tryggt að þú ert með nýjustu útgáfu af þeim hugbúnaði sem er innifalinn í Office 365 . Hafðu samband við okkur með því að senda okkur póst Hvers vegna er gjaldfært fyrir Office 365 í Evrum ? Þegar fyrirtæki fara í Office 365 áskrift er það Microsoft sem veitir þjónustuna og gjaldfærir fyrir áskriftina . Hvaða þjónustu veitir Advania í tengslum við Office 365 Advania getur veitt fjölþætta þjónustu við þá sem hagnýta Office 365 . Við veitum ráðgjöf við val á áskriftarleiðum , aðstoðum við innleiðingu og getum sinnt notendaaðstoð í gegnum þjónustuver okkar sem er opið allan sólarhringinn , alla daga ársins , allt árið um kring . Hvaða þjónustuloforð hefur Microsoft fyrir Office 365 ? Hvaða innleiðingarvinnu þarf að fara í ef ég vil hagnýta Office 365 Umfang innleiðingingarvinnu vegna Office 365 veltur á því hvaða hugbúnaður er þegar í notkun og hvaða Office 365 hugbúnað á að innleiða . Skilgreina þarf aðgang notenda að hugbúnaði og gögnum . Síðan þarf að panta aðganga fyrir notendur , stofna þá inn , færa gögn yfir á tölvuskýið hjá Microsoft , setja upp hugbúnað á útstöðvar og sannreyna að allir hafi þann aðgang að hugbúnaði og gögnum sem þeir þurfa . Hvaða áskriftarleiðir eru í boði ? Office 365 felur í sér nokkrar áskriftarleiðir . E 3 áskriftarleiðin hentar kröfuhörðum notendum en hún innifelur Office Professional Plus pakkann , Sharepoint Online ( 10 GB per fyrirtæki + 500 MB per notanda ) , Lync Online og Exchange Online ( 25 GB pósthólf fyrir hvern notanda ) . Hjá minni fyrirtækjum og einyrkjum ( 1 - 25 notendur ) þar sem vefaðgangur að Word , Excel og Powerpoint og tölvupósti dugar má skoða P1 áskriftarleiðina . K1 og K2 áskriftarleiðirnar veita aðgang að vefpósti ( Exchange Online ) , 500 MB tölvupósthólfi , Sharepoint Online og eftir atvikum Office Web Apps .
Náðu tökum á öflugu greiningartæki fyrir Excel PowerPivot er viðbót í Excel sem er öflugt greiningartæki sem ætlað að betrumbæta annmarka PivotTable . PowerPivot auðveldar aðgengi að gögnum og alla gagnavinnslu . Námskeiðið er fyrir vana notendur sem sinna mikilli og flókinni úrvinnslu upplýsinga og vilja ná meiru út úr Excel . Námskeiðsinnihald : • Uppsetning á PowerPivot • Uppbygging og helstu aðgerðir í PowerPivot • Flytja inn gögn frá mismunandi gagnalindum • Vinna með innflutt gögn • Mælikvarðar og útreiknuð svæði Dax forritunarmálið fyrir PowerPivot • Dagsetninga - og tímaföll • " Snjöll " tímaföll • Upplýsingaföll • Önnur föll Pivot-töflur • Vinna með dagsetningar • Birta sömu gögn með mismunandi hætti • Bæta við mælieiningum • Prentun : vinna með útlit tafla Þetta námskeið er 2 morgnar , kennt 21 og 22 maí frá 09:00 til 12:00
Farið er yfir birgðakerfi og uppsetningu á vörutegundum . Einnig er farið yfir innkaupakerfi , hvernig virkni pantanakerfis er og kostina við að nýta sér nýtt innkaupaferli í ÓPUSallt . Farið yfir tengingu við tollkerfi og verðútreikning , nýja virkni sem kemur í útgáfu 2012 . Þetta námskeið hentar vel fyrir þá sem vinna við Innkaup , tollafgreiðslu eða lagerstörf . Verð : Námskeið endar : 02. ágúst 2011 kl : 00:00 Flokkar : Ekki er lengur opið fyrir skráningu á þetta námskeið !
Verkstæðið sér um ábyrgðarviðgerðir , þjónustu , uppsetningar og aðrar viðgerðir á notendabúnaði eins og útstöðvum , prenturum , skjám og jaðartækjum . Starfsmenn verkstæðis hafa áralanga reynslu af viðgerðum og verkstæðið er vottað sem Dell Authorized Service Provider en Dell gerir mjög strangar kröfur til sinna samstarfsaðila um þjónustustaðla . Verkstæði Advania Verkstæðið er opið alla virka daga frá kl. 9 - 17 Uppfærsluráðgjöf Á verkstæðinu bjóðum við upp á faglega ráðgjöf um hentugar og skynsamar leiðir til að uppfæra tölvuna þína . Það getur skipt sköpum að rétt sé staðið að slíku svo hægt sé að ná sem mestu út úr búnaðinum með sem minnstum kostnaði . Viðbótarþjónusta Verkstæðið býður upp á ýmsar viðbótarþjónustur , t.d. vírus - og rykhreinsun , gagnabjörgun og einnig er flýtiþjónusta í boði sé þess óskað .
Föstudagsmessa um gagnlegar nýsköpunarlausnir ( #sprotar ) Hér eru glærur frá síðstu föstudagsmessu Advania á vorönn 2012 . Að þessu sinni breyttum við dálítið til , stigum til hliðar ( svona að mestu ) og eftirlétum nokkrum flottum sprotafyrirtækjum sviðsljósið . Þemað var „ gagnlegar UT-lausnir fyrir atvinnulífið “ . Við fengum til okkar kolmagnaða snillinga frá sex sprotafyrirtækjum , sem sögðu okkur frá leitarþjónustu , gagnavinnslu , upplýsingaveitum , IP-óháðum vef og menntalausnum , ásamt því sem við laumuðum inn smávegis spjalli um appþróun hjá Advania . Smelltu á heitin á fyrirlestrunum hérna fyrir neðan til þess að skoða glærurnar .
Senda póstRagnheiður starfar sem ráðgjafi í mannauðskerfi Oracle og hefur sérhæft sig í fræðslumálum , starfsþróun , starfsmannasamtölum og frammistöðumati . Ragnheiður gengur á fjöll og dansar Bollywood í frístundum . Ragnheiður BjörgvinsdóttirRáðgjafi í Oracle mannauð og þróun Mannauðsstjórnun er ný grein sem hefur rutt sér til rúms á síðustu árum . Útgangspunktur mannauðsstjórnunar er sá að starfsfólk skipulagseininga er það sem fyrst og fremst gerir þeim kleift að ná árangri . Hvernig þarf gott mannauðskerfi að vera ? Gott mannauðskerfi styður við helstu aðgerðir mannauðsstjórnunar og styrkir starfsemi mannauðsdeilda . Af notkun mannauðskerfa hlýst ákveðið hagræði . Með skilvirkri notkun þeirra fer minni tími starfsmanna mannauðsdeilda í rekstrarleg verkefni , eins og til dæmis að halda utan um starfsmannaskrá . Þetta gerir þeim kleift að einbeita sér að stefnumótandi mannauðsstjórnun . Til þess að ná ávinningi af fjárfestingu í mannauðskerfi þarf að leiða hugann að neðangreindum atriðum . Láttu kerfið vinna fyrir þig Sjálfvirkni í mannauðskerfum sparar mannauðsdeildum ( og líka öðrum starfsmönnum ) mikinn tíma . Til dæmis má láta ráðningarkerfi útbúa svarbréf til umsækjenda um starf og svara þannig stórum hópi á skömmum tíma . Þetta sparar ekki einungis tíma og vinnu heldur getur sjálfvirkni aukið samræmi og tryggt gæði í mannauðsstjórnun . Sjálfsafgreiðsla Með því að nýta sjálfsafgreiðsluviðmót mannauðskerfa geta starfsmenn og stjórnendur séð sjálfir um að skrá og viðhalda ákveðnum upplýsingum . Skráning á upplýsingum um menntun og námskeiðasókn hentar t.d. vel í þetta . Tími starfsmanna mannauðsdeilda sem annars færi í að skrá og viðhalda þessum gögnum getur þá nýst í önnur verkefni . Þetta eykur auk þess áreiðanleika upplýsinganna þar sem skráning þeirra færist nær uppruna upplýsinganna . Upplýsingar , ákvarðanir og endurgjöf Eins og með öll upplýsingakerfi er afar mikilvægt að réttar upplýsingar séu skráðar í kerfið frá byrjun . Tengja þarf mismunandi gögn saman þannig að þau veiti réttar upplýsingar til réttu starfsmannana á réttum tíma . Stefnumiðuð mannauðsstjórnun Nota má mannauðskerfi til að tengja saman stefnu fyrirtækisins við mannauðsstjórnun . Þannig getur rétt notkun mannauðskerfa gert fyrirtækinu mögulegt að þekkja hæfni starfsmanna og tengja hana við hæfnikröfur starfa og skipulagseininga , mæla frammistöðu og setja markmið . Einnig er hægt að setja upp ýmsa ferla mannauðsstjórnunar sem tryggja gæði og samræmi , til dæmis við starfsmannasamtöl og frammistöðumat . Með því að nýta mannauðskerfi á markvissan hátt má því ekki bara ná fram hagræði og aukinni skilvirkni heldur styðja við aðgerðir í mannauðsstjórnun og bæta þær og styrkja þannig stöðu mannauðsstjórnunar í skipulagsheildinni . Um höfundinn Ragnheiður Björgvinsdóttir lauk meistaraprófi í mannauðsstjórnun árið 2008 . Síðan þá hefur hún starfað sem ráðgjafi í mannauðskerfi Oracle og hefur sérhæft sig í fræðslumálum , starfsþróun , starfsmannasamtölum og frammistöðumati auk annarra viðfangsefna mannauðsstjórnunar . Ragnheiður gengur á fjöll og dansar Bollywood í frístundum . Hafa samband Advania býður upp á starfsmannakerfi fyrir allar gerðir fyrirtækja og stofnana . Ef þú vilt vita meira um mannauðskerfi hafðu þá samband við Ragnheiði með því að senda henni tölvupóst .
Sífellt eru gerðar meiri kröfur um upplýsingagjöf til stjórnenda fyrirtækja og annarra starfsmanna . Nánast daglega þarf að vera hægt að kalla fram greinargóðar skýrslur um fjárhagstöðu , birgðir og sölu . Með betri upplýsingakerfum og nútímatækni verður þetta auðveldara . Gott upplýsingakerfi sem hentar fyrirtækinu gefur þér góða yfirsýn yfir reksturinn . Þetta getur skipt sköpum í daglegum rekstri . Hvað er TOK ? Hvaða væntingar erum við með og hvaða eiginleikum viljum við að kerfið okkar búi yfir ? Flóra íslenskra fyrirtækja er fjölbreytt og þegar upplýsingakerfi er valið þarf að hafa það í huga . TOK er sérhannað fyrir íslenskan markað og hentar litlum og meðalstórum fyrirtækjum . TOK er upplýsingakerfi sem hefur staðið fyrirtækjum á Íslandi til boða í þrjá áratugi . Á þeim tíma höfum við byggt upp mikla reynslu og þekkingu á þörfum viðskiptavina okkar hvað varðar bókhalds - og launakerfi . Fjölbreyttur hópur notenda TOK bókhalds - og launakerfið hefur verið eitt af vinsælustu kerfum landsins um árabil . Þúsundir fyrirtækja sem starfa í öllum greinum atvinnulífsins nota kerfið . Á meðal viðskiptavina sem reiða sig á TOK eru stóreldhús , bakarí , verslanir , hárgreiðslustofur , verktakar og fiskvinnslur . TOK er kerfi sem stækkar með rekstrinum , hægt er að byrja með grunnkerfi og bæta við einingum eftir því sem fyrirtækið vex og dafnar . Auðvelt og einfalt er að bóka í kerfið . Allar aðgerðir eru mjög sýnilegar . Rafrænar tengingar , t.d rafrænir reikningar , greiðsluseðlar , virðisaukaskýrsla , staðgreiðsla , lífeyrissjóðsgjöld , stéttarfélagsgjöld og fleiri atriði . Innlestur bankafærslna beint í dagbók . Greinagóðar skýrslur sem aðstoða við eftirlit með kostnaði og tekjum . Auðvelt er að kalla fram Excel og Pivot töflur , ásamt algengustu skýrslum . Flýtiaðgerðir og öflug vefhjálp eru í kerfinu . TOK er í sífelldri þróun TOK bókhalds og launakerfi er í sífelldri þróun . Þróunardeild TOK er skipuð öflugu fólki sem vinnur við að styrkja TOK og bæta við nýjungum . Í þessum töluðu orðum er verið að skipuleggja hvað eigi að koma í næstu útgáfu og tökum við glöð á móti hugmyndum frá okkar viðskiptavinum . Framtíðarsýnin er að stjórnandi geti kallað fram skýrslur úr rekstrinum eða jafnvel gert færslur í gegnum snjallsíma eða spjaldtölvur . Einnig viljum við bæta við pantanaskráningum og verkskráningu . Hvert stefna upplýsingakerfi ? Pappírslaus viðskipti aukast dag frá degi . Tengjast má fjármálastofnunum landsins beint . Með Skeytamiðlun Advania má senda reikninga rafrænt beint til viðskiptavinar . Einnig má senda virðisaukaskýrslur , skilagrein staðgreiðslu lífeyrissjóða yfir internetið með öruggum hætti . Framtíðin er rafræn og þar leiðir TOK þróunina . Umsagnir viðskiptavina TOK hefur staðið undir öllum okkar væntingum . TOK er auðvelt í notkun . Þjónustan er góð og mæli ég með kerfinu . Góð eftirfylgni og þjónusta . Hafa samband Viltu vita meira um TOK ? Hafðu samband við Sigrúnu Eir með því að senda henni tölvupóst .
Senda póstÞórdís er þjónustustjóri TOK og hefur unnið hjá Advania frá 2006 . Hún hefur áratuga reynslu í launa - og bókhaldsvinnslum . Þórdís hefur mikinn áhuga á íslensku máli og er fíkin í glæpasögur . Hún hefur gaman af handverki og heklaði fullt af jólabjöllum í vetur . Þórdís er einnig laghentur smiður og geymir eigin framleiðslu í garðinum t.d. adirondack stólana sína . Margir segjast færa bókhald af illri nauðsyn . Það er nauðsynlegt svo hægt sé að búa til og skila inn ársreikningi og skattalegu uppgjöri . Ef þú vilt nýta fjárfestinguna í bókhaldskerfi út í ystu æsar skaltu hafa í huga að aldrei næst meira út úr kerfinu en sett er inn í það . Til að ná út góðum og gagnlegum upplýsingum er lykilatriði að skipuleggja bókhaldið vel . Margir kannast við það að ef hlutum er hrúgað einhvern veginn inn í bílskúr eða geymslu finnst aldrei neitt þegar á þarf að halda . En ef gengið er frá dóti í röð og reglu er auðvelt að finna það sem leitað er að hverju sinni . Nýjar upplýsingar nýtast best Sama lögmál gildir um bókhaldið . Vel skipulagt og fært bókhald getur gefið miklar og góðar upplýsingar um reksturinn , bæði tekjur og kostnað . Bókhaldið þarf að færa jafnóðum þar sem að nýjar upplýsingar nýtast best við að taka skynsamlegar ákvarðanir og þar með skila góðum rekstri . Dæmi : Þú er með gamla vél í rekstri og hún er notuð til að framleiða vöru . Þú er að velta því fyrir þér að endurnýja hana . Hvað þarftu þá að skoða ? Hvaða tekjur eru af vélinni ? Hvað kostar rekstur vélarinnar ? Þessar upplýsingar liggja allar í bókhaldsgögnunum og alltaf hægt að finna þær þar . Það fer alveg eftir því hvernig bókhaldið hefur verið skipulagt og fært hversu auðvelt er að nálgast upplýsingarnar . Hafi bókhaldið verið fært þannig að allur rekstrarkostnaður allra véla sé settur saman án þess að greina á milli hvað tilheyrir hvaða vél kostar það mikla vinnu að finna þessar upplýsingar . Hafi hins vegar verið hugað að því að hafa möguleika á greiningu kostnaðar niður á hverja vél þegar bókhaldið var fært , fást upplýsingarnar strax í skýrslu eða lista . Fleiri möguleikar en þú heldur Við sem þjónustum bókhaldskerfi vitum hvaða möguleikar eru í boði í hverju kerfi . Við getum aðstoðað þig við að stilla bókhaldskerfið þitt þannig að það nýtist þér sem einfalt og aðgengilegt upplýsingakerfi . Í upphafi skyldi endinn skoða . Hafðu samband Viltu vita meira um bókhaldskerfi og hagnýtingu . Hafðu samband við Þórdísi Guðrúnu með því að senda henni tölvupóst .
Senda póstBaldur er söluráðgjafi viðskiptalausna hjá Advania . Aðalverkefni hans eru tengd viðskipta - og upplýsingakerfinu Navision auk þess sem að hann hefur einskæran áhuga á að auka öryggi í kortaviðskiptum . Baldur er mikill áhugamaður um tuðruspark þar sem EM á hug hans allan þessa dagana auk þess sem hann slær hvítar kúlur á grænum grundum og skokkar um víðan völl þegar færi gefast . Baldur Örn BaldurssonSöluráðgjafi Nú stendur yfir verkefnið Pinnið á minnið en með því er notkun greiðslukorta með örgjörva innleidd á Íslandi . Tilgangurinn er að íslensk fyrirtæki , korthafar , útgefendur greiðslukorta og færsluhirðar uppfylli alþjóðlegar kröfur um öryggi í kortaviðskiptum . Innan skamms munu íslenskir korthafar því þurfa að leggja pinnið á minnið og staðfesta greiðslur með pinni ( PIN-númeri ) í stað undirskriftar , líkt og þekkist víða erlendis . Greiðsluveitan , dótturfyrirtæki Seðlabanka Íslands , hefur umsjón með verkefninu . Ávinningur verkefnisins Ávinningur af breytingunni er aukið öryggi fyrir korthafa og fyrirtæki sem taka við kortum . Með þessari breytingu mætir íslenskt samfélag kröfum alþjóðlegu kortafyrirtækjanna um öryggi í kortaviðskiptum . Þessar kröfur eru innleiddar um allan heim , til að sporna við fjársvikum skipulagðra glæpasamtaka . Posinn snýr að viðskiptavininum Fyrirtæki á Íslandi sem taka við kortagreiðslum setja nú upp posa sem snúa að viðskiptavinum , líkt og víða erlendis . Viðskiptavinurinn þarf þá ekki lengur að láta örgjörvakortið sitt af hendi þegar hann greiðir fyrir vörur og þjónustu . Starfsfólk á sölustöðum biður um staðfestingu með pinni í stað undirskriftar . Pinnið eru fjórir tölustafir sem korthafinn þarf að varðveita vel . Ef örgjörvakortinu er stolið er ekki hægt að nota það á sölustöðum sem krefst þess að viðskiptin séu staðfest með pinni . Ábyrgð söluaðila Eins og áður sagði hafa alþjóðleg glæpasamtök nýtt sér kortaupplýsingar til að framleiða fölsuð kort sem framvísað er um allan heim . Söluaðilar bera ekki ábyrgð á sviksamlegri færslu á örgjörvakorti sem tekið er á móti með örgjörvaposa , hafi hún verið staðfest á réttan hátt með pinni í stað undirskriftar . Söluaðilar bera hins vegar ábyrgð á sviksamlegri færslu ef segulrönd er notuð og færsla er staðfest með undirskrift . Með því að nota örgjörva í stað segulrandar og með því að staðfesta viðskipti með innslætti á PIN númeri í stað undirskriftar eru kortaviðskipti gerð enn öruggari . Hverju þurfa fyrirtækin að breyta ? Advania býður tengingu á milli kassa og örgjörvaposa í afgreiðslukerfum og oft þarf að aðlaga kassakerfi og annan búnað . Flestum dugar einn posi fyrir hverja útstöð . Örgjörvaposi sem bætist við útstöð afgreiðslukerfis er líklega nettengdur og því þarf að huga að netlögn að posanum ef hún er ekki fyrir hendi . Síðan þarf að finna hentuga staðsetningu fyrir posa sem snýr að viðskiptavini . Þjónustuaðilar örgjörvaposa eiga tilbúnar lausnir fyrir fyrirtæki með sjálfstæða posa , hvort sem hentar betur að setja upp tvo samtengda posa eða einn posa sem snúa má í báðar áttir . Annaðhvort þarf að uppfæra hugbúnað posans eða skipta yfir í örgjörvaposa . Styttist í að innsláttur á PIN númeri verði skylda Kortaútgefendur eru langt komnir með að skipta út segulrandarkortum fyrir kort með örgjörva . Skipta þarf út um 14.000 posum í verslunum og á þjónustustöðum um allt land . Til að breyting sem þessi geti gengið reynir á korthafana sem þurfa að leggja fjóra tölustafi á minnið . Enn er hægt að nota „ gömlu aðferðina “ ef korthafinn man ekki pinnið . Þessi möguleiki er þó aðeins leyfilegur tímabundið á meðan korthafar aðlagast nýju aðferðinni . Fljótlega verða allir beðnir um að staðfesta viðskiptin með pinni í stað undirskriftar . Í lokin má nefna það að hvorugkynsorðið pinn er nýyrði og fallbeygist eins og skinn . Hafðu sambandViltu vita meira um Pinnið á minnið verkefnið eða þarftu upplýsingar varðandi tengingar á milli kassa og örgjörvaposa í afgreiðslukerfnu ? Hafðu samband við Baldur Örn með því að senda honum tölvupóst .
Senda póstÞorsteinn er fæddur og uppalinn Skagfirðingur . Bjó sex ár í New York þar sem hann stundaði nám í Columbia fyrstu fjögur . Hann hefur lokið frumkvöðlanámi KLAK og er einn af tveimur stofnendum Naglans ( nagli.is ) . Þorsteinn starfar í Oracle vörustýringu , sem er hluti af viðskiptalausnum Advania . Þorsteinn Hjálmar Gestsson Það getur verið mikil fjárfesting í viðskiptahugbúnaði sem ætlaður er stærri fyrirtækjum frá hugbúnaðarrisum eins og til dæmis Microsoft , SAP og Oracle . Slíkur hugbúnaður er gjarnan kallaður „ Enterprise “ hugbúnaður sem þýðir að hann er ætlaður fyrir stórar skipulagseiningar . Fyrir fjárfestinguna fá notendur öryggi og áreiðanleika í rekstri og möguleika á mikilli gagnvirkni kerfishluta . Þessi hugbúnaður gerir stórum rekstrareiningum kleift að styrkja sjóðsstreymi og hagræða í rekstri með sjálfvirkni og stýrðum ferlum . Nýr heimur í hugbúnaðarþróun Það er hröð þróun í viðskiptahugbúnaði . Aðgengi að opnum hugbúnaði , stöðlun á tækniforskriftum og fjölgun frumkvöðla hefur skilar sér í ótal nýjungum . Nýir aðilar byggja vöruþróun og markaðssetningu gjarnan á ókeypis nýskráningu , einföldu viðmóti og áskriftargjöldum fyrir aukna virkni . Þetta lækkar eða fjarlægir hefðbundna þröskulda fyrir innleiðingu hugbúnaðar og kerfa hjá fyrirtækjum og stofnunum . Þessi þróun í átt að SaaS ( e. Software as a Service ) þvingar hugbúnaðarrisana til að endurhugsa leyfisskylda tekjumódelið sitt . Nýr heimur fyrir samskipti við notendur Notendur ætlast til að geta byrjað að nota / meta hugbúnaðinn án þess að ganga frá heljarinnar samning um leyfis - og þjónustugjöld . Með uppsetningu kerfa á tölvuskýi er ekkert mál að bjóða upp á ókeypis aðgang og svo skala eftir þörfum án þess að notendur finni fyrir breytingum . Litlir hugbúnaðarframleiðendur eru sveiganlegri og óhræddir við breytingar , eiga auðveldara með að meðtaka gagnrýni og uppfæra kerfi í samræmi við óskir notenda samhliða reglulegri útgáfu af nýjungum . Samfélagsmiðlar og spjaldtölvur / snjallsímar eru að formfesta nýtt notendaviðmót og gera notendur virkari í endurgjöf . Þessi viðskiptavinavæðing þvingar risana til að endurhugsa hvernig notendur vilja haga sínum samskiptum við kerfin . Nýr heimur fyrir hugbúnaðarrekstur Við erum í dag að taka smá skref í átt að stökki yfir í nýjan tækniplatform ( Mobile interface , Cloud , Apps , Social og Big data ) sem fela í sér víðtækar og áhrifamiklar breytingar á alla sem vinna í upplýsingatækni . Þessar breytingar gera jafnt kröfu um aðlögun sem og að skapa tækifæri fyrir vöxt og ný viðskipti . Upp á síðkastið hafa Enterprise aðilar verið duglegir að taka yfir fyrirtæki sem bjóða uppá þjónustu og lausnir í skýjum – allt sem hluti af því að byggja upp heildstætt umhverfi í skýjahöllinni sinni . Þegar fram líða stundir , er spurning hvort litlu aðilarnir nái að tengja lausnir sínar líkt og kerfishlutar í Enterprise , eða hvort risarnir verði nógu fljótir að aðlagast umhverfinu í þessum nýja heim tækninnar .
Senda póstStefán Hrafn stýrir samskiptasviði Advania , sem ber meðal annars ábyrgð á almannatengslum og viðburðum fyrirtækisins . Stefán Hrafn er fimm barna faðir , eiginmaður frú Valgerðar Gunnarsdóttur , fanatískur fótboltastrákur og ákafur ástríðukokkur . Haustráðstefna Advania verður haldin föstudaginn 7. september á Hilton-hótelinu í Reykjavík . Haustráðstefnan er stærsti viðburðurinn í íslenskri upplýsingatækni ár hvert og nú er svo komið að ákveðinn greinir er að festast við hana ... Í ár verða um 40 fyrirlestrar í boði á ráðstefnunni á 4 mismunandi þemalínum sparnaðar , hagnýtingar , fróðleiks og virkni . Liðlega helmingur fyrirlesara er erlendir sérfræðingar . Hátt í eitt þúsund gestir eru væntanlegir . Lykilræðu Haustráðstefnunnar að þessu sinni flytur Dan Lyons , tækniritstjóri alþjóðlega fréttatímaritsins Newsweek . Lyons mun fjalla um stefnur og strauma í upplýsingatækni . Hann gegndi áður stöðu tækniritstjóra hjá tímaritinu Forbes , verið blaðamaður í aldarfjórðung og hefur djúpa þekkingu á upplýsingatækni . Nýleg umfjöllunarefni Lyons hjá Newsweek hafa meðal annars verið Apple , Google , Facebook , Twitter , gervigreind og vélmenni . Svo skemmtilega vill til að fyrsti landsleikur íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu í yfirvofandi undankeppni HM fer fram þetta sama kvöld niðri í Laugardal ( skammt frá Hilton ) , kl. 18:45 . Af því tilefni hefur Advania ákveðið að bjóða öllum ráðstefnugestum á leik Íslands og Noregs strax að loknu veglegu lokapartý . Það má fastlega gera ráð fyrir því að hinir eitt þúsund ráðstefnugestir verði dágott hlutfall vallargesta . Haustráðstefnan 2012 er jafnan einstakt stefnumót upplýsingatækni og atvinnulífs og veitir gestum yfirgripsmikla sýn á stefnur og strauma . Þetta er átjánda árið í röð , sem hún er haldin – þegar sambærilegir viðburðir forvera Advania eru taldir með – og er gert ráð fyrir metaðsókn , enda mikil eftirspurn í samfélaginu fyrir gagnlega fræðslu um lausnir upplýsingatækni fyrir atvinnulífið . Þemalínur Haustráðstefnunnar að þessu sinni eru Sparnaður ( hagkvæmar lausnir fyrir stjórnendur ) , Hagnýting ( nýjungar í verslun og þjónustu ) , Fróðleikur ( aðferðafræði og verkefnastjórnun við allra hæfi ) og Virkni ( bland í poka fyrir kerfisstjóra og forritara ) . Við skipulagningu Haustráðstefnunnar er ávallt lögð áhersla á fræðslu , þekkingarmiðlun og faglega fyrirlestra sérfræðinga í fremstu röð . Húsið opnar 7:30 , setning verður 8:20 og formleg dagskrá klárast 16:30 þegar dagurinn verður toppaður með eiturhressu lokapartý og skemmtidagskrá . Advania hefur undanfarin ár verið að færa sig í aukana við margvíslega fræðslutengda viðburði . Þannig heldur fyrirtækið til dæmis um 15 morgunverðarfundi ár hvert og tekur einnig á móti fjölmennum hópum nemenda á öllum stigum íslenska menntakerfisins . Að öllu samanlögðu heimsækja Advania um 11 þúsund manns á ári í fróðleiksskyni , en enginn viðburður er þó stærri en haustráðstefnan sem laðar til sín hátt í þúsund manns á ári hverju . Að baki fræðsluviðburðum Advania er ákveðin og nokkuð afgerandi hugmyndafræði . Í fyrsta lagi hafa viðburðirnir reynst vel heppnuð leið til að færa virðisauka á samskipti fyrirtækisins við jafnt viðskiptavini sem aðra í samfélaginu . Í annan stað er góð aðsókn á viðburðina grundvölluð á því að þar á sér engin „ sala “ stað . Áhersla er lögð á þekkingarmiðlun sérfræðinga utan Advania , reynslusögur fólks úr atvinnulífinu og nýjungar . Að haustráðstefnunni undanskilinni eru allir viðburðir Advania opnir öllu áhugasömu fólki , hvort heldur það er meðal viðskiptavina fyrirtækisins eða ekki .
SharePoint er í notkun hjá fjölmörgum fyrirtækjum , stofnunum og félagasamtökum hér á landi . Á dögunum kom út ný útgáfa af þessum vinsæla hugbúnaði sem kallast einfaldlega SharePoint 2013 sem inniheldur mikið af nýjungum . Hér er farið yfir það allra helsta sem til nýjunga horfir . Auðveldara að setja eigið útlit á SharePoint síður Með nýju útgáfunni er auðveldara að setja klæðskerasaumað útlit á vefsíður sem eru hýstar í SharePoint og gildir þá einu hvort um er að ræða vefsíður sem eru ætlaðar innan fyrirtækisins eða fyrir ytri notendur eins og til dæmis viðskiptavini eða samstarfsaðila . SharePoint kemur sjálfsagt ekki öllum tilfellum í staðinn fyrir að vera með sérhæft vefkerfi fyrir stóra fyrirtækjavefi en getur hentað mjög vel fyrir innra net . Þessu til viðbótar þá hafa möguleikar fyrir vefstjórnun verið auknir verulega . Til dæmis er einfaldara að setja upp útgáfuferla á vefsíður í SharePoint 2013 en í 2010 útgáfunni . Betri samhæfing við ytri gagnalindir Með “ Business Connectivity Services ” má tengjast gagnalindum sem staðsettar eru fyrir utan SharePoint . Dæmi um þetta eru stuðningur við öpp og nýtt “ app store ” í SharePoint . Með SharePoint 2013 “ Event Listener ” má gerast áskrifandi að tilkynningum frá öðrum kerfum og fá áminningu þegar eitthvað breytist . Betri stuðningur við viðskiptagreind Í SharePoint 2013 er margháttaður stuðning við viðskiptagreind . Hægt er að nýta SharePoint Server 2013 til að setja upp mælaborð þar sem stjórnendur og starfsmenn geta fylgst með lykilþáttum í rekstri fyrirtækisins . Þarna kemur PowerPivot sterkur inn en við hann er fullur stuðningur í SharePoint 2013 . Auðvelt að nota snjallsíma og spjaldtölvur með SharePoint 2013 Vefsíður í SharePoint 2013 eru snjallar og laga sig að skjástærðum á því tæki sem þær eru skoðaðar í hverju sinni . Ennfremur er fjölmargt gert til að auka notagildi SharePoint 2013 fyrir notendur snjalltækja . Margvíslegar endurbætur hafa verið gerðar á leitinni í SharePoint 2013 . Til dæmis er hægt að fínstilla leitina til að auðvelda almennum notendum að finna efni við sitt hæfi og hægt að sjá innihald skjala beint úr leitarniðurstöðum án þess að opna skjalið . Breyttu innra netinu í samfélagsvef Það má segja að vinsældir samfélagsmiðla eins og Facebook og Twitter hafi „ smitast “ inn í SharePoint 2013 . Notendur geta nú deilt efni eða gerst áskrifendur að efni frá samstarfsaðilum og vinnufélögum . Ennfremur er auðveldara að vinna saman í verkefnum í gegnum SharePoint 2013 . Auðvelt er að setja upp umræðusvæði sem tengjast mikilvægum málefnum . Þetta er aðeins „ brot af því besta “ sem er nýtt og spennandi í SharePoint 2013 . Ekki hika við að hafa samband þið hafið einhverjar spurningar varðandi hagnýtingu og innleiðingu á SharePoint 2013 .
Á myndinni eru frá vinstri til hægri þeir Ívar Logi Sigurbergsson Advania , Gestur G. Gestsson Advania , Sveinn Víkingur Árnason ÁTVR , Grétar Mar Baldvinsson ÁTVR og Davíð Þór Kristjánsson Advania . Áhersla á hagkvæmni og öryggi ÁTVR hefur að undangengnu útboði samið við Advania um endurnýjun á kassakerfi í öllum Vínbúðunum , en þær eru tæplega 50 talsins . Samhliða hefur ÁTVR undirritað samning við Advania um endurnýjun á fjárhagslausninni Microsoft Dynamics NAV , ásamt heildarþjónustu í hýsingu og rekstri á fjárhagslausninni . Við undirbúning samstarfsins var lögð þung áhersla á hagkvæmni og öryggi hlutaðeigandi lausna . " Við hjá ÁTVR höfum langa reynslu af samstarfi við Advania á sviði upplýsingatækni , meðal annars þegar kemur að hugbúnaði og rekstri . Advania er sömuleiðis leiðandi aðili í hýsingu og rekstri kassakerfa og tengdra hugbúnaðarlausna . Endurnýjun sem þessi er stórt verkefni og að þessu sinni var gengið mjög langt í mannauðsmálum hvað snertir mikilvægar umbætur á vinnuumverfi starfsfólks Vínbúðanna . Undirbúningurinn gekk vel , innleiðingin er langt komin og niðurstaðan lofar góðu , “ segir Sveinn Víkingur Árnason , framkvæmdastjóri rekstrarsviðs ÁTVR . „ Það er sérstakt ánægjuefni þegar þjónustufyrirtæki í fremstu röð koma til okkar í viðskipti . Advania hefur um langt árabil fjárfest markvisst í aðstöðu , búnaði og þekkingu á sviði kassakerfa , viðskiptalausna , hýsingar og rekstrarþjónustu . Samningurinn við ÁTVR er gott dæmi um að viðskiptavinir okkar kunna vel að meta þessa uppbyggingu og þá þekkingu sem Advania hefur innanborðs , “ segir Gestur G. Gestsson , forstjóri Advania .

This is the Icelandic Common Crawl Corpus (IC3).

Downloads last month
84

Models trained or fine-tuned on mideind/icelandic-common-crawl-corpus-IC3